Miðvikudagur 11. maí 2005

131. tbl. 9. árg.
EES-samningurinn er vissulega góður fyrir viðskiptalífið en í rekstri hans og þróun hafa komið í ljós ýmsir gallar. Sumir voru þekktir í upphafi aðrir að [svo] hafa komið í ljós síðar. EES-samningurinn neyðir okkur Íslendinga til að mynda til að taka yfir alla löggjöf Evrópusambandsins sem gildir á innri markaðinum eða um 70 til 80 prósent af öllum lagagerðum ESB sem er töluvert umfram það sem menn gerðu ráð fyrir í uppahafi [svo]. EES-samningurinn felur þannig í sér stöðuga endurskoðun og uppfærslu á íslenskum lögum. Þetta hefur víðtæk áhrif fyrir íslensku stjórnsýsluna. Frumkvæði og lokaákvörðun um innleiðingar lagasetninga er í auknu mæli komið á Evrópuvettvanginn og fá svið samfélagsins eru undanskilin.
– Eiríkur Bergmann Einarsson í Fréttablaðinu 15. febrúar 2004.

N auðhyggjan hefur verið helsta sjónarmið þeirra sem barist hafa fyrir því að Ísland gengi Evrópusambandinu á hönd. Söguleg nauðsyn hefur stundum verið sögð knýja Ísland inn í þetta tollabandalag og því hefur ekki verið haldið sjaldnar fram að EES-samningurinn neyði upp á Íslendinga um 80% af gerðum Evrópusambandsins. Þess vegna, segja þeir sem tekið hafa trú á Evrópusambandið, breytir litlu fyrir Ísland að ganga í sambandið og hafa þá „áhrif“ á regluverkið. Í framhaldi af því koma svo gjarnan vafasöm ræðuhöld um mikil áhrif smáríkja á reglusetningu Evrópusambandsins. En svo gerðist það á Alþingi, eins og Vefþjóðviljinn gat um í gær, að utanríkisráðherra upplýsti í svari við fyrirspurn frá Sigurði Kára Kristjánssyni alþingismanni, að einungis lítið brot af regluverki Evrópusambandsins væri innleitt hér á landi. Hlutfallið er 6,5% en ekki um 80% eins og Evrópusambandssinnar hafa haldið fram og jafnvel tekist að sannfæra aðra um. Hér að ofan er eitt dæmi um slíkan málflutning frá kunnum Evrópusambandssinna og varaþingmanni Samfylkingarinnar, Eiríki Bergmann Einarssyni, sem af einhverjum ástæðum er líka sá maður sem fjölmiðlar leita hvað oftast til þegar þeir vilja fá sérfræðiálit á einhverju sem snertir Evrópusambandið. Það verður spennandi að sjá hvort að þeir munu biðja hann að rökstyðja ofanrituð ummæli sín og ef svo ólíklega vill til geta þeir beðið hann að rökstyðja einnig eftirfarandi ummæli sem hann lét frá sér fara í DV 15. nóvember 2001:

Þegar málið er hins vegar skoðað yfirvegað og án upphrópanna [svo] kemur í ljós að hið meinta fullveldisafsal hefur í raun löngu farið fram, því staða landsins í EES felur í sér meira fullveldisafsal en værum við fullgildir meðlimir í Evrópusambandinu. EES samningurinn felur í raun í sér aukaaðild að innri markaði ESB. Þar með skuldbindur Ísland sig til að taka yfir ríflega 80% af allri löggjöf ESB án þess að hafa nokkur áhrif á þá mótun þeirra. Værum við aðilar að ESB hefðum við hins vegar jafna aðkomu að ákvarðanatökunni og önnur ríki ESB og fengjum þannig hlutdeild í því fullveldi sem við sömdum frá okkur í EES.

Sú undarlega kenning aðdáenda Evrópusambandsins að fullveldi Íslands sé best borgið með því að landið afsali sér því að fullu hefur einmitt byggst á kenningunni um að við tækjum hvort eð er upp nær allar reglur Evrópusambandsins. Hvernig ætli þeim finnist kenningin halda, nú þegar í ljós er komið að við tökum aðeins upp 6,5% regluverksins? Og hvaða fjölmiðill ætli spyrji Evrópusinnana þeirrar spurningar? Líklega enginn.

En Eiríkur Bergmann Einarsson sérfræðingur fjölmiðlanna í málefnum Evrópusambandsins er ekki sá eini sem haldið hefur þessari kenningu að landsmönnum. Annar ekki mikið síðri sérfræðingur er þingmaðurinn Ágúst Ágúst Ágústsson, fyrrverandi stundakennari í stjórnmálaskóla Samfylkingarinnar, sem ritaði merka vísindaritgerð í miðopnu Morgunblaðsins þann 21. júlí 2003 undir fyrirsögninni „Hafa skal það sem sannara reynist um ESB“. Þar sagði fræðimaðurinn:

Nú þegar þarf Ísland að taka yfir um 80% af öllum lögum og reglum ESB vegna EES-samningsins án þess að hafa nokkur áhrif á ákvarðanatökuna. … Andstaðan gegn aðild Íslands að ESB byggir oft á vanþekkingu eins og hér hefur verið sýnt fram á.

Já, það er vont þegar menn byggja afstöðu til aðildar Íslands að ESB á vanþekkingu.

Nokkru áður, þann 7. desember 2001, hafði Ágúst, sem þá var virðulegur formaður ungra jafnaðarmanna, haldið fram sama sjónarmiði í sama blaði en reyndar gengið enn vasklegar fram og fullyrt að hlutfallið væri 90% en ekki yfir 80%:

Nú verða Íslendingar að lögleiða um 90% af löggjöf ESB án þess að hafa áhrif á ákvarðanaferli ESB. Innganga Íslands í ESB er því hluti af sjálfstæðisbaráttu en er ekki fullveldisafsal.

Annar vísindamaður er Ágúst Einarsson fyrrverandi þingmaur Samfylkingarinnar. Hann hélt sömu kenningu fram á málþingi um EES-samninginn og valkosti Íslendinga í Evrópumálum sem Morgunblaðið sagði frá í desemberbyrjun árið 2000. Morgunblaðið hafði eftir Ágústi Einarssyni að veikleikar EES-samningsins væru „að Íslendingar yrðu að taka upp í löggjöf sinni um 80% af löggjöf Evrópusambandsins, hefðu ekkert með útfærslu þeirra laga og reglugerða að gera og ekki væri mögulegt að neita því að taka upp lög og reglugerðir sem tengdust EES-samningnum.“

Öðrum ungum og örum þingmanni Samfylkingarinnar hefur einnig verið mikið niðri fyrir um fullveldi Íslands og Evrópusambandið, en í Morgunblaðinu 18. janúar 2002 fór Björgvin G. Sigurðsson að vanda með himinskautum og sagði:

Þá brennur á mörgum hvernig komið verði fyrir fullveldi Íslands ef til aðildar að ESB kemur. Kjarni málsins er sá að við fulla aðild myndum við endurheimta að hluta það fullveldi og stjórn á eigin málum sem glataðist við gerð samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Síðan þá höfum við tekið við 80% af löggjöf okkar frá ESB án þess að hafa neitt um þá lagasetningu að segja.

Sama mál varð enn einum þingmanni Samfylkingarinnar, Katrínu Júlíusdóttur, tilefni eftirfarandi ummæla í umræðum um munnlega skýrslu utanríkisráðherra á Alþingi þann 11. nóvember síðast liðinn:

Eins og fyrr segir tel ég að hagsmunum okkar til framtíðar og hagsmunum okkar Íslendinga verði betur borgið með því að ganga í Evrópusambandið. Eins og staðan er nú er gríðarlegur lýðræðishalli á þessum EES-samningi sem við erum aðilar að. Það má í rauninni segja að í gegnum hann séum við aukaaðilar að Evrópusambandinu vegna þess að við tökum við um 70-80% af öllum lagagerðum Evrópusambandsins.

Því má vel halda fram að „gríðarlegur lýðræðishalli“ sé í Evrópusambandinu, en að draga þá ályktun að við séum betur sett með því að taka þátt í öllum lýðræðishallanum en ekki aðeins hluta hans er vitaskuld fjarstæða, sérstaklega þegar haft er í huga að við þurfum nú aðeins að þola 6,5% lýðræðishallans en ekki 70-80% hans eins og þingmaðurinn hélt fram.

En það eru ekki aðeins hinir ungu þingmenn Samfylkingarinnar sem vaða reyk í þessu efni. Morgunblaðið birti 6. október 2002 viðtal við einn af þáverandi þingmönnum flokksins, Svanfríði Jónasdóttur. Þetta var gert í tilefni að því að Samfylkingin hefði gengist fyrir „viðamikilli Evrópukynningu“ og hefði „uppfrætt flokksfélaga sína og aðra íbúa landsins um Evrópusambandið, EES-samninginn og muninn þar á milli“. Í viðtalinu var haft eftir Svanfríði „að ekki virðist allir gera sér grein fyrir því að með EES-samningnum hafi Íslendingar undirgengist 80% af lagagerð Evrópusamband[s]ins.“ Nei, það gerðu sér víst ekki allir grein fyrir þessu, en mikil gæfa var að Samfylkingin skyldi efna til sérstaks fræðsluátaks til að kynna þessa staðleysu fyrir landsmönnum.

Svona mætti halda lengi enn áfram að vitna í samfylkingarkenningarnar. Þingmenn, forystumenn, ritstjórar vefrita, leiðtogar ungliðahreyfinga hafa hver um annan þveran byggt skoðanir sínar á hreinum staðleysum, hver endurtekið annars vitleysu – og allir talið sig þess umkomna að ávíta aðra fyrir vanþekkingu þeirra. Sem dæmi má nefna Ómar R. Valdimarsson, sem 2. júlí 2002 ritaði grein í Morgunblaðið og titlaði sig þá ritstjóra vefrits ungra jafnaðarmanna og fjölmiðlafræðing. Ómar var ekkert að draga af sér þegar hann fullyrti: „Um 80 til 90 prósent af öllum reglugerðum ESB eru nú samþykkt á Alþingi Íslendinga án þess að Íslendingar hafi nokkuð um það að segja.“

Kolbeinn Stefánsson, sem í Morgunblaðinu þann 20. október árið 2000 titlaði sig formann félags ungra jafnaðarmanna í Reykjavík, er annað dæmi um minni spámann á villigötum Samfylkingarinnar. Í grein í Morgunblaðinu setti hann fram fullyrðingu um „meginþorra tilskipana ESB“:

Andstæðingar ESB sjá gjarnan ofsjónum yfir því hve starf og rekstur Evrópusambandsins er umfangsmikill. Þeir óttast að aðild að sambandinu feli í sér framsal fullveldis þjóðarinnar til yfirþjóðlegs skriffinnskubákns. Fátt gæti verið fjær sannleikanum. EES-samningurinn felur í sér mun meira framsal fullveldis enda neyðumst við nú til að taka við meginþorra tilskipana ESB án þess að hafa nokkuð um það að segja.

Dæmin eru mun fleiri en hér skal staðar numið. Allt sýnir þetta að árum saman hafa Samfylkingarmenn byggt Evrópustefnu sína að verulegu leyti á því að Íslendingar séu hvort eð er næstum því komnir inn í Evrópusambandið og því muni engu að ganga alla leið. Ávinningurinn, sem á að felast í ímynduðum áhrifum okkar á reglur sambandsins, er sagður mun meiri en tapið enda séum við þegar búin að innleiða um 80% af regluverkinu. Já, ef ekki bara 90%. Þegar fyrir liggur að við höfum ekki innleitt nema 6,5% af regluverkinu, ætli samræðustjórnmál Samfylkingarinnar leyfi henni þá að endurskoða stefnuna. Nei, það er í hæsta máta ólíklegt. „Evrópuhugsjónin“ mun bera skynsemi Samfylkingarmanna ofurliði eins og fyrri daginn því að flokkurinn er logandi hræddur við að missa af „Evrópuhraðlestinni“. Hann mun þess vegna áfram berjast fyrir inngöngu Íslands í Evrópusambandið, alveg án tillits til þess hvaða afleiðingar inngangan hefði fyrir Ísland.