Borgarstjórinn kitlar Össur Skarphéðinsson, ef marka má fyrirsögn á viðtali í Blaðinu síðast liðinn föstudag. Ekki svo að skilja að Steinunn Valdís Óskarsdóttir sé að kitla Össur, heldur mun það vera embættið sjálft sem kitlar einhverjar taugar í honum. Ef til vill eru það gömlu borgarfulltrúataugarnar, en Össur átti hér á árum áður frækilegan feril sem frambjóðandi og varaborgarfulltrúi Alþýðubandalagsins. Helsta afrek Össurar á þeim árum átti sér stað í kosningabaráttunni fyrir tæpum tuttugu árum, árið 1986, þegar hann sagði vinstri menn í borginni ætla að reka alla embættismenn borgarinnar, eða eins og hann orðaði það á framboðsfundi nokkrum dögum fyrir kosningar:
Og svo ætlum við að byrja á því, sem við gerðum ekki illu heilli síðast, þegar við náðum borgarstjórnarmeirihluta, og það er að fæla alla embættismenn borgarkerfisins úr starfi. Mér er alveg sama, hvert við sendum þá; í öskuna eða látum þá sópa götur eða bara rekum þá. Þeir unnu skemmdarverk á síðasta kjörtímabili vinstri meirihlutans, og burt skulu þeir. |
Það reyndi að vísu ekki á þennan stjórnunarstíl Össurar að þessu sinni, því að vinstri menn náðu ekki meirihluta í borginni og embættismennirnir voru ekki fældir úr störfum sínum að kosningum loknum. Það fór þó ekki svo að Össur fengi ekki tækifæri til að kljást við embættismenn, því að á fyrri hluta síðasta áratugar varð hann umhverfisráðherra um hríð og var þá á köflum ósáttur við embættismenn sína. Eitt sinn sagði einn embættismaður Veiðistjóraembættisins skoðun sína opinberlega og fór hún ekki saman við skoðun ráðherrans. Þeim ágreiningi lyktaði að vísu ekki með því að embættismönnunum yrði falið að sópa götur, en þeir kvörtuðu undan því að Össur hefði haft í hótunum við þá. Skömmu síðar var embættið flutt frá Reykjavík til Akureyrar.
En aftur að viðtalinu í Blaðinu. Ljóst er að Össur Skarphéðinsson hefur ákveðið að láta reyna á það hvort hann geti ýtt Steinunni Valdísi til hliðar og orðið borgarstjóraefni Samfylkingarinnar fyrir borgarstjórnarkosningarnar á næsta ári. Hann segir það ekki beint út, en svona hér um bil. Um borgarstjórann segir hann þetta:
Sú manneskja sem gegnir embætti borgarstjóra hlaut það við sérstakar aðstæður þar sem mjög vinsæll og þekkilegur borgarstjóri varð að láta af völdum. Hún var borgarstjóri með samþykktum inni á flokkskontórum. Borgarstjóri þarf pólitískt umboð til að vera sterkur. Sterkur borgarstjóri verður ekki til úr hrossakaupum að tjaldabaki. Sá einstaklingur sem þannig hlýtur sitt embætti er alltaf ofurseldur kontóravaldinu. |
Nú varð „vinsæli og þekkilegi“ borgarstjórinn sem Steinunn Valdís leysti af, Þórólfur Árnason, reyndar líka til inni á flokkskontór. Og ekki mörgum kontórum, heldur á kontór Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. En hvað um það, ummæli Össurar eru athyglisverð, ekki síst þegar haft er í huga að hans menn í slagnum um formennsku í Samfylkingunni í vor kvörtuðu undan því að „ráðhússklíkunni“, sem þeir kölluðu svo, væri beitt með Ingibjörgu Sólrúnu gegn Össuri. Nú sér hann sér hins vegar leik á borði að styrkja stöðu sína innan flokksins á ný með því að losa sig við „ráðhússklíkuna“ og gerast sjálfur foringi Samfylkingarinnar í borgarstjórn. Þar með væri hann búinn að ná af Ingibjörgu Sólrúnu helsta vígi hennar og gæti byggt sjálfan sig upp á ný innan flokksins eftir að hafa þurft að hrökklast úr embætti formanns. Og það þarf enginn að efast um að Össuri er ósárt um R-lista Ingibjargar Sólrúnar. Spurður um endalok hans segir Össur:
Ég hef fylgst með borgarmálum og ekki verið sáttur við ýmislegt í verkum R-listans. Eitt þeirra mála sem sýndi að hann var kominn á ranga braut var þegar tuttugu og tveimur gæslukonum, sem höfðu lengi unnið hjá borginni, var sagt upp. Þar á meðal var fatlaður einstaklingur. Borgarstjórn, sem ég styð með ráðum og dáð, kemur ekki svona fram við fólk. Ég mótmælti því harkalega opinberlega. Ég tel að málið endurspegli þá staðreynd að Reykjavíkurlistinn var að mörgu leyti búinn að missa jarðsambandið við fólkið í borginni. … Síðustu vikurnar virtist samstarfið aðallega snúast um valdabrölt og stóla. |
Umræðunum um borgarstjórn og borgarstjóra í hinu mannlega framboðsviðtali við Össur í Blaðinu lýkur svo á spurningum um hann og borgarstjórastólinn. Þar segist hann alveg geta viðurkennt að það hafi kitlað hann að menn skuli hafa orðað hann við borgarstjórastólinn og hann segist ekki útiloka að bjóða sig fram til borgarstjóra.
Fyrir tveimur áratugum vildi Össur ná völdum í borgarstjórn til að hreinsa burt embættismenn sem hann taldi ekki hliðholla vinstri flokkunum og voru honum því ekki að skapi. Nú má gera ráð fyrir að hann vilji einnig hreinsa til, enda hefur ráðhússklíka Ingibjargar Sólrúnar komið sér vel fyrir í borgarkerfinu. Þar hefur ekki aðeins verið skipt út embættismönnum á valdatíma R-listans heldur hefur kerfið verið þanið út og silkihúfum fjölgað umtalsvert. Það verður því nóg að gera fyrir Össur ef draumur hans um kitlandi borgarstjórastólinn verður að veruleika.