Enn eru menn byrjaðir á að velta fyrir sér hvort R-listinn verði borinn fram að ári. Auðvitað verður hann það. Vinstrigrænir munu auðvitað í einhvern tíma láta eins og þetta geti farið hvernig sem er og að þeir muni selja sig dýrt, en auðvitað munu þeir fást næstum því frítt. Það er svo annað mál að ýmsir í þeirra röðum eru mjög sennilega einlægir í því sem þeir segja nú R-listanum til hnjóðs, en það er bara alveg sama. Vinstrigrænir verða með, vafalaust eftir gagnslausar heitstrengingar um breytingar og betra samstarf, en ekkert mun breytast sem máli skiptir. Annars er nýjasti kaflinn í samstarfssögu R-listans nokkuð sérkennilegur. Alfreð Þorsteinsson hefur sagt opinberlega að það skipti engu þó að einn samstarfsflokkurinn, Vinstrigrænir, krefjist þess að stærsta fyrirtæki borgarinnar selji ekki orku til stóriðju á Suðurnesjum, þar sem minnihlutinn, Sjálfstæðisflokkurinn, muni þá koma málinu í gegn með hinum meirihlutaflokkunum. Þetta er nefnilega alveg ótrúleg yfirlýsing. Hér er ekki á ferð eitthvert minniháttar mál, sem ekkert er við að segja þó að meirihluti klofni í, svo sem eins og hvort einhvers staðar verði stækkaður bílskúr – sem borgaryfirvöld skipta sér auðvitað af, ekki vantar það – heldur raunverulegt pólitískt deilumál af stærri gerðinni. Og þá segir einn samstarfsflokkurinn að annar geti átt sig, það verði bara myndaður sérmeirihluti í þessu máli. Dettur einhverjum í hug að það sé svona sem samstarf gengur fyrir sig? Að Sjálfstæðisflokkurinn segi kannski við Framsóknarflokkinn, ja ef þið styðjið ekki þetta mál okkar, nú þá bara náum við því í gegn með stjórnarandstöðunni? – En svo má á hinn bóginn spyrja: nú er það svona sem lýðræðið virkar hjá vinstrigrænum? Þeir eru með tvo borgarfulltrúa af fimmtán og telja sig geta stöðvað mál að vild, bara ef þeir borga fyrir synjunarvaldið með því að styðja oddvita Framsóknarflokksins til þess að ráðskast með Orkuveituna, oddvita Samfylkingarinnar til þess að vera borgarstjóra og oddvita Dags B. Eggertssonar til þess að stjórna skipulagsmálunum?
Talandi um lýðræði. Samfylkingin er orðin að viðundri í lýðræðismálum eftir landsfund sinn á dögunum. Nýkjörinn formaður lætur hafa það eftir sér, að engu skipti þó vera kunni að nýkjörinn varaformaður hafi svindlað í kjöri varaformanns, því að munurinn hafi verið svo mikill á honum og næsta frambjóðanda! Þess vegna þyrfti ekki einu sinni að rannsaka þær ásakanir sem hrannast hafi upp. „Mér sýnist munurinn hafa verið það mikill á honum og Lúðvík Bergvinssyni að þær hafi ekki skipt sköpum,“ sagði Ingibjörg um aðferðir stuðningsmanna Ágústs í varaformannskjörinu í samtali við Fréttablaðið á mánudaginn. Samkvæmt þessari kenningu þá hefði verið allt í lagi ef Ingibjörg Sólrún hefði sjálf prentað, fyllt út og skilað inn hundrað seðlum eða svo, því hún hefði unnið samt. Bush hefði samkvæmt þessu mátt sjálfur kjósa fyrir milljón manns í forsetakosningunum í fyrra, bara ef það hefði ekki breytt úrslitunum. Og þetta er flokkurinn sem talar alla daga um lýðræði. Og er alla daga að krefjast opinberrar rannsóknar á hverju sem er. Þessi viðbrögð forystu Samfylkingarinnar eru auðvitað ótrúleg óvirðing við eigin flokksmenn, bæði þá sem voru á landsfundinum og tóku raunverulega þátt í kosningunum og líka við aðra flokksmenn sem þurfa að lúta forystunni og jafnvel treysta henni í einhverjum málum. Og ekki þarf að hafa mörg orð um virðinguna sem þetta lýsir gagnvart mótframbjóðendum þess sem grunaður er. En aðrir en Samfylkingin? Auðvitað má segja að þá varði litlu hvort svindlað er eða ekki svindlað í öðrum flokkum og að ef þessir aðrir flokkar vilja ekkert gera til að upplýsa það, að þá komi það ekki öðrum við. En Samfylkingin er ekki bara eitthvert félag heldur stór stjórnmálaflokkur með marga þingmenn. Það að hann hafi engan áhuga á að vita hvort svindlað er eða ekki þegar valin er forysta, það er að minnsta kosti athyglisverð staðreynd fyrir venjulegt fólk.
Undanfarna daga hafa ásakanir hrannast upp vegna varaformannskjörsins. Samfylkingarforystan hefur reynt eins og hún getur að bíða málið af sér og rannsaka það ekki. Auðvitað má vera að á endanum treysti hún sér ekki lengur til þess heldur setji í gang einhvers konar athugun. En það verður þá ekki vegna þess að Samfylkingin hafi viljað rannsaka málið, hafi viljað koma því á hreint, heldur einfaldlega vegna þess að hún taldi sig ekki lengur geta komist hjá því.