Mánudagur 21. mars 2005

80. tbl. 9. árg.

Nú hefur verið kynnt lagafrumvarp sem að endursögn fréttamanna gerir ráð fyrir því, að mönnum verði óheimilt að segja starfsmönnum sínum upp störfum án þess að færa fram fyrir því málefnalegar ástæður. Þetta er eftir öðru. Það er sótt jafnt og þétt gegn sjálfsákvörðunarrétti fólks og reynt að taka af því ráðin á fleiri og fleiri sviðum lífsins. Hér er gert ráð fyrir því að samningafrelsi fólks verði skert með því að gera mönnum óheimilt að gera hefðbundna vinnusamninga, uppsegjanlega af beggja hálfu, eins og tíðkast hefur. Krafan um „rökstuðning“ og „málefnalegar ástæður“ af hálfu einkaaðila er sífellt að verða til meiri vandræða og væri óskandi að þingmenn læknuðust fremur en versnuðu af hneigð sinni til að skipta sér af lífi annarra. Vefþjóðviljinn hefur ítrekað látið í ljós þá skoðun, að einstaklingar – og fyrirtæki – eigi ekki að þurfa að rökstyðja persónulegar ákvarðanir sínar fyrir öðrum, fremur en þeim sýnist. Fólk á að vera sjálfrátt um þær ástæður sem það hefur fyrir ákvörðunum sínum, svo sem um það við hverja það semur og við hverja það semur ekki.

Auðvitað er ekkert að því, að í frjálsum samningi sé kveðið á um það að samningssambandinu verði ekki slitið nema að uppfylltum tilteknum skilyrðum. En slíkan samning eiga alþingismenn ekki að gera fyrir hönd annarra. Þessu tengt má nefna hugtakið „mismunun“ sem oft er hrópað upp, ekki síst eftir að menn tóku að misskilja stjórnarskrárbreytingarnar 1995, sem kveða á um að allir skuli vera „jafnir fyrir lögum“. Þetta orðalag hafa margir misskilið þannig að allir skuli vera „jafnir“, en í raun er átt við að ekki megi mismuna mönnum sérstaklega í lögum. Einkaaðilar mega mismuna fólki eins og þeim sýnist. Sem er eins gott. Hver vill ekki geta mismunað fólki og farið þá eftir eigin gildismati en ekki annarra? Og hvernig halda menn að lífið yrði, ef sá réttur yrði af þeim tekinn? Hver vill þurfa að rökstyðja fyrir öðrum að það séu í raun „málefnalegar ástæður“ fyrir því að hann gengur sem í leiðslu á eftir einni konu en lætur sig ástleitni vinkvenna hennar engu varða? Hver vill þurfa að færa fram „málefnaleg rök“ fyrir því að hann sækir um vinnu hjá einu fyrirtæki en ekki öðru, fer á eina tónleika en ekki aðra, ræður þennan í vinnu en ekki hinn, semur um þetta við þennan en annað við hinn, og svo framvegis?

Allt eru þetta atriði sem Vefþjóðviljinn telur mjög eindregið að einkaaðilar megi „mismuna“ fólki eins og þeir vilja. Og svona mætti telja áfram og áfram. Menn geta vissulega samið af sér réttinn til mismununar, ef þeir gera það í frjálsum samningum, en alþingismenn og vitaskuld dómarar eiga að sjá þennan mismununarrétt borgaranna í friði.

Þeir sem voru á móti því að Saddam Hussein yrði komið frá völdum með hörðu, efndu til mótmæla gegn þeirri aðgerð víða um heim um helgina, í tilefni af því að tvö ár voru liðin frá því ráðist var gegn einræðisherranum. Ríkissjónvarpið taldi mesta þátttöku í mótmælum hafa orðið í Lundúnum þar sem tekist hefði að ná 50.000 manns á kreik.

Það er einn tíuundi þess fjölda sem mótmælti þar banni við refaveiðum á dögunum.