Miðvikudagur 13. apríl 2005

103. tbl. 9. árg.

Velkomin í Héðinsfjörð. Hvort sem þið komuð sjóleiðina eða genguð dagleið yfir fjöllin sem girða fjörðinn af. Kyrrðin er einstök. Þeir eru ekki margir svona firðirnir á Íslandi sem eru alveg lokaðir fyrir bílaumferð. Líklega enginn svona fallegur í það minnsta. Grasi gróinn með lygnri á og stöðuvatn við hafið, sjaldgæfar gróðurtegundir og tignarleg fjöllin allt í kring nema hæfilegur norðurgluggi til að njóta miðsumarsólarlags. Fjörðurinn hefur meira að segja fengið að vera í friði fyrir ríkisstyrktum skógræktarmönnum vopnuðum Alaskarunnum og öðrum heimskautaarfa. Í tillögu Náttúrufræðistofnunar Íslands um friðland í Héðinsfirði segir: „Í firðinum er mjög sérstæður gróður sem er tegundaríkur og einkennandi fyrir snjóþyngri svæði landsins. Sambærilegan gróður er að finna í fjörðum austan Eyjafjarðar, í Njarðvík eystri, Borgarfirði eystri og Loðmundarfirði og á nokkrum stöðum á Vestfjörðum. Héðinsfjörður sker sig frá öðrum svæðum að því leyti að þar eru einkennistegundir snjóþungra svæða útbreiddar á litlu svæði og gróður gróskumikill…“

Velkomin í Héðinsfjörð sumarið 2010. Já voruð þið aðeins tíu mínútur á leiðinni frá Ólafsfirði? Þótt þið væruð með stóra fellihýsið í eftirdragi. Þetta hefði ekki verið hægt fyrir nokkrum árum. Góðir Sturla Bö og Kristján Mö. Heyrðu annars, hjólhýsasvæðið er að verða fullt. En menn hljóta að búa til pláss fyrir ykkur þegar þeir sjá að þið eruð bæði með allar gervihnattastöðvarnar og Bang & Olufsen græjur til að koma stuði í mannskapinn. Kemurðu svo ekki í plöntunina á morgun? Bara þegar þið vaknið, ha. Starfsmannafélag Dalvíkurbæjar fékk styrk úr bæjarsjóði og landshlutaskógrækt ríkisins til að planta 2.010 græðlingum af Alaskalerki hérna í reit félagsins út með firðinum til að fagna opnun ganganna.

 

Á myndinni hér að ofan má sjá hvernig Héðinsfjörður verður skorinn í tvennt með hraðbraut sem tengir saman göngin frá Ólafsfirði og Siglufirði. Þessi mynd eru fengin af vef Vegagerðar ríkisins og tilheyrir skýrslu um svonefnt  umhverfismat sem gert var vegna ganganna. Vegurinn sést reyndar ekki mjög vel á myndinni því hann er eðlilega hafður grænn á litinn! En það má glögglega sá hvar göngin fara inn í fjöllin og vegurinn liggur þar á milli.

Þótt Náttúrufræðistofnun Íslands vilji friðland í Héðinsfirði til að vernda hinn „mjög sérstæða gróður“ sem þar finnst leggst hún hins vegar ekki gegn jarðgöngunum og vegagerðinni í firðinum. Það sem vakir fyrst og síðast fyrir þessari ríkisstofnun er að ná skipulagsforræði yfir firðinum af landeigendum og núverandi skipulagsyfirvöldum á Siglufirði. Það er ekki nýtt að ríkisstofnanir taki eigin hagsmuni fram yfir hagmunina sem þeim er uppálagt að vernda.

Já mörgum þykir gott að vita til þess að ríkið er með eftirlitsstofnanir til að vernda náttúruna, umhverfismat, friðlýsingar, verndanir og lög og reglur um umhverfisvernd. En það bara dugar ekki þegar framkvæmdir á vegum ríkisins eru annars vegar. Frekustu hagsmunahóparnir hafa venjulega sitt fram. Héðinsfjarðargöngin eru skólabókardæmi um framkvæmd sem aldrei væri farið í án stuðnings ríkisins.  Þau eru líka dæmi um það hvernig hagsmunir vel skipulagðra hagsmunahópa og stjórnmálamanna á atkvæðaveiðum fara saman. En síðast en ekki síst eru þau dæmi um að ekki er hægt að treysta hinu opinbera fyrir umhverfisvernd.