Mega frjálshyggjumenn vart fara úr húsi án þess að verða ósamkvæmir sjálfum sér? Stundum heyrist sú kenning að þeir frjálshyggjumenn sem eigi einhver viðskipti við eða nýti sér þjónustu hins opinbera snúi þar með baki við hugsjónum sínum. Engum dettur hins vegar í hug að núa vinstrimönnum því um nasir að þeir kaupi í matinn hjá einkafyrirtækjum.
Þessi skringilega kenning þýðir væntanlega að frjálshyggjumenn mega ekki bjóða sig fram til þings eða sveitarstjórna, ekki reka fyrirtæki sem býður í byggingu lögreglustöðvar, ekki stunda nám eða kennslu við Háskóla Íslands, ekki baða sig í sama vatni og risarækjurnar, ekki fá hjólbörurnar sem keyptar voru í afmæli Ingibjargar lánaðar, ekki eta niðurgreitt lambakjöt, ekki leggjast inn á sjúkrahús og ekki hringja í slökkviliðið þótt heimilið standi í björtu báli.
Á þessu er svo önnur hlið. Hlið greiðandans. Ef frjálshyggjumenn mega ekki nýta sér lögboðna þjónustu ríkisins án þess að þar með hafi þeir hlaupist undan merkjum er þá hægt að ætlast til að þeir greiði fyrir þessa þjónustu með sköttum? Eru þeir frjálshyggjumenn sem greiða skattana sína lögum samkvæmt þá ekki líka að kasta hugsjónum sínum fyrir róða?
Hið opinbera, ríki og sveitarfélög, ákveður hvernig fjórum krónum af hverjum tíu sem til ráðstöfunar eru í þjóðfélaginu er varið. Það er því nánast útilokað að sneiða hjá viðskiptum við stofnanir þess.
Menn mega vart stíga yfir útidyraþröskuldinn á heimilum sínum án þess að vera þar með á vegum hins opinbera. Og það sem verra er, í flestum tilvikum standa jafnvel heimili manna á landi sem menn eru með á leigu hjá hreppnum.