Viðskiptablaðið birti í gær viðtal við Geir H. Haarde varaformann Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra þar sem hann svaraði meðal annars spurningu um stuðning við landbúnað hér á landi og þá staðreynd að stuðningurinn er meiri en í öðrum OECD-löndum. Í svari Geirs kemur fram, skattgreiðendum til ánægju, að ætlunin sé að draga markvisst, og óháð alþjóðlegum samningum, úr stuðningi við landbúnaðinn. Störfum í hefðbundnum landbúnaði muni halda áfram að fækka og þeir sem eftir verði í landbúnaði eigi að geta lifað góðu lífi af honum þrátt fyrir minni styrki. Sú þróun sem Geir lýsir er jákvæð, en þó væri enn betra ef stefnan væri að minnka styrkina niður í núll, því að engin leið er að réttlæta að ríkið, það er að segja skattgreiðendur, borgi sumum mönnum fyrir að stunda tiltekna atvinnu. Og það sem meira er, bændum er enginn greiði gerður með því að halda þeim á bótum í stað þess að búa atvinnugreininni eðlileg rekstrarskilyrði þar sem hinir duglegu og útsjónarsömu munu gera það gott en aðrir munu bregða búi og snúa sér að öðru.
Í viðtalinu er einnig rætt um orkumál og í því sambandi segir Geir að þótt Landsvirkjun sé enn að hálfu í eigu ríkisins, vonist hann til að fljótlega komi að því að ríkið leysi fyrst sveitarfélögin út úr fyrirtækinu og selji síðan eign sína. Það er jákvætt að menn eru farnir að hugsa út í næstu skref í einkavæðingunni eftir að sölu Landssímans lýkur og til viðbótar Landsvirkjun má benda á að æskilegt er að leggja niður eða selja fyrirtæki eða stofnanir á borð við Íbúðalánasjóð, Flugstöð Leifs Eiríkssonar, Lánasjóð íslenskra námsmanna, Ríkisútvarpið og Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, auk þess sem hægt er að einkavæða stærstan hluta af mennta- og heilbrigðiskerfi landsins. Í því sambandi er rétt að taka fram að þótt ríkið mundi þannig draga sig út úr rekstri mennta- og heilbrigðisstofnana þarf það ekki að þýða að ríkið hætti að greiða fyrir þjónustuna. Eitt er að niðurgreiða þjónustu – jafnvel að öllu leyti – annað að reka fyrirtækin sem veita þjónustuna. Taka má dæmi af landbúnaðarkerfinu, sem nefnt var hér í upphafi. Landbúnaðarkerfið væri vafalítið enn verra ef ríkið léti sér ekki nægja að niðurgreiða landbúnaðarvörur heldur ætti og ræki bóndabæina og bændurnir væru starfsmenn ríkisins en ekki eigendur.
Í viðtalinu fjallar Geir einnig um skattalækkanir, rifjar upp þær sem komnar eru til framkvæmda og minnir á þær sem ákveðnar hafa verið. Spurður um fyrirtækjaskatta sérstaklega segist hann vilja frekari umbætur þó að hann segist telja að þar séu stærstu málin í höfn. Þar á hann vafalítið við lækkun tekjuskatts á fyrirtæki úr 50% í 18% á síðasta áratug, en sú breyting hefur átt drjúgan þátt í að því að setja þann kraft í atvinnulífið hér á landi sem allir hafa orðið vitni að. En Geir bendir einnig á, og það er mikilvæg áminning, að Vinstri-grænir og Samfylkingin hafi áhuga á að hækka skatta. Hinir fyrrnefndu hafi talað um að fara með fjármagnstekjuskattinn úr 10% í 18% og margir þingmenn Samfylkingarinnar vilji hækka tekjuskatt fyrirtækja. Hann bendir á að þetta fólk sé fast í þeirri trú að skatttekjur ríkissjóðs hljóti að breytast í réttu hlutfalli við skattprósentuna, en þannig sé það ekki. „Þjóðfélagið er allt á hreyfingu. Það er svo mikil dýnamík í atvinnulífinu að það reyndist rétt, sem við spáðum, að með því að lækka tekjuskatt fyrirtækja myndum við afla ríkissjóði meiri tekna en ekki minni,“ segir Geir.Sjálfsagt er að taka undir þessi varnaðarorð um stefnu vinstri manna í skattamálum og kannski bæta því við þau að fyrir kosningarnar 1999 boðuðu Samfylkingin og VG að hækka fjármagnstekjuskatt í sama hlutfall og tekjuskattinn eða tæp 40%.
Um leið er rétt að benda á að þrátt fyrir þær skattalækkanir sem ríkisstjórnin hefur staðið fyrir á undanförnum árum er enn af nógu að taka og full ástæða til að halda áfram að lækka skatta svo um munar. Í því sambandi má sérstaklega nefna ýmsa sérstaka refsiskatta sem lagðir eru á bílaeigendur, hvort sem er sérstök gjöld á bílana sjálfa eða á eldsneytið, þá má nefna ýmis önnur vörugjöld og tolla, sérgjöld á borð við stimpilgjald, ýmis launatengd gjöld, virðisaukaskattinn og síðast en ekki síst tekjuskatt á einstaklinga. Nú stendur yfir lækkun á tekjuskatti til ríkisins, en betur má ef duga skal. Tekjuskatturinn, eða staðgreiðslan eins og fyrirbærið heitir, verður enn of hár þrátt fyrir drjúga lækkun sem orðið hefur á síðustu árum og ákveðin hefur verið. Þar bera sveitarfélögin þó stærri ábyrgð en ríkið, því að nú er svo komið, ef tekið er tillit til persónuafsláttarins sem dregst allur af hlut ríkisins, að útsvar sveitarfélaganna er stærri hlutur staðgreiðslunnar en tekjuskattur ríkisins. Það er því liðin tíð að skattgreiðendur eigi að gera stærstar kröfur á hendur ríkinu um lækkun skatts á tekjur einstaklinga. Sveitarfélögin, með Reykjavík í broddi fylkingar, hafa verið að hækka þessa skatta á sama tíma og ríkið hefur lækkað þá. Á næsta ári gefst kjörið tækifæri til að draga sveitarstjórnarmenn til ábyrgðar fyrir að lækka sífellt kaupmátt almennings með skattahækkunum.