Ísíðustu viku hafnaði Héraðsdómur Austurlands kröfu nokkurra Austfirðinga sem höfðu krafist þess að ógilt yrði sú ákvörðun félagsmálaráðuneytisins að staðfesta sameiningu sveitarfélaganna Norður-Héraðs, Austur-Héraðs og Fellahrepps. Sameining þessara sveitarfélaga er einstaklega gott dæmi um þær aðferðir sem beitt er til að þvinga fram sameiningu sveitarfélaga þessi misserin. Eins og nefnt hefur verið þá er það sérstaklega óviðkunnanlegt hvernig sameining þessara sveitarfélaga er þvinguð fram. Það er nefnilega verið að knýja sameininguna fram á grundvelli kosningar um allt aðra sameiningu. Lagt hafði verið til að fjögur sveitarfélög sameinuðust. Það voru þau þrjú sem áður voru nefnd, en auk þess sveitarfélagið Fljótsdalshreppur. Sú tillaga var samþykkt í þremur fyrstnefndu sveitarfélögunum en felld í Fljótsdalshreppi, en þá gripu sveitarstjórnirnar bara tækifærið og sameinuðu hin sveitarfélögin án þess að tala við kóng eða prest. Í sveitarstjórnarlög er komin sérstök heimild, sett inn handa sameiningarmönnum, þess efnis að jafnvel þó sameiningartillaga sé felld í einhverjum sveitarfélögum þá megi samt sameina hin, ef þau uppfylla nánar tiltekin skilyrði um fjölda og íbúa. Af því leiðir vitaskuld að aldrei hefur verið kosið um þá sameiningu sem verður ofan á. En þá má auðvitað segja á móti, að kjósendur verði bara að hafa þetta b-plan sameiningarmanna bak við eyrað, þegar þeir greiða atkvæði.
En af hverju þykir Vefþjóðviljanum svona óeðlilegt að sveitarstjórnirnar fyrir austan hafi í þetta skipti nýtt sér þessa kynlegu heimild – sem gengur auðvitað þvert á þá hugmynd að það séu íbúar en ekki embættismenn sem ákveði sameiningu sveitarfélaga? Það er einfaldlega nokkuð auðvelt að fullyrða að sú sameining, sem nú er þvinguð fram, hún hefði aldrei náðst fram ef íbúarnir hefðu fengið að greiða atkvæði um hana. Það sveitarfélag sem datt úr skaftinu, Fljótsdalshreppur, er ekki bara einhver fámennur hreppur. Í honum er meðal annars svolítið mannvirki í smíðum sem sumir hafa ef til vill heyrt getið, Kárahnjúkavirkjun nefnist það. Auðvitað réði það miklu við atkvæðagreiðsluna í hinum hreppunum þremur, að íbúarnir voru að greiða atkvæði um hvort Kárahnjúkavirkjun, með öllu því sem henni heyrir til, yrði með þeim í sveitarfélagi. Það var það sem þeir samþykktu. Og meira að segja naumlega. Í Norður-Héraði, þar sem 218 manns voru á kjörskrá, munaði þannig aðeins 10 atkvæðum. Menn geta rétt ímyndað sér hvernig hefði farið ef Fljótsdalshreppurinn með stærstu virkjun landsins hefði ekki hangið á spýtunni. Þegar íbúar í Norður-Héraði fréttu að sveitarstjórn þeirra ætlaði engu að síður að neyta á meðan á nefinu stóð, brugðust þeir við með því að 43 % kosningabærra íbúa skrifuðu undir ósk til sveitarstjórnarinnar um að haldinn yrði íbúafundur um málið, en í 2. mgr. 104. gr. sveitarstjórnarlaga segir að slíkan fund skuli halda ef 25 % kosningabærra manna óski eftir honum. Og heldur kannski einhver að sveitarstjórnin hafi hugsað sig tvisvar um, þegar hún stóð frammi fyrir þessari þróun mála? Nei, hún var ekkert að hika og keyrði sameiningna í gegn á tveimur fundum í sveitarstjórn, með þremur atkvæðum gegn tveimur.
Tólf íbúar í Norður-Héraði kærðu til félagsmálaráðuneytisins þá ákvörðun sveitarstjórnarinnar að samþykkja þessa sameiningu með hraði, eins og í pottinn var búið. Félagsmálaráðuneytið hafnaði kröfum þeirra hratt og örugglega. Undir úrskurð ráðuneytisins skrifaði maður að nafni Guðjón Bragason. Svo skemmtilega vill til, að hann er einnig formaður átaksnefndar um sameiningu sveitarfélaga. Leituðu íbúarnir því næst til Héraðsdóms Austurlands sem vísaði máli þeirra frá. Þeim úrskurði sneri Hæstiréttur við að hluta en í síðustu viku hafnaði Héraðsdómur Austurlands kröfum íbúanna.
Þessi ferill er lýsandi fyrir þær aðferðir sem beitt er til að sameina sveitarfélög. Embættismenn eru staðráðnir í að láta íbúana ekki komast upp með neinn moðreyk. Sveitarfélögin skulu verða eins og embættismennirnir vilja, en ekki eins og íbúarnir vilja. Þær sameiningar sem fást samþykktar, þær eru sennilega flestar samþykktar vegna þess að fólk veit að það verður þvingað til sameiningar hvort eð er, og þykir þá kannski skárra að fá að ráða einhverju fremur en engu um það hvernig hún verður. Það er svo sem skiljanlegt sjónarmið. Vefþjóðviljinn myndi samt fyrir sitt leyti hugsa með sér að það væri óþarfi að gera Þeim þetta auðveldara.
Þetta er svipað og með kosningar um málefni Evrópusambandsins. Þar er bara „já“ tekið gilt. Ef íbúar neita framlögðum tillögum, þá er kosið aftur. Ef þeir samþykkja, þá er aldrei kosið meir.