Markmið ríkisstjórnarinnar um dreifða eignaraðild við sölu á fyrstu 49% eignarhlut í Fjárfestingarbankanum rauk útí veður og vind með kennitölubraskinu. |
– Jóhanna Sigurðardóttir í grein í DV 18. ágúst 1999. |
Já „kennitölubraskið“ fékk það óþvegið hjá Jóhönnu Sigurðardóttur alþingismanni þegar þúsundir Íslendinga gerðu samning við fjármálafyrirtæki um að selja sinn hlut í ríkisbönkunum um leið og þeir hefðu keypt af ríkinu. Einstaklingar voru jafnvel að hagnast um nokkur þúsund krónur á þessu. Jóhanna gekk af göflunum. Heimtaði umræðu í þinginu um málið, gerði fyrirspurn til viðskiptaráðherra, hóaði í fréttamenn og viðhafði hefðbundin stóryrði; einkavinavæðing, kolkrabbi, brask, leynd og pukur.
Nú hefur Reykjavíkurborg R-listans farið af stað með nýtt skömmtunarkerfi á lóðum í borginni. Það verða dregnir út nokkrir heppnir umsækjendur og þeir verða að nýta lóðirnar sjálfir. Engu að síður er þegar búið að auglýsa eftir kennitölum í blöðunum en flestir fá bara vinnufélaga, ömmusystur og systkinabörn til þess að sækja um til að bæta líkurnar. Hugsanlegur ávinningur af því að lána kennitöluna er 3,4 milljónir króna samkvæmt auglýsingunni en enginn fjölmiðill hefur reynt að komast að því hvað er markaðsverð á sambærilegum lóðum. Hvað er Reykjavíkurborg að gefa hinum heppnu margar milljónir króna?
Jóhanna Sigurðardóttir mun auðvitað ekki segja orð um þetta, hvorki stórt né smátt, og enginn fréttamaður spyrja þessa ötulu baráttukonu gegn kennitölubraski hvað henni þyki eiginlega um það sem er að gerast í Lambaseli R-listans.
Skákmeistarinn Bobby Fischer er orðinn Íslendingur, sögðu fréttamenn Ríkisútvarpsins og Stöðvar 2 í gærkvöldi. Og höfðu allir rangt fyrir sér. Bara til að hafa það á hreinu, þá er Robert James Fischer ekki orðinn íslenskur ríkisborgari, þó hann verði það sjálfsagt innan skamms.
Muna ekki allir eftir öllum stjórnskipunarsérfræðingunum sem upp vöktust á fjölmiðlunum síðasta sumar? Um nokkurra daga skeið urðu ákveðnir fjölmiðlar og álitsgjafar fullir af hástemmdum yfirlýsingum um að löggjafarvaldið í landinu væri sameiginlega hjá Alþingi og forseta Íslands, og væri hlutur forsetans þar sko ekki bara að nafninu til, sei sei nei. Einhverra hluta vegna dettur engum í hug núna annað en að lögin um ríkisborgararétt Fischers séu þegar komin til framkvæmda. Svo er hins vegar ekki. Þó Vefþjóðviljanum detti ekki í hug að forseti Íslands fari persónulega með synjunarvald embættisins, þá á enn eftir að staðfesta lögin um ríkisborgararétt Fischers og svo á eftir að birta þau í Stjórnartíðindum. Robert Fischer, vinur Sæma, er því enn ekki orðinn íslenskur ríkisborgari, þó Vefþjóðviljinn vilji auðvitað ekki með þeirri ábendingu draga úr þeirri miklu staðreynd að Fischer hefur gríðarleg tengsl við land og þjóð, enda kom hann hingað árið 1960 og gerði jafntefli við Freystein.
Það er svo stjórnskipunarlegt sprell, að ef forseti synjar lögunum um ríkisborgararétt Fischers staðfestingar, þá öðlast þau samt gildi. En falla svo úr gildi ef þau falla í þjóðaratkvæðagreiðslu. Og hvað þá? Myndi Fischer missa ríkisborgararéttinn? Er hægt að svipta menn ríkisborgararétti í þjóðaratkvæðagreiðslu? Hvaða vitleysu-spurningar eru þetta? Og af hverju í dauðanum drap hann á h2 í fyrstu skákinni við Spassky?
Aukaspurning, fyrst Vefþjóðviljinn er byrjaður. Af hverju hafa menn áhyggjur af framfærslu Fischers? Hann fer auðvitað á stórmeistaralaun.