Þriðjudagur 12. apríl 2005

102. tbl. 9. árg.

Sá augljósi hængur er á einkavæðingu ríkisfyrirtækja að stjórnmálamenn koma að henni. Við því er lítið að gera. Hver einkavæðing er lokapunktur í sorgarsögu ríkisreksturs. Þar með er afskiptum stjórnmálamanna af fyrirtækinu vonandi lokið. Þeir geta ekki lengur hyglað samflokksmönnum, kjördæmum eða frekum hagsmunahópum með því að misnota fyrirtækið. Það má því leggja ýmislegt á menn til að koma einkavæðingu til leiðar.

Annar galli á einkavæðingu er að ríkið aflar oftast nær verulegs fjár með henni. Við það tapa margir stjórnmálamenn oft þeirri litlu samúð sem þeir kunna af hafa haft með skattgreiðendum. Þeir haga sér oft eins og menn sem hafa unnið 1 milljón í happdrætti og telja liggja beint við kaupa 5 milljón króna bíl. Héðinsfjarðargöng, fæðingarorlof, hærri barnabætur, „gjaldfrjáls“ leikskóli, tónlistarhús, menningarhús eru dæmi um verkefni sem of miklar tekjur ríkissjóðs undanfarin ár hafa getið af sér.

Agnes Bragadóttir fréttastjóri ritaði Viðhorf í Morgunblaðið í gær þar sem hún hvatti meðal annars til stofnunar fjöldahreyfingar um kaup á hlut ríkisins í Símanum svo menn „njóti arðsins af eiginn köku“ eins og hún orðaði það í sjónvarpsviðtali um efni greinarinnar. Agnes telur að öðrum kosti muni stjórnmálamenn færa flokksgæðingum fyrirtækið, sem hún telur „eign þjóðarinnar“, fyrir lítið. Agnesi þykir það álitlegri kostur að þjóðin kaupi fyrirtækið af sjálfri sér en greiðslan renni ekki til þjóðarinnar sjálfrar heldur til þingmannanna 63 sem eru á leiðinni á útgjaldafyllerí norður í Héðinsfirði og niðri á Geirsgötu.

Það er einkennilegt að Agnes skuli ekki stinga upp á að hlutbréfin í Símanum séu einfaldlega send þjóðinni í pósti endurgjaldslaust. Í leiðinni gæti Íslandspóstur borið út hlutabréfin í sjálfum sér, Landsvirkjun og Ríkisútvarpinu. Þessi leið til einkavæðingar hefur aldrei verið farin á Íslandi. Hún hefur ekki aðeins þann kost að erfitt er að saka menn um að hygla nýjum eigendum heldur ekki síður að þannig fá stjórnmálamennirnir ekki krónu til nýrra verkefna. En auðvitað munu stjórnmálaflokkarnir aldrei ná sátt um þessa leið því slík sátt setur þá sjálfa ekki í aðalhlutverk.

Þ

Hvernig getur tónlistarhúsið sem rísa á við Reykjavíkurhöfn orðið 40 til 50 sinnum dýrara en tónlistarhúsið Ýmir?

eir eru væntanlega til sem vildu gjarnan að íslenska ríkið eignaðist sérhæft hús í tónlistarflutnings en vilja hins vegar ekki að skattgreiðendur þurfi að punga út 8 til 10 þúsund milljónum króna í þeim tilgangi eins og að lágmarki má gera ráð fyrir ef tónlistarhúsið sem ríki og borg óska sér rís við Geirsgötu. Þetta er skiljanlegt sjónarmið. Jafnvel þótt menn þrái heitt að hlusta á tónlist í góðu húsi er ekki þar með sagt að þeir séu svo frekir að heimta til þess yfir 100 þúsund krónur af hverri fjögurra manna fjölskyldu í landinu. Menn þyrftu enda ekki aðeins að vera frekir til þess heldur eitthvað annað og meira sem frekjuhugtakið nær engan veginn yfir.

Í Morgunblaðinu á sunnudaginn var hins vegar sagt frá því að nú er til sölu fullbúið tónlistarhús.Núverandi eigandi hússins, Karlakór Reykjavíkur, kynnir það með þessum orðum:

Á efri hæð hússins er tónleikasalur sem er sérstaklega hannaður með tilliti til hljómburðar. Sviðið er stórt og er góð aðstaða fyrir stóran hóp flytjenda s.s. kór eða hljómsveit. Vandaður Steinway flygill er í húsinu og kórpallar af vönduðustu gerð. Húsið er fjölnotahús og býður því upp á fjölmarga aðra notkunarmöguleika s.s. fyrir ráðstefnur, fundi og leiksýningar.

Í frétt Morgunblaðsins kom fram að áætlað söluverð hússins sé um 200 milljónir króna. Þessar 200 milljónir eru um 2 % af því sem ríki og borg ætla í byggingu tónlistar- og ráðstefnuhúss. Hvernig getur óráðsían og eyðslubrjálæðið komist á þetta stig? Hvernig getur það gerst að á teikniborðum arkitekta séu nú fyrirmæli frá stjórnvöldum um að hanna tónlistarhús sem er fjörutíu sinnum dýrara en hið glæsilega tónlistar- og ráðstefnuhús Ýmir?