Þeir fóru eina umferð í gær. Þykir líklega sjálfsagt að slá sér upp einu sinni tvisvar á ári með því að tala um fjármál stjórnmálaflokka. „Nauðsyn reglna“ og þetta venjulega. Ætli Vefþjóðviljinn ítreki þá ekki einu sinni enn andstöðu sína við slíkar reglur, andstöðu sem kemur til af fleiru en hefðbundinni andstöðu við reglur. Blaðið álítur nefnilega að það yrði af mörgum ástæðum slæmt að settar yrðu sérstakar reglur um fjármál eða starfsemi stjórnmálaflokka. Meðal annars slæmt fyrir lýðræðið og heilbrigða stjórnmálastarfsemi. Eins og margsinnis hefur verið nefnt í Vefþjóðviljanum yrði ákaflega einfalt fyrir þá sem það vilja, að fara fram hjá reglum eins og þessum. Einföld aðferð getur verið sú sem jafnaðarmenn í Þýskalandi innleiddu, en þeir stofnuðu einfaldlega sérstakt stuðningsfyrirtæki sem svo styður Jafnaðarmannaflokkinn. Þeir sem svo vilja styðja flokkinn leynilega, þeir greiða einfaldlega til þess fyrirtækis og það ákveður síðan að styðja og styrkja Jafnaðarmannaflokkinn. – En nú er auðvitað hægt að komast fram hjá mörgum reglum, ef menn hafa nægan vilja, en samt eru þær settar, segir kannski einhver. Ekki afnemum við allar þær reglur sem einhver getur brotið. Regla getur gert mikið gagn þó hún komi ekki í veg fyrir allt sem menn vilja sporna gegn, bætir hann svo kannski við. – Og það er alveg rétt, engin regla, ekkert eftirlit, engin gæsla er svo sterk að lögbrot verði óhugsandi, en sú staðreynd hefur nú enn sem komið er ekki þótt kalla á að allar reglur eða allt lögreglueftirlit verði afnumið. En að fleiru er að hyggja hér.
Ef reglur verða hafðar þannig, að ekki komi marktæk framlög frá öðrum en þeim mönnum sem hafa litlar áhyggjur af því hvort þeir brjóta reglur, svo lengi sem það kemst ekki upp, þá munu slíkir menn hafa óeðlilega mikil áhrif á stjórnmálastarf í landinu, sérstaklega í samanburði við þá sem vilja fara að lögum og reglum. – En það á ekkert að banna mönnum að styrkja stjórnmálaflokkana, segir þá einhver, við viljum bara að styrkirnir séu uppi á borðinu. – En gallinn er sá, að margir myndu, og af mjög eðlilegum og heiðarlegum ástæðum, veigra sér við styrkja stjórnmálaflokkinn sinn við þær aðstæður. Ekki af því að neitt væri óeðlilegt við styrkinn eða að hann væri á nokkurn hátt ætlaður til þess að ívilna stuðningsmanninum, heldur vegna þess að styrkurinn myndi þvælast fyrir stuðningsmanninum ef hann yrði opinber. Ræðum það aðeins nánar. Í langfæstum tilvikum hafa stjórnmálamenn hugmynd um það hverjir það eru sem styrkja flokka þeirra; að minnsta kosti því minni hugmynd sem flokkurinn er stærri og hefur fleiri stuðningsmenn. Fjárstyrkur færir manni sjaldnast nokkurn annan ávinning en ánægjuna af því að hafa lagt eitthvað af mörkum í baráttunni fyrir sínum lífsskoðunum, hverjar sem þær eru. En hann færir heldur engin óþægindi, önnur en þau að það lækkar á bankabókinni. En um leið og styrkurinn yrði gerður opinber, þá færi hann að færa óþægindi. Tökum dæmi. Tvö fyrirtæki sækja um lóð hjá sveitarfélagi. Einhver hringir niður í Stjórnmálaflokkaeftirlit og þar segir Jóhanna honum að jú, mikið rétt, annað fyrirtækið styrkti einmitt einn meirihlutaflokkanna í fyrra. Þessar upplýsingar fara í blöðin. Þegar sveitarstjórinn þarf að velja á milli fyrirtækjanna, þá sér hann auðvitað í hendi sér að hann verður tortryggður ef hann velur fyrirtækið sem styrkti hann, en fær hrós ef hann velur hitt. Ef upplýsingarnar hefðu aldrei verið birtar, þá hefði hvorki hann né aðrir vitað um styrkinn og styrkurinn engin áhrif haft á úthlutunina. Það menn vita, að styrkur við stjórnmálaflokk verður undantekningarlítið til þess að valda óþægindum einhvern tíma í framtíðinni, hlýtur að draga úr mönnum að veita slíka styrki. Auðvitað halda margir því áfram, þó þeir minnki styrkina hugsanlega. Margir hætta alveg við að styrkja sinn stjórnmálaflokk, en margir fara auðvitað þá leið að fara fram hjá reglunum. En þá veit flokkskontórinn yfirleitt af því – en enginn annar.
Svo er annað atriði sem miklu skiptir einnig. Það er auðvitað hægt að skrásetja alla beina fjárstyrki til stjórnmálaflokks. En hvað með allar hinar aðgerðirnar sem þeir geta farið út í sem hafa aðstöðu eða fé til? Það verður bókað og því slegið upp ef fyrirtæki greiðir til flokksstarfs. En ef hagsmunasamtök standa fyrir ákafri áróðursherferð, hannaðri til að gagnast sérstökum stjórnmálaflokki, í margar vikur eða mánuði fyrir kosningar, hvað þá? Það er hvergi skráð. Það mætti meira að segja ímynda sér að einn daginn færi stórfyrirtæki jafnvel að reka fjölmiðla, sérstaklega til þess að berjast fyrir eða gegn einstökum flokkum. Sá stuðningur yrði hvergi bókaður. En myndi skipta margfalt meira máli en einhverjir hundraðþúsundkallar sem enginn veit um og enginn lætur ráða neinu um afstöðu sína til nokkurs máls. Reglur um opið bókhald gagnast þeim einum sem vilja minnka getu stjórnmálaflokka til að standa á eigin fótum, óháða hagsmunahópum, fjölmiðlum og stórfyrirtækjum. Með reglum um opið bókhald yrðu smáfyrirtækin hrædd frá því að leggja sína hlutfallslega litlu styrki af mörkum. Og er það mikill ávinningur af reglum um fjármál stjórnmálaflokka? Aukin áhrif þeirra sem fara fram hjá reglum, aukin áhrif þeirra sem misnota aðstöðu sína, svo sem hjá hagsmunasamtökum, en minnkandi áhrif þeirra sem fara að reglum.
Löngunin til að minnka getu flokkanna til að standa á eigin fótum, er eitt af því sem knýr suma áfram við að fá slíkar reglur settar og hefur dugað til þess víða um heim. Því veikari sem flokkarnir eru, því fremur verða þeir að treysta hagsmunahópum og fjölmiðlum. Meðal annars vegna þessarar löngunar mun þessari baráttu haldið áfram. Kannski er það mesta furða hversu lengi hefur tekist að verja rétt Íslendinga til þess að styrkja sinn stjórnmálaflokk án þess að þurfa að blanda öðru fólki í það. En þeir sem ákafastir eru í að fá að ryðjast í bókhald flokkanna ættu ekki að örvænta þó þeir hafi beðið lengi. Þeir eru ekki þeir einu sem hafa mátt gera það. Fyrir tuttugu árum hóf Morgunblaðið birtingu sérstaks tölvuþáttar og var tekið fram að í næsta þætti yrði fjallað um commodore tölvuna. Enn bíða commodore-menn rólegir, vitandi það að þeirra tími mun koma.