Mánudagur 20. júní 2005

171. tbl. 9. árg.

Hvenær ætli karlar hafi fengið kosningarétt á Íslandi? En efnalitlir karlar? En vistráðnir karlar? En karlar sem skulduðu sveitarstyrk? Hljóta þeir ekki að hafa fengið kosningarétt einhvern tíma? Samt er aldrei talað um það sem neinn atburð, aldrei rifjað upp að nú sé svo og svo langt liðið frá því efnalitlir karlmenn fengu kosningarétt. En það er sífellt verið að rifja upp afmæli þess að konur fengu kosningarétt. Eða eins og opinber umræða á Íslandi rétttrúnaðarins snýst um: konur, konur konur.

Þetta eilífa kvennatal er fyrir löngu komið út fyrir þau mörk sem skynsemin myndi setja ef hún yrði spurð. Þar á Vefþjóðviljinn ekki sérstaklega við blöð sem sérstaklega hafa verið helguð þessu málefni, svo sem Veru eða dagblaðsútgáfu hennar, Morgunblaðið, heldur er þetta tal orðið miklu útbreiddara en sem nemur þeirri dreifingu sem þessi tvö blöð enn hafa. Hvað halda menn að það líði langur tími milli þess sem hugmyndaheimi feminista er haldið að fólki? Hvað fá menn langa hvíld milli þess sem einhver fullyrðir að ekki sé búið að ná jafnrétti kynja í landinu – og auðvitað án þess að nefna nokkurt einasta dæmi þess að öðru hvoru kyninu sé mismunað í lögum? Hvað líður langur tími milli þess sem haldið er að fólki kenningum um karlasamsæri sem sé ætlað til þess að konur fái lægri laun, falli í prófkjörum eða komist ekki á Búnaðarþing?

Þegar kona fellur í prófkjöri, þá kvartar hún yfir því að konum sé ekki treyst. Engu skiptir hversu margir karlmenn hafa fallið í sama prófkjöri, fall konunnar hlýtur að beinast að kynferðinu en ekki öðrum eiginleikum hennar. Kona sem kemst að því að karlkyns vinnufélagi hennar fær greidd hærri laun, hún heldur að það hljóti að vera vegna þess að hann sé karlmaður en ekki af einhverjum öðrum ástæðum. Ekki að hann hafi einfaldlega gert aðrar kröfur, sem hún hefði sjálf vel getað gert, eða þá að vinnuveitandanum þyki af einhverjum öðrum ástæðum en kynferðinu þess virði að borga honum þessi hærri laun. Kvenréttindafélög fagna því þegar kona er skipuð í starf. Engu virðist skipta hvaða eiginleika aðra hún eða aðrir umsækjendur hafa til að bera; bara að það sé kona.

En auðvitað er ekki sanngjarnt að setja allar konur undir þennan sama hatt – ekki frekar en aðra sameiginlega hatta. Auðvitað er mikið til af konum sem hafa megnustu skömm á þessum rétttrúnaði. Það er mikið til af konum, og auðvitað körlum líka, sem láta sér ekki koma til hugar að annað fólk meti gildi þeirra eftir kynferðinu. Það er mikið til af konum sem aldrei myndu láta bjóða sér að hljóta brautargengi, hvort sem er í kjörum, framgangi eða öðru, af einhverjum ástæðum sem tengdust kynjahlutfalli. Það er auðvitað ósanngjarnt að ætla öllum konum þann málflutning sem oft er settur fram í þeirra nafni. Það eru ekki allar konur heldur aðeins sumar sem kenna kynferði sínu um ef þær ná ekki öllum þeim árangri sem þær helst kjósa. Það eru ekki allar konur sem eru ánægðar með kvenréttindarétttrúnaðinn, bara sumar. En þessar sumar geta þó verið ánægðar með það, að fyrir þær eru gefin út blöð, haldnar ráðstefnur, gerðar áætlanir og reknar stofnanir og kærunefndir.