Fimmtudagur 3. mars 2005

62. tbl. 9. árg.

Sveitarstjórnamenn hafa gefist upp á því verkefni sínu að reka sveitarfélögin í landinu. Nú lítur út fyrir að þeir muni semja við ríkið um að það taki að sér að greiða hluta rekstrar sveitarfélaganna, en eins og fram hefur komið er svokölluð tekjustofnanefnd sveitarfélaganna og ríkisins að ná samkomulagi um að ríkið færi sveitarfélögunum 4,2 milljarða króna af skattfé almennings. Þennan tekjuauka fá sveitarfélögin þar sem þau hafa sannfært ríkið um að þau ráði ekki lengur við reksturinn og að nú stefni í óefni.

Sveitarfélögin hafa haft ákveðnar skatttekjur sem farið hafa ört vaxandi á liðnum árum, rétt líkt og skatttekjur ríkisins. Vandi sveitarfélaganna er ekki sá að skatttekjurnar hafi ekki verið nægar. Vandinn er þvert á móti sá að þau hafa ekki sniðið sér stakk eftir vexti þrátt fyrir að innheimta nú umtalsvert hærri skatta en fyrir fáeinum árum. Ekki þarf að fylgjast lengi með fréttum eða ferðast mikið um landið til að sjá í hverju vandinn liggur. Vandinn er allt of umfangsmikill rekstur, sem meðal annars sést af allt of stórum og illa nýttum íþrótta- og menningarmannvirkjum, jafnt á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni, auk endalausra gæluverkefna, undanlátssemi við þrýstihópa og hvers kyns sóunar í almennum rekstri.

Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga er meðal þeirra viðfangsefna stjórnmálanna sem er hvað mest til umræðu. Flestir sem tjá sig virðast álíta að æskilegt sé að flytja sem flest verkefni frá ríkinu til sveitarstjórnanna, en á meðan sveitarfélögin eru alls ófær um að sinna núverandi rekstri er hreinasta fjarstæða að ætla að auka umsvif þeirra. Miklu nær væri að flytja verkefni frá sveitarfélögunum, en þó er óþarfi að þau lendi hjá ríkinu. Fjöldi verkefna sveitarfélaganna – ef til vill flest verkefni þeirra – eru þess eðlis að einstaklingar og félög þeirra geta allt eins sinnt þeim og gera nú þegar að nokkru leyti. Sorphirða, grunnskólar, íþróttastarfsemi, leikskólar og fleira þess háttar er nokkuð sem engin sérstök rök mæla með að séu á hendi hins opinbera, og allra síst þess hluta hins opinbera sem verst stendur sig í að láta reksturinn ganga upp.