Mánudagur 23. maí 2005

143. tbl. 9. árg.
Ég er sammála Sverri Jakobssyni, einum helsta hugsuði Vinstri grænna í Reykjavík, sem hefur áhyggjur af því að Reykjavíkurlistinn sé að verða klíka í Ráðhúsinu og ekki í tengslum við eitt né neitt.
– Helgi Hjörvar, alþingismaður Samfylkingarinnar, 1. varaborgarfulltrúi R-listans og fyrrverandi forseti borgarstjórnar Reykjavíkur, í viðtali við Fréttablaðið, júní 2004.

Þeir voru í fyrra sammála um það þeir hugsuðir, Helgi Hjörvar og Sverrir Jakobsson, að R-listinn væri að verða klíka í ráðhúsinu. Helgi Hjörvar, sem ætti nú að þekkja málin af eigin raun, telur R-listann „ekki í tengslum við eitt né neitt“. Fyrir þá sem standa svolitlu fjær R-listanum, svo sem eins og Vefþjóðviljann til dæmis, hljómar þessi lýsing Helga, sem hann ber Sverri einnig fyrir, mjög trúlega. Höfuðborginni stjórnar fámenn Ráðhúsklíka og hefur gert undanfarin ár með þeim árangri sem sjá má. Hækkaðir skattar, stórauknar skuldir, lóðaskortur, svikin loforð eru meðal þess sem þakka má þeim sem ráða málum í ráðhúsinu í Reykjavík og telja nú að sögn „ekki þola neina bið“ að þeir fái einnig að stýra landinu með sama árangri. Um helgina náði Ráðhúsklíkan endanlega öllum völdum í Samfylkingunni og til marks um opin og lýðræðisleg vinnubrögð hennar, þá voru helstu embættismenn Reykjavíkurborgar gerðir að leynifélögum í Samfylkingunni til þess að geta kosið leiðtogann. Starfsmaður á skrifstofu flokksins var meira að segja rekinn úr starfi, grunaður um að hafa upplýst formann flokksins um það hverjir væru í flokknum, og er það nýtt met í flokksstarfi. Aðalástæða þess að Ráðhúsklíkan reiddist starfsmanninum svona mikið mun hafa verið sú, að formaður Samfylkingarinnar fékk að vita að Helga Jónsdóttir borgarritari væri gengin í flokkinn. Ingibjörg Sólrún hafði nefnilega lofað henni leyniaðild svo hún gæti kosið í opna og lýðræðislega umræðustjórnmálaflokknum. Formaður framkvæmdastjórnar, Stefán Jón Hafstein, borgarfulltrúi R-listans, rak starfsmann flokksins úr starfi fyrir að hafa hugsanlega átt þátt í þeirri ósvinnu að formaður flokksins fékk að vita að Helga væri í flokknum.

Allir fjölmiðlar endurfluttu í gær gagnrýnislaust þau orð Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur að á landsfundi sínum hefði Samfylkingin tekið afstöðu „gegn klíkum“. Einmitt! Gegn hvaða klíkum? Össuri Skarphéðinssyni? Samfylkingin hafnaði forystu Össurar og þeirra sem með honum hafa starfað, nýtt fólk tók öll völd og vissulega má gera ráð fyrir því að með kjöri Ingibjargar Sólrúnar hafi Samfylkingin minnkað möguleika sína á því að ná raunverulegum áhrifum í landinu á næstu árum. En hvað sem um það má segja, þá er það algerlega fráleitt að Samfylkingin hafi hafnað klíkum. Það var einmitt ein aðalklíka landsins, Ráðhúsklíkan, sem tók Samfylkinguna endanlega yfir nú um helgina. Ekki að það hafi verið mikil breyting, því klíkan hafði undanfarin ár farið með Samfylkinguna sem sína eign, eins og best sást á því þegar formanni flokksins, Össuri Skarphéðinssyni, var ýtt til hliðar síðla árs 2002, og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir tók væntanlega kosningabaráttu yfir og skilaði Samfylkingunni í stjórnarandstöðu. En á landsfundinum var það sett í endanlegt form sem áður hafði aðeins verið í raun.