Helgarsprokið 10. júlí 2005

191. tbl. 9. árg.

S koðanakannanir geta verið varasamar og hætt er við að menn dragi stundum rangar ályktanir af þeim þar sem þeir átta sig ekki á þeirri skekkju sem kann að vera í einstökum könnunum og þeim skekkjumörkum sem einstakar niðurstöður fela í sér. Fjölmiðlar slá almennt ekki upp þeirri óvissu sem þannig ríkir um niðurstöðuna en láta í mesta lagi nægja að geta um hana í megintexta fréttar. Þó eru á þessu undantekningar og lesendur urðu vitni að einni slíkri í gær þegar Fréttablaðið sagði frá niðurstöðu könnunar um stuðning við framboðin í Reykjavík ef kosið væri til borgarstjórnar nú.

„…skýring á þessari ólíku framsetningu sambærilegra frétta kann að vera sú að þeim sem stjórna á Fréttablaðinu sé ósárt um að lesendur trúi því að fylgi Framsóknar-flokksins sé að hrapa…“

Gallup hafði gert könnun þar sem fram kom að Sjálfstæðisflokkurinn var kominn með meira fylgi en R-listinn og var meira að segja kominn með meirihlutafylgi. Hvort tveggja var að vísu naumt, Sjálfstæðisflokkurinn mældist með 50,2% fylgi og var 1,2 prósentustigum fyrir ofan R-listann. Í stað þess að segja frá því í fyrirsögn að Sjálfstæðisflokkurinn væri kominn með meirihluta var Fréttablaðið með fyrirsögnina „Hnífjafnt í borginni“, þó að einnig kæmi fram læsu menn lengra að Sjálfstæðisflokkurinn mældist með meirihluta. Og að því er virðist til áréttingar því hversu ótraust meirihlutafylgi Sjálfstæðisflokksins mælist í borginni birti blaðið töflu þar sem tíundað er hversu margir svarendur eru á bak við framboðin í könnuninni. Þá sést að mjótt er á munum og að á bak við 50,2% Sjálfstæðisflokksins eru ekki nema þremur svarendum fleiri en á bak við 49% R-listans.

Eins og lesendur sjá var frásögn Fréttablaðsins rétt og sönn og þess vegna má spyrja hvers vegna Vefþjóðviljinn er að benda á hvernig blaðið sagði frá þessari könnun. Jú, ástæðan er sú að þessi frásögn er í ósamræmi við aðrar frásagnir blaðsins af skoðanakönnunum, að minnsta kosti upp á síðkastið. Á sunnudaginn fyrir rúmri viku var til að mynda sagt frá könnun Gallup um fylgi flokkanna og ríkisstjórnarinnar og þá var í engu getið um atkvæði á bak við niðurstöðurnar, skekkjumörk eða annað sem hefði getað dregið úr gildi niðurstöðunnar. Þetta var að vísu í frétt á blaðsíðu 2 sem ekki var slegið mikið upp, þannig að ef til vill má halda því fram að þar liggi skýringin á ólíkri framsetningu. Sé það svo má spyrja hvernig á því stendur að tveimur dögum áður en fréttin af því að það væri „Hnífjafnt í borginni“ birtist var slegið upp á forsíðu Fréttablaðsins, „Framsókn undir fjórum prósentum í Reykjavík“?

Í forsíðufréttinni á fimmtudaginn af því að fylgi Framsóknarflokksins væri komið undir 4% í Reykjavík var tíundað að flokkurinn  hefði tapað „einu prósentustigi milli mánaða í Reykjavíkurkjördæmunum“ og fram kom að fylgi hans nú mældist 3,9% en hefði mælst 4,6% í maí. Þetta var sagt vera samkvæmt gögnum sem Fréttablaðið hefði fengið og unnin hefðu verið úr könnun Gallup, en þrátt fyrir hin traustu gögn sem byggð voru á þessari miklu vinnu tókst ekki að minnast einu orði á það hversu margir svarendur voru á bak við fylgi Framsóknarflokksins. Ekki var heldur minnst á hve margir svarendur það væru sem Framsóknarflokkurinn í Reykjavík missti á milli mánaða, hvað þá að nefnd væru skekkjumörk eða nokkuð annað sem kastað gæti rýrð á niðurstöðurnar og fengið lesendur til að velta því fyrir sér að ekki væri nú alveg víst að Framsóknarflokkurinn væri að tapa fylgi þessar vikurnar og mánuðina.

En hverjar ætli tölurnar séu þá sem fullyrðing Fréttablaðsins um minnkandi fylgi Framsóknarflokksins byggist á? Þær er ekki að finna í Fréttablaðinu, en Vefþjóðviljinn hefur leyft sér að reikna tölurnar út frá nýjustu könnun Gallup, sem er vafalaust sú sem Fréttablaðið styðst við. Miðað við þann fjölda sem spurður var í könnuninni, fjölda svarenda, fylgi flokkanna og hlutfall íbúa landsins sem búa í höfuðborginni, má ætla að á bak við þau 3,9% sem Framsóknarflokkurinn er sagður hafa í Reykjavík séu 29 svör. Ef aðeins einn svarandi hefði bæst við hefði Fréttablaðið ekki getað slegið því upp að Framsóknarflokkurinn væri „undir fjórum prósentum í Reykjavík“. Og ef fimm svarendur í viðbót, af yfir sjö hundruð svarendum í Reykjavík, hefðu sagst ætla að kjósa Framsóknarflokkinn hefði Fréttablaðið ekki getað sagt frá því að flokkurinn hefði tapað fylgi á milli mánaða. Það var ef til vill ekki fréttnæmt að svo fáum munaði – að fullyrðingin um fylgishrunið byggði á fimm svörum – en miðað við framsetningu Fréttablaðsins á því að Sjálfstæðisflokkurinn mælist nú með meirihluta í borginni hefði blaðinu átt að þykja það tíðindi að svo fáir svarendur væru á bak við uppsláttarfrétt blaðsins.

Menn geta verið með alls kyns bollaleggingar um það hvers vegna Fréttablaðið dregur fram staðreyndir sem rýra trúverðugleika fylgisaukningar Sjálfstæðisflokksins en nefnir í engu alveg sambærilegar staðreyndir sem myndu rýra trúverðugleika fylgistaps Framsóknarflokksins kæmu þær fram. Ekki veit Vefþjóðviljinn hvernig Fréttablaðið myndi verja þennan mun á framsetningu þegar aðeins tveir dagar líða á milli fréttanna, en hann leyfir sér að láta hvarfla að sér eina skýringu. Af ýmsu í Fréttablaðinu má sjá að stjórnendur þess eru ekki nema mátulega hrifnir af ríkisstjórnarflokkunum og skýring á þessari ólíku framsetningu sambærilegra frétta kann að vera sú að þeim sem stjórna á Fréttablaðinu sé ósárt um að lesendur trúi því að fylgi Framsóknarflokksins sé að hrapa en vilji síður að lesendur telji óumdeilt að Sjálfstæðisflokkurinn sé á rífandi siglingu í borginni. Nú má vera að með þessu séu þeir hafðir fyrir rangri sök og að tilviljun ein hafi ráðið því hve ólík umfjöllunin er á milli daga á Fréttablaðinu. Sé svo hlýtur meira samræmi að verða í fréttaflutningnum í framtíðinni.