Miðvikudagur 23. mars 2005

82. tbl. 9. árg.

Á

Tónlistarhúsið Salurinn í Kópavogi er algerlega fullnægjandi fyrir nær alla klassíska tónleika sem haldnir eru eða haldnir verða hér á landi. Eins og tónlistarmenn hafa nú upplýst er þörfin fyrir risavaxið tónlistarhús í Reykjavík, sem kostar milljarða króna, nánast engin.

 dögunum var hér minnst á frekju þeirra sem krefjast þess að byggt verði hús fyrir milljarða króna til að þeir geti sinnt áhugamáli sínu með besta mögulega móti. Milljarðarnir sem kostar að byggja húsið eru í það minnsta 8 og ef verkið yrði með sniði einkaframkvæmdar og rekstrarkostnaður til 35 ára tekinn með í reikninginn er núvirði kostnaðar áætlaður 12 milljarðar króna. Húsið sem um ræðir er vitaskuld tónlistarhúsið sem tiltekinn sérhagsmunahópur vill láta hið opinbera reisa við höfnina í Reykjavík. Rætt var við einn af tónlistarmönnum landsins í Morgunblaðinu í gær og líklega verða það ekki taldar neinar ýkjur þótt fullyrt sé að sjaldan hafi önnur eins tilætlunarsemi birst almenningi frá slíkum málsvara sérhagsmunanna. Þarna var ekkert dregið undan og kröfugerðin á hendur skattgreiðendum var blygðunarlaus. Engu að síður upplýsti þessi sérhagsmunapotari – óvart líklega – að þörfin fyrir nýtt risavaxið tónlistarhús í Reykjavík er nánast engin.

Í frétt Morgunblaðsins segir að forsvarsmönnum og aðstandendum fyrirhugaðs tónlistarhúss í Reykjavík hafi borist áskorun um að í húsinu verði 200 sæta kammersalur ætlaður til tónleikahalds eingöngu með rúmgóðu sviði og góðum hljómburði. Undir áskorunina riti forsvarsmenn helstu minni tónlistarhópa landsins, auk einleikara, tónskálda, gagnrýnenda og fleiri. Í fréttinni kemur fram að í núverandi áætlun um tónlistarhúsið sé gert ráð fyrir tveimur tónleikasölum í húsinu, annars vegar stærri sal með 1.600-1.800 sætum og hins vegar minni sal með 450 sætum. Þetta nægir fyrrgreindum kröfugerðarhópi ekki og hann vill eins og áður segir sérstakan 200 sæta sal sem ekki verði notaður undir annað en tónleika. Hann verði sem sagt ekki notaður líka undir ráðstefnur eins og þó er ætlunin með hina salina tvo.

Morgunblaðið lét sig hafa það að ræða við einn undirritenda, Nínu Margréti Grímsdóttur píanóleikara, sem segir að þörfin sé mest á sal af þessari stærð enda séu 90% allra tónleika með 60-160 áheyrendur og bygging 200 sæta salar í tónlistarhúsinu sé mikið tilfinningamál meðal tónlistarfólks og hafi sú hugmynd verið rædd lengi í þeim hópi. Nína Margrét telur alls ekki að þeir salir á höfuðborgarsvæðinu sem eru af þessari stærð geri það að verkum að þörfin fyrir slíkan sal í nýju tónlistarhúsi sé ekki fyrir hendi og í fréttinni er haft eftir henni: „Hvað varðar Salinn [þ.e. tónlistarhúsið í Kópavogi], sem tekur rúmlega 300 manns í sæti, væri það eins og að segja að það þyrfti ekki að byggja kirkju í Reykjavík vegna þess að það væri kirkja í Kópavogi.“ Og Nína Margrét heldur áfram, full hógværðar: „Síðan vil ég segja að ég er af þeirri kynslóð tónlistarfólks sem verður aktívt þegar þetta tónlistarhús á loksins að rísa, og stend nú frammi fyrir því að störf mín muni tæplega koma til með að fara inn í það. Mér finnst það grófleg móðgun við mig og alla hina sem stöndum að metnaðarfullu tónleikahaldi, svo ekki sé talað um komandi kynslóðir einleikara og kammertónlistarfólks.“ Rétt er að geta þess að leturbreytingar eru Vefþjóðviljans, sem telur það ekki gróflega móðgun við sig að skattgreiðendur séu ekki neyddir til að standa straum af kostnaði við útgáfu vefrita.

En Nína Margrét er ekki hætt. Hún er í Morgunblaðinu spurð út í það hvort að þeir sem undirriti fyrrnefnda yfirlýsingu telji að tónlistarhús sem ekki hafi 200 manna sal geti ekki orðið „miðpunktur í íslensku menningarlífi á sviði tónlistar“. Hún staðfestir þetta og segir að „[ö]ll önnur flóra tónleika færi sjaldnast inn í þetta hús, og það væri auðvitað mjög dapurlegt. Þá spyr maður til hvers var húsið byggt.“ Þá liggur það sem sagt fyrir. Tónlistarhúsið sem ákveðinn sérhagsmunahópur vill að rísi við höfnina í Reykjavík getur ekki orðið miðpunktur í íslensku menningarlífi á sviði tónlistar. Spurt er til hvers húsið verði byggt og Vefþjóðviljinn treystir sér ekki til að svara því með öðrum hætti en þeim að verði húsið byggt – sem engin ákvörðun hefur verið tekin um – sé það aðeins til að þjóna litlum en háværum þrýstihópi. Það mun ekki þjóna 90% þeirra tónleika sem haldnir eru og það mun ekki heldur þjóna óperuflutningi nema að litlu leyti. Það upplýsti framkvæmdastjóri félagsins sem undirbýr byggingu hússins í aðsendri grein í miðopnu Morgunblaðsins í gær. Tónlistarhúsið, verði það byggt, verður varla nokkuð annað en rándýr leikvöllur fyrir hljóðfæraleikara einnar stórrar ríkishljómsveitar. Dettur einhverjum enn í hug, að hægt sé að halda því skammlaust fram, að verjandi sé að halda áfram undirbúningi þessarar fráleitu byggingar?