Helgarsprokið 12. júní 2005

163. tbl. 9. árg.

Þ

Það kæmi ekki á óvart, þó svo næsta reglugerð landbúnaðarráðuneytisins tilskipi, að einungis bændur í nauts- og hrútamerkinu fái að ganga í hjónaband.

eir voru algerlega orðlausir, bændurnir á Nýja Sjálandi, fyrir þetta tuttugu árum. Árið 1984 tók ríkisstjórn þeirra sig til og afnam á einu bretti nær allar niðurgreiðslur til bænda. Í einni hendingu var sem náttúrulögmál hefði verið tekið úr sambandi. Og eins og gefur að skilja lagðist landbúnaður alveg af á Nýja-Sjálandi, bændur dóu bæði úr hor og skömm eftir því hvort reið þeim að fullu á undan, synir þeirra og dætur leiddust í eiturlyfjaneyslu og hórmang, óniðurgreiddur búfénaður gekk í sjó fram eða beinlínis sturlaðist til óætis eftir atvikum, og hafa Ný-Sjálendingar verið alþjóðlegt athlægi æ síðan. Og þetta líka banhungraðir.

Undangengin lýsingin á afleiðingunum á afnámi niðurgreiðslna í Nýja-Sjálandi er að sjálfsögðu hrein fabríkasjón, en þegar vinstri menn allra flokka hérlendis tala um þessi mál mætti ætla að hér færi heilagur sannleikur. En ekkert þessu líkt átti sér stað. Þvert á móti stendur landbúnaður andfætlinganna í blóma.

Hins vegar var staðan önnur fyrir 1984. Upp úr 1950 urðu Ný-Sjálendingar sterkefnaðir á landbúnaði þar eð breski markaðurinn náði að kaupa alla framleiðsluna á góðu verði og nutu Ný-Sjálendingar ýmis konar sérkjara. Engu að síður kusu Ný-Sjálendingar að vernda landbúnaðinn, enda nóg um slæmar fyrirmyndir í þeim efnum. Niðurgreiðslur til bænda jukust, innflutningshöftum og tollum var beitt í síauknum mæli. Allt var í góðu meðan eftirspurnin var mikil. Samhliða þessu jukust umsvif velferðarríkisins og atvinnuleysi var svo gott sem óþekkt. Eins og púkinn á fjósbitanum blés embættismannakerfið út. Allt var meira og minna í lukkunnar velstandi uns Bretar gengu í Evrópusambandið 1974. Þá misstu Ný-Sjálendingar bæði nær gulltryggðan aðgang að breska markaðinum og fengu í fyrsta sinn að kynnast alþjóðlegri samkeppni. Í framhaldinu fengu ný-sjálenskir bændur þau meðul, sem var beitt alls staðar annars staðar; meiri niðurgreiðslur, meiri vernd, ótal sérverkefni og áætlanir. Bændurnir framleiddu í góðu samræmi við styrkjakerfið en óskir neytenda mættu afgangi.

Þar eð Nýja-Sjáland byggði þá og byggir enn mjög á útflutningi landbúnaðarafurða, máttu þeir vita að það kunni ekki góðri lukku að stýra að skella skollaeyrum við óskum neytenda um allan heim. Enda skruppu tekjurnar fljótt saman og framlegðin sömuleiðis, en greinin naut áfram ríflegra styrkja – í þvílíkum mæli að ríkisstjórn landsins tók til þess ráðs að auka lántökur sínar erlendis til að viðhalda þeim lífsgæðum sem þjóðin hafði vanið sig á á sjötta og sjöunda áratugnum. Á áttunda áratugnum og fram á níunda var hver erlendi víxilinn sleginn á fætur öðrum. Í sauðfjár- og nautgriparækt var hlutfall ríkisstyrkja orðið u.þ.b. 40% af tekjum bænda og 30% hjá öðrum bændum árið 1984. Samhliða þessu fór verðbólgan úr böndunum, boðleiðir til neytenda stífluðust og skriffinnskan tröllreið öllu.

Árið 1984 neituðu erlendir lánardrottnar að koma lengur á móts við fjárþörf ný-sjálenska ríkisins. Að þeirra mati var öll ný-sjálenska þjóðin með falsaðan miða.

„…landbúnaður þrífst best þegar hann er losaður undan ofvernd og innflutningshöftum, ríkisafskiptum og reglugerðarfargani. Það má gera ráð fyrir því að umskiptin verði mörgum bændum erfið, enda tekur það tíma að þjóna nýjum herrum, það er neytendum, en ekki embættismönnum.“

Já, góð ráð voru dýr. En með sama hætti og Íslendingar áttuðu sig á að róttækar breytingar þurfti til að gera sjávarútveg sinn arðbæran að nýju á sínum tíma og bættu úr ástandinu með kvótakerfinu (sem gerðist reyndar líka árið 1984), þá kusu Ný-Sjálendingar að markaðsvæða landbúnaðinn hjá sér, enda þeim töluvert mikilvægur eins og sjávarútvegur hérlendis. Meðfram afnámi styrkjanna fengu bændur allan ákvörðunarrétt í sínar hendur – þeir ráða algerlega hvað þeir framleiða, hvernig, hvað mikið og hvenær. Ef frá eru taldar óskir markaðarins og fáeinar reglugerðir, þá er fátt sem takmarkar atvinnufrelsi bændanna. Tími skriffinnskunnar var liðinn, oki hennar var aflétt samtímis afnámi styrkjanna.

Umbreytingin gekk þó ekki snurðulaust fyrir sig. Hún mætti mikilli mótstöðu til að byrja með, enda áttu flestir bændur bágt með að trúa sínum eigin eyrum. Árið 1986 mótmælti þriðjungur bænda fyrir utan þinghús Ný-Sjálendinga, en ríkisstjórnin greip tækifærið til að ítreka afstöðu sína í þessum efnum – það yrði ekki til baka snúið. Hins vegar hjálpaði ríkisstjórnin bændum við að hjálpa sér sjálfir. Sumar skuldir voru afskrifaðar. Mörgum bændum var snúið til fjármálasérfræðinga, bankamanna, lögfræðinga og fleiri til að meta eignir, skuldbreyta óhagstæðum lánum og skipuleggja framhaldið, að sjálfsögðu í samráði við bændurna. Skuldbreytingar og afskriftir var algengasta viðkvæðið – og vitaskuld áttu einhverjir ekki annarra kosta völ en að selja eignir sínar. Í allt voru um 20% skulda afskrifaðar og um 5% býla voru seld.

Fyrstu þrjú árin eftir afnám styrkjakerfisins voru bændum erfið. En það var á kristaltæru að ríkisstjórnin stóð fast á sínu og bændur urðu einfaldlega að spila eftir leikreglum framboðs og eftirspurnar. Framhaldið var fyrirsjáanlegt: Sú sóun sem einkenndi gamla kerfið minnkaði; bændur fóru að kynna sér markaðinn, hvað fólk vill og hvers kyns verð það er tilbúið að greiða fyrir vöruna; þeir prúttuðu við birgjana; lögðu meiri áherslu á gæði en magn, juku fjölbreytni framleiðslunnar og svo framvegis. Í það heila fór rekstur búanna batnandi og að sama skapi féll raddstyrkur þeirra sem heimtuðu endurreisn styrkjakerfisins. Í dag, rúmlega tuttugu árum síðar, er krafan um ríkisstyrktan landbúnað fáheyrð og þykir jafn hlægileg og hún þykir heimskuleg. Í raun er það svo að yngsta kynslóð bænda skilur tæpast hvað hugmyndin gengur út á, þó svo hún þekki til hennar af frásögnum þeirra bænda sem muna þessa tíma. Þessir bændur, ólíkt flestum öðrum bændum heimsins, eru ekki byrði á skattgreiðendum þjóðar sinnar. Þvert á móti leggja þeir til skatttekjur eins og aðrir heiðvirðir borgarar Nýja-Sjálands – og nota afganginn eins og þeim lystir; eðlilega yfirleitt til að greiða af skuldbindingum sínum, greiða sjálfum sér laun og arð og setja fjármuni inn í reksturinn til að stækka og styrkjast enn frekar, svona eins og gengur og gerist hjá flestum öðrum atvinnurekendum. Orðtakið bóndi er bústólpi á sér nefnilega eitthvert raunverulegt innihald og merkingu á Nýja-Sjálandi.

Nú um mundir stendur landbúnaður Ný-Sjálendinga í blóma. Stærstur hluti af útflutningsverðmætum landsins kemur úr þessum geira. Þetta gerist þrátt fyrir…

…að Nýja-Sjáland sé ekki besta landbúnaðarland veraldar frá náttúrunnar hendi;

…að þarlendir bændur njóti engra ríkisstyrkja;

…að innflutningstollar séu með lægsta móti;

…að nær allar aðrar þjóðir heimsins niðurgreiða landbúnað sinn sem mest þær mega.

Það er næstum dapurlegt að bera saman landbúnað Nýja-Sjálands og Íslands. Hér heima etjum við kappi við Noreg og Japan um hver þjóðin leggur á hæstu innflutningstollana. Jafnframt verjum við u.þ.b. 7.726.000.000 krónum í beina ríkisstyrki vegna búvöruframleiðslu, eins og við höfum ekkert betra við þessar krónur að gera, svo sem eins og að láta það vera að innheimta þá af skattgreiðendum. Á meðan Ný-Sjálendingar eru í fararbroddi þeirra sem vilja afnám innflutningshafta og tollamúra, jafnt í landbúnaði sem og annarri verslun, sitja íslenskir embættismenn sveittir við að finna fleiri afsakanir fyrir því að halda þessum höftum og tollum eins uppskrúfuðum og hægt er að komast upp með.

Svona þarf þetta alls ekki að vera. Reynsla Ný-Sjálendinga sýnir glögglega, að landbúnaður þrífst best þegar hann er losaður undan ofvernd og innflutningshöftum, ríkisafskiptum og reglugerðarfargani. Það má gera ráð fyrir því að umskiptin verði mörgum bændum erfið, enda tekur það tíma að þjóna nýjum herrum, það er neytendum, en ekki embættismönnum. En þetta er hvorki óhugsandi né óframkvæmanlegt.

Ástæða þess að Ný-Sjálendingar fóru þess leið á sínum tíma á rætur að rekja til mikillar efnahagskrísu og hefur aðeins hluti sögunnar verið rakinn í þessum pistli. Þessar aðstæður eru ekki til staðar hér á Íslandi. Þar af leiðir að þrýstingurinn á umbætur í landbúnaðarkerfinu er ekki jafnmikill hér og hann var í Nýja-Sjálandi fyrir rúmum 20 árum. Það breytir því ekki að neytendur tapa stórfé á þessu kerfi, sem kemur í veg fyrir ódýran innflutning. Og ekki er staða bænda beysin heldur – nánast allt þeirra líf er undir þessu kerfi komið, sem verður að teljast sorglegt hlutskipti. Kerfið er engu að síður alger óþarfi og því má í raun henda á haugana. Samkvæmt reynslu Ný-Sjálendinga myndi enginn sakna þess.