Bændablaðið er mikilvægur miðill fyrir flesta þá sem þurfa með reglulegum hætti að huga að endurnýjun vinnuvéla sinna og vilja því fylgjast með hvernig kaupin gerast á eyrinni í þeim efnum. Ýmsir aðrir hafa svo sem gagn af blaðinu og hafa lengi haft, en með nýjasta tölublaði Bændablaðsins tók það að höfða til alveg nýs hóps manna; áhugamanna um gaspur, gjamm og innantóm stóryrði. „Að selja Símann er glæpur gegn þjóðinni“ segir í fyrirsögn greinar eftir Jón Bjarnason, þingmann vinstri-grænna og má reikna með að einhverjir bændur muni staldra lítillega við greinina til að kynna sér hvernig það megi vera að sala ríkisins á símafyrirtæki geti verið „glæpur gegn þjóðinni“.
Hver skyldi svo rökstuðningurinn vera fyrir þessari miklu fullyrðingu í fyrirsögn Jóns? Því er fljótsvarað, hann er enginn. Í greininni er ekki einu orði minnst á „glæpinn“ eða reynt að útskýra í hverju hann sé fólginn. Greinin er lítið annað en frásögn í orðum af því sem fyrirtækið Og Vodafone hefur í langan tíma auglýst með hverri heilsíðunni á fætur annarri. Sé þingmaður vinstri-grænna annarrar skoðunar og telji sig hafa fært skynsamleg rök fyrir fullyrðingu sinni í fyrirsögn greinarinnar, þá hlýtur þess að vera skammt að bíða að hann geri kröfu um að landsdómur verði kallaður saman til að rétta yfir fjármálaráðherra vegna þeirrar glæpastarfsemi sem þingmaðurinn telur ráðherrann samkvæmt því standa fyrir. Nema fullyrðing Jóns sé bara innantómt gaspur eins og stundum áður hefur borið á í málflutningi hinna málefnalegu þingmanna vinstri-grænna.
Meira um umræður í stjórnmálum, þó ekki þær sömu. Í yfirliti hádegisfrétta Ríkisútvarpsins í gær sagði: „Borgarstjórinn í Reykjavík segir yfirlýsingar iðnaðarráðherra og fjármálaráðherra um einkavæðingu Landsvirkjunar afar óheppilegar.“ Og í fréttinni sagði borgarstjórinn, Steinunn Valdís Óskarsdóttir: „Ég vil nú segja það fyrst af öllu að ég tel afar óheppilegt hvernig ráðherrarnir hafa hagað málflutningi sínum í kjölfar þessarar yfirlýsingar…“
Ráðherrarnir höfðu eftir undirritun viljayfirlýsingar um kaup á hlut borgarinnar í Landsvirkjun rætt um hugsanlega einkavæðingu fyrirtækisins. Og hvert er þá sjónarmið borgarstjórans, skyldi borgarstjóri til dæmis vera ósammála eða sammála ráðherrunum? Það virðist ekki skipta máli, en borgarstjóri er hins vegar ósáttur við að ráðherrarnir hafi lýst skoðunum sínum. Líklega hefði þá verið betra að segja engum frá en einkavæða Landsvirkjun bara fyrirvaralaust, því að það óheppilega eru yfirlýsingarnar sjálfar en ekki innihald þeirra.
Þetta minnir óneitanlega á það þegar Þórólfur Árnason þáverandi borgarstjóri var í vandræðum undir lok árs 2004 vegna fyrri starfa sinna. Þá kom yfirlýsing frá borgarfulltrúum R-listans um að „umræða síðustu daga“ um skýrslu Samkeppnisstofnunar hafi gert stöðu borgarstjórans erfiða. Það var ekki efni skýrslunnar sem olli R-listanum áhyggjum, heldur „umræðan“. Þetta er ef til vill það sem annar fyrrum borgarstjóri R-listans, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, átti við þegar hún óskaði eftir auknu vægi „umræðustjórnmála“. Sennilega var það ósk um að innihaldið fengi minna vægi en ákvarðanir yrðu teknar eftir hávaða umræðunnar. Þess háttar stjórnmál ættu þá væntanlega helst að kallast umbúðastjórnmál, til aðgreiningar frá öðrum stjórnmálum þar sem innihaldið, skoðanirnar og málstaðurinn, skipta máli.