Miðvikudagur 25. maí 2005

145. tbl. 9. árg.

G eir H. Haarde fjármálaráðherra tók í gær undir efasemdir OECD um vaxtabótakerfið íslenska og er óhætt að segja að þær efasemdir eiga fullan rétt á sér. Vaxtabætur eru niðurgreiðsla ríkisins á skuldsetningu, sem þýðir að ríkið hvetur almenning til skuldsetningar. Þetta er vitaskuld afar sérkennilegt, en gleymist því miður oft þegar rætt er um skuldsetningu almennings, enda er frekar til vinsælda fallið að lýsa áhyggjum yfir háum skuldum almennings en að benda á það ráð sem ríkið þó hefur augljóslega til að stuðla að minni skuldasöfnun, þ.e. að hætta að niðurgreiða skuldirnar. Þetta myndi kalla á óánægju einhverra sem skulda og vilja að ríkið taki þátt í að greiða vaxtakostnaðinn og þess vegna er jákvætt að heyra fjármálaráðherra ljá máls á því að vaxtabætur verði endurskoðaðar.

Vaxtabætur eru aðeins eitt dæmi af mörgum um aðgerðir ríkisins sem eiga að vinna gegn einhverjum meintum vanda, en verða þess í stað til þess að búa til nýtt vandamál. Vaxtabæturnar eiga að auðvelda fólki að skuldsetja sig til að auðvelda því að kaupa húsnæði, en afleiðingin verður vitaskuld sú að fólk skuldsetur sig of mikið. Rétt eins og fólk myndi kaupa of mikið af hvaða neysluvöru sem er ef hún væri niðurgreidd „kaupir“ það of mikið af lánum séu þau niðurgreidd. Þetta er í sjálfu sér allt saman býsna einföld hagfræði og augljóst þegar menn velta þessu fyrir sér. Þrátt fyrir það eru dæmin um slíka neyslustýringu ríkisins mýmörg og tillögurnar um nýja neyslustýringu láta ekki heldur á sér standa, enda eiga sumir ákaflega erfitt með að læra af biturri reynslu.

Neyslustýringin gengur ekki aðeins út á að gera suma hluti ódýrari en þeir ættu að vera með niðurgreiðslum, stundum er markmiðið með henni að gera aðra hluti dýrari en þeir ættu að vera með sérstakri skattheimtu. Ágæt dæmi um það eru bílar og áfengi, sem eru vörur sem bera sérstök gjöld, og þá jafnvel mismunandi eftir styrkleika vélar eða vínanda. Æskilegt væri að ríkið hætti að beita skattkerfinu til að stýra neyslu fólks og hætti að beita niðurgreiðslum eða bótum til þess sama. Verkefnin á þessu sviði eru mörg, en vaxtabótarkerfið er ekki verri staður til að byrja en hver annar.