Ísíðasta mánuði tók gildi bókun í alþjóðlegum samningi á vegum Sameinuðu þjóðanna og er kennd við Kyoto í Japan. Bókunin var afrakstur í senn mikils samningamakks og lobbíisma. Sumir töldu og telja enn að stórfelldar hörmungar, gott ef ekki endalok þeirrar tilveru sem við þekkjum, vofi yfir, ef ekki verður dregið verulega úr útblæstri tiltekinna lofttegunda. Aðrir telja ekkert hníga í þá átt; að minnsta kosti hafi enginn sýnt fram á að menn geti gert neitt sem máli skipti til að hafa áhrif á þróun lofthjúpsins, en hins vegar sé ljóst að samningar eins og Kyoto-bókunin stórspilli lífskjörum og hefti framfarir. Gallar hennar séu verulegir en kostirnir litlir sem engir. Í bók sem út kom á síðasta ári, Ísland er land þitt, minnist höfundurinn, Friðrik Daníelsson efnaverkfræðingur meðal annars loftlagssamninga, sem hann er ekki sérstaklega hrifinn af. Friðrik segir:
Þessar endurteknu ráðstefnur, um höft á brennslu manna á jarðefnaeldsneyti, eru orðnar í sérflokki í upphöfnu tilgangsleysi og skrumskælingu vísinda, ásamt með samkomum á nokkrum öðrum alþjóðlegum „vettvöngum“, Alþjóða hvalveiðiráðið er þekktasta dæmið. Áróðurinn um hin válegu gróðurhúsaáhrif byggir á kenningum um að maðurinn sé að spilla andrúmslofti jarðar með því að blása út koltvísýringi frá brennslu. Margir halda að lofthjúpur jarðar sé að fyllast af „mengun“ af völdum manna. Þetta er svo notað sem ástæða til þess að reyna að koma alheimshöftum á iðnaðarstarfsemi.
Þegar skyggnst er á bak við áróðurinn kemur í ljós: – Koltvísýringur er ekki mengun, hann er eina fæða jurtagróðurs jarðar og þar með manna og dýra. – Gróðurvöxtur eykst með auknum koltvísýring í loftinu. – Koltvísýringsmagnið í lofthjúpnum hefur sveiflast gífurlega í sögu lífsins, ekki er enn vitað hvað maðurinn getur haft mikil áhrif þar á. – Jafnvel þó að mennirnir brenndu á svipstundu öllu jarðefnaeldsneyti sem til er í jörðinni, mundi loftið ekki spillast meir en svo að menn og dýr, sem anda að sér loftinu, mundu varla verða vör við breytinguna. – Mennirnir geta aldrei aukið koltvísýringinn mikið þar eð gróðurinn og sjórinn auka upptöku hans þegar magnið í loftinu vex. – Ef hitinn skyldi hækka á næstu öldum eða árþúsundum af völdum manna yrði það búbót fyrir flesta jarðarbúa og sérstaklega þá sem byggja kaldari lönd. |
Eins og áður hefur verið nefnt þá geymir Ísland er land þitt greinar og ávörp sem Friðrik Daníelsson hefur flutt á undanförnum árum. Hvort sem menn eru nú samþykkir hverju orði hans eða ekki, þá er bókin fallin til þess að ýta við lesendum og vekja þá til umhugsunar um margt. Umhverfisáróðurinn, Evrópuhyggjan, EES-samningurinn eru meðal þess sem fá útreið hjá Friðriki.