G
Útgjaldaaukningin er 180% umfram það sem sagt var á sínum tíma. |
eir H. Haarde fjármálaráðherra hélt því fram þegar ný lög um fæðingarorlof voru samþykkt fyrir tæpum fimm árum að heildarkostnaðurinn við fæðingarorlofið yrði 3,5 milljarðar á ári þegar lögin hefðu að fullu tekið gildi á árinu 2003. Í frétt Morgunblaðsins á sunnudag kemur fram að útgjöld sjóðsins á síðasta ári voru 6.208 milljónir króna. Morgunblaðið sagði auðvitað ekki frá því í frétt sinni hver áætluð útgjöld voru þegar lögin voru samþykkt á sínum tíma þótt þau hafi farið langt fram úr áætlun og það ætti að vera fréttaefni hve áætlanir voru langt frá raunveruleikanum. Vanáætlunin nemur nær þrjúþúsund milljónum króna. Og hvað með það hugsar sjálfsagt einhver, framúrkeyrsla um 77%, er það ekki bara eins og við er að búast hjá ríkinu?
Þetta er reyndar ekki alveg svona einfalt. Því fyrir tíð nýju laganna var kostnaður ríkissjóðs vegna fæðingarorlofs um 2 milljarðar króna á ári. Við nýju lögin átti kostnaðurinn því að aukast um 1,5 milljarða króna. Kostnaðaraukningin varð hins vegar ekki 1,5 milljarðar eins og ráð var fyrir gert heldur 4,2 milljarðar króna. Framúrkeyrslan er því í raun 180%. Kostnaðarauki vegna nýju laganna er 180% meiri en haldið var að mönnum þegar fæðingarorlofslögin voru keyrð í gegnum Alþingi á mettíma vorið 2000. Þetta er nokkuð vel í lagt, jafnvel þótt ríkið eigi í hlut. Enda var svo komið þegar árið 2003 að fæðingarorlofssjóður stefndi í þrot.
Þess ber að geta að Geir H. Haarde fjármálaráðherra bar auðvitað ekki einn ábyrgð á þessum lögum þótt hann ætti að sjá um að dæmið væri sæmilega reiknað heldur fengu lögin atkvæði allra þingmanna að einum undanskildum. Það kom meðal annars nokkuð á óvart að lögin nutu sérstaks stuðnings Péturs H. Blöndals alþingismanns sem hafði kynnt sig til leiks sem mann sem bæri hag skattgreiðenda fyrir brjósti og vildi ábyrgð og aðhald í ríkisrekstrinum.
Ástæðan fyrir því að útgjöld sjóðsins hafa aukist nær þrefalt meira en ráð var fyrir gert að sú nýlunda sem fólst í lögunum að hinir tekjuhæstu fengju hæstar bætur í fæðingarorlofi. Áður hafði félagsleg aðstoð af þessu tagi verið miðuð við að rétta hlut þeirra sem lakast standa en með fæðingarorlofslögunum var tekin alveg ný stefna. Bæturnar voru tekjutengdar þannig að hinir tekjuhæstu fá hæstu bæturnar en hinir tekjulægstu þær lægstu.
Skömmu eftir að það kom á daginn, nánar tiltekið í júlí 2003, að fæðingarorlofssjóður stefndi í þrot var rætt við Pétur H. Blöndal í sjónvarpi um málefni sjóðsins. Þótt gjaldþrot blasti við taldi Pétur af og frá að setja þak á greiðslurnar úr sjóðnum og því til sönnunar tók hann sem dæmi mann sem hefði 700 þúsund krónur í mánaðarlaun. Slíkur maður myndi ekki hafa efni á að vera heima hjá barni sínu ef hann fengi aðeins 350 þúsund krónur á mánuði úr fæðingarorlofssjóði. Þetta dæmi þingmannsins skýrir sig vonandi sjálft fyrir lesendum því ekki getur Vefþjóðviljinn skýrt það.
Síðan hefur Pétur H. Blöndal alþingismaður jafnframt getið sér gott orð fyrir að reikna það út fyrir hvern sem hafa vill að lifa megi á 90 þúsund krónum á mánuði.