Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra vék að þeim sem una sér best við niðurrif og svartsýnisraus í ræðu sinni á þjóðhátíðardaginn. Halldór nefndi engin dæmi um bölmóðinn máli sínu til stuðnings enda vart við hæfi í ræðu að þessu tilefni. Vefþjóðviljann langar að taka af honum ómakið nú þegar hátíðin er gengin um garð.
Hvernig getur eitt dagblað orðið svona geðvont? Það er ekki nóg með að allir pistlahöfundar á leiðaraopnu Fréttblaðsins séu með geðstirðari mönnum landsins, hafi allt á hornum sér og lýsi Íslandi sem bananalýðveldi sem níðist á lítilmagnanum og hundsi flest mannréttindi. Ólundin lekur einnig úr fréttaskrifum blaðsins. Ástæðan virðist fyrst og fremst sú að rangir menn sitji í ríkisstjórn. Einu gildir hvað þeir eru að gera. Þeir skulu á brott. Vonbrigðin voru því mikil eftir þingkosningar vorið 2003 og ekki batnaði það þegar forsetinn fékk falleinkunn samkvæmt mælistikum Gunnars Smára Egilssonar þáverandi ritstjóra í forsetakjöri sumarið 2004. Þessi linnulausa fýla verður auðvitað til þess að menn hætta að taka mark á allri gagnrýni blaðsins á ríkisstjórnina, bæði þeirri uppbyggilegu sem slæðist með og hinni sem sprottin er af þessari frústrasjón vegna ráðherrabekkjarins.
Þetta fúllyndi smitar auðvitað út frá sér til annarra þátta blaðsins.
Laugardagurinn 18. júní var einn af þessum góðu sumardögum í Reykjavík. Hlýtt og milt veður. Daginn áður hafði hitametið á þjóðhátíðardaginn í Reykjavík fallið. Ótrúlega fáir borgarbúar nýta sér þann lúxus sem útsvarsgreiðendur bjóða upp á í hinum glæsilegu sundlaugum borgarinnar. Þó eru þeir fleiri en venjulega á góðum sumardögum. Hvað hefur Fréttablaðið þá til málanna að leggja á slíkum degi?
Íslendingar eru sundóðir. Þegar sólin fer á loft flykkjumst við í laugarnar til að brúnkan nái nú örugglega að magnast upp í eitt stykki Paris Hilton. Hver einasta sundlaug í borginni verður eins og hrúga af bleikum humrum í bleyti. Baráttan um skápapláss er illvíg, svo ekki sé talað um hávaðamengunina af tugum þreyttra og pirraðra barna. |
Svo mæltist einum blaðamanna Fréttablaðsins í dálkinum „Stund milli stríða“, svona dálki fyrir létta mannlífsþanka. Og þrátt fyrir að hafa strengt þess heit fyrr í pistlinum að fara aldrei í sund segir hann frá einni sundferð.
Og víst er að í sundi uppsker maður ekki eins og maður sáir. Ég átti einn og hálfan tíma aflögu um daginn og sáði honum í sundið. Ávöxturinn, brúnkan, skrapp saman ef eitthvað er. Vínberið varð að rúsínu. Það sem ég græddi eftir erfiðið í humarpottinum var tvær nýjar freknur, rautt nef og aumur og soðinn líkami sem var lengi að jafna sig á sólinni. Hárið varð eins og hey í klórnum og naglalakkið flagnaði. |
Vefþjóðviljinn kann ekki ráð við svona ástandi á stóru dagblaði. Það verður sennilega ekki til nema með langri og strangri þjálfun og einbeittum vilja yfirmanna.
Þó mætti kannski benda þeim sem vilja hafa áhrif í stjórnmálum á bók Peggy Noonan When Character Was King um Ronald Reagan forseta Bandaríkjanna. Noonan, sem var náin samverkakona forsetans, lýsir því með mjög amerískum hætti, nokkuð væmnum en velviljuðum, hvernig jákvæð viðhorf og bjartsýni Reagans smituðu út frá sér og gerðu erfiða hjalla auðvelda yfirferðar. Bókin er heillandi lýsing á því hverju létt lund getur áorkað í stjórnmálabaráttu.