Eins og fjölmiðlar hafa margsagt frá og ítrekað oftar en tölu verður á komið, þá var Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor harðlega gagnrýndur fyrir að hafa ekki fleiri tilvísanir í fyrsta bindi ritverks síns um Halldór Kiljan Laxness. Eftir því sem næst verður komist, þá er þetta eina gagnrýnin sem heitið getur að verkið hafi fengið. Að minnsta kosti man Vefþjóðviljinn ekki eftir því að nokkur hafi haldið því fram að Hannes halli máli, Halldóri í óhag, eða sýni honum nokkra aðra ósanngirni en þá að vísa ekki nægilega oft í alþekktar endurminningarbækur skáldsins. Um það, hversu mikið af tilvísunum á að vera í einni bók, má alltaf deila. Einn af þeim sem þurfti að velta því álitamáli sínu var einn helsti bókmenntafræðimaður Íslands á 20. öld, Sigurður Nordal, en í eftirmála sinnar þekktu bókar um séra Hallgrím Pétursson og Passíusálmana, sem Helgafell, forlag Halldórs Laxness, gaf út árið 1970, segir Nordal meðal annars:
Eg veit allt of vel, að vonlaust er að reyna að gera þessi fræði að vísindum, þar sem unnt sé að sanna niðurstöður, þótt skylt sé að þekkja og virða þær staðreyndir, sem völ er á og koma málinu við. Vel má vera, að eg ætti að afsaka það, hversu spart hér er haldið á tilvísunum. Fjöldi þeirra var til á seðlum og í frumdráttum að þessari grein, sem hefur verið lengur í deiglunni en eg gæti sagt frá kinnroðalaust. En þegar til kom, fannst mér, ef öllu væri til skila haldið, að þær gæfu henni meira yfirskin lærdóms og bókvísi en hún ætti skilið, enda skiptu litlu eða engu um það, sem mér var helzt í mun að segja. Þær lentu því flestallar í tryggasta hæli allra ritsmíða, í pappírskörfunni. Eg treysti því, að hugsanlegir lesendur sakni þeirra ekki að neinu ráði. – Vonandi þekkja flestir þeirra Passíusálmana nógu vel til þess, að ekki þurfi sífellt að hafa vísifingurinn á lofti til þess að benda á það, sem tilfært er úr þeim, beinlínis og óbeinlínis. Þær heimildir, sem hér hefur annars verið höfð hliðsjón af, eru að vísu ekki miklar að vöxtum, en þær eru furðulega dreifðar og sumar í ritum, sem eru einungis í höndum örfárra bókabéusa. Það nær ekki neinni átt að ætlast til þess af fólki, sem er með öllum mjalla, að fara að leita þær uppi. Eg má líka þykjast góðu bættur, ef stærsti gallinn á þessum brotum er skortur á neðanmálsgreinum. |
Ádögunum tók Hansína Björgvinsdóttir við embætti bæjarstjóra í Kópavogi og er stefnt að því að hún gegni því í hálft ár, en svo taki Gunnar Birgisson við. Var þá jafnframt tilkynnt að samkvæmt ráðningarsamningi myndi Hansína fá mánaðarbiðlaun eftir að hún lætur af starfinu. Samfylkingin brást strax reið við því og sagði að menn ættu ekki að fá biðlaun þegar svo stendur á að menn vita fyrirfram hvenær starfstíma þeirra lýkur. Biðlaun séu ætluð þeim sem skyndilega stendur uppi embættislaus en alls ekki þeim sem einfaldlega vinna út sitt tímabil og hafa haft nægan tíma til að gera ráðstafanir vegna starfslokanna. Nú vita allir að Samfylkingin er prinsip-flokkur en tekur ekki pópúlistaafstöðu til mála frekar en Kristinn H. Gunnarsson, og því er þess nú að vænta að Samfylkingin hefjist handa um lagabreytingar í samræmi við þessa skoðun sína. Fyrst mun Samfylkingin leggja til atlögu við lög nr. 10/1990, þar sem segir í fjórðu grein að sá „sem kjörinn hefur verið til og gegnt hefur embætti forseta Íslands á rétt til launa skv. 1. gr. í fyrstu sex mánuði eftir að látið er af embætti.“ Nú vita allir að forseti Íslands er kjörinn til ákveðins tíma. Ólafur Ragnar Grímsson lætur af embætti eigi síðar en 31. júlí 2008. Samkvæmt lögum nr. 10/1990 á hann þá rétt á óskertum launum forseta í hálft ár í viðbót. Þessu hlýtur Samfylkingin að vilja breyta, svona að því gefnu að hún hafi meint það sem hún sagði um mánuðinn hennar Hansínu.