Laugardagur 20. ágúst 2005

232. tbl. 9. árg.

Ígær greindi Morgunblaðið frá því að settur hefði verið saman listi yfir fimmhundruð bestu háskóla í heimi. Það hefur vafalaust vakið töluverða athygli sem Morgunblaðið hefur eftir hinu norska Aftenposten, en Norðmennirnir munu hafa tekið fram í sinni frétt af málinu að enginn íslenskur háskóli kæmist á blað meðal hinna fimmhundruð fremstu. Þessi tíðindi koma auðvitað verulega á óvart hér heima, með alla okkar stórfenglegu háskóla, en hér er hins vegar nauðsynlegt að geta þess að rannsókninni var lokið áður en tilkynnt var að Eiríkur Bergmann Einarsson hefði verið ráðinn forstöðumaður Evrópuseturs Háskólans á Bifröst. Nú þegar hann hefur störf á Bifröst og kynnir þar margar byltingarkenndar niðurstöður sínar má gera ráð fyrir að myndin breytist.

Tómhyggja vinstrimanna í Reykjavík eykst enn. Nú hafa borgaryfirvöld ákveðið að leggja eina akrein á mikilvægum götum eins og Miklubraut og Lækjargötu undir strætisvagna eina. Stefnan er því sú, að á þessum götum verði umferð einkabíla þyngri og hægari en nú er. Við hliðina verði svo nær tóm akrein, þar sem nær tómir vagnar aka samkvæmt sérstakri ákvörðun nær tómra valdhafa. En hugsanlega breytist þetta ef borgarbúar sýna vinstriflokkunum hæfilegt tómlæti í komandi kosningum.

ÍÍ gær var rætt um setu helstu forkólfa Samfylkingarinnar í stjórnum og ráðum, þrátt fyrir að siðareglur flokksins muni kveða á um að það skuli þingmenn þeirra ekki gera. Í því samhengi má einnig rifja upp að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, sem nú er orðin þingmaður eftir að Bryndís Hlöðversdóttir var án auglýsingar, umsóknar og hæfnismats, ráðin deildarforseti Háskólans á Bifröst, er auk þess að vera aðalmaður í bankaráði Seðlabankans varastjórnarmaður í Landsvirkjun, einu stærsta fyrirtæki landsins.

Síðustu helgi birti Morgunblaðið Reykjavíkurbréf þar sem hvatt var til endurmats á sögu Valtýs Guðmundssonar og þætti hans í sjálfstæðisbaráttu landsins. Bréfshöfundur hafði lesið nýlega bók Jóns Þ. Þórs og orðið svona líka hrifinn. Valtýr væri stórlega vanmetinn og þá mynd yrði að rétta sem fyrst. Það er ánægjulegt að hvatt sé til þess að menn kynni sér sögu heimastjórnarbaráttunnar og fyrstu áranna eftir að Íslendingar náðu þar góðum sigri. Sú saga er afar merkileg og um hana eru til góðar og oft mjög skemmtilegar heimildir. Sérstaklega er þar ástæða til að geta hinnar frægu ævisögu Hannesar Hafstein, eftir Kristján Albertsson, sem meðal annars er til sölu í bóksölu Andríkis. Sú saga er ákaflega vel skrifuð og skemmtileg og dregur upp mjög skýra og athyglisverða mynd af þessum árum. Það er einnig sjálfsagt að kynna sér sögu Valtýs Guðmundssonar, en ekki skal Vefþjóðviljinn ábyrgjast að allir sem það gera muni komast að sömu niðurstöðu og Reykjavíkurbréfshöfundur Morgunblaðsins. Valtýr barðist hins vegar af festu og metnaði fyrir sínum málstað og saga hans er athyglisverð, bæði barátta hans fyrir innlendum ráðgjafa fyrir Ísland sem og barátta hans gegn þeim lokasigri sem Hannes Hafstein náði í því máli og barátta Valtýs í símamálinu, en deilurnar um það mál urðu afar heitar og hefur sumum þótt þær minna á ýmislegt í síðari tíma stjórnmálasögu.