Ávefritinu Vísi má sjá viðtal, sem tekið var á gamlársdag við afmælisbarnið Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, sem var þegar síðast var vitað borgarfulltrúi í Reykjavík. Hún er meðal annars spurð um skattahækkanir R-listans nú um áramótin og gerir þar lítið úr hækkun útsvarsins, sem hún segir vera til samræmis við það sem gerist hjá öðrum sveitarfélögum. Um fasteignaskatta segir hún eftirfarandi:
„Hvað fasteignagjöldin varðar tel ég að við eigum að fara varlega og við höfum gert það. Á sínum tíma, þegar nýtt mat hækkaði grunn fasteignagjalda í Reykjavík, lækkuðum við gjaldaprósentuna, til þess að þetta ylli ekki auknum álögum. En ég hef ekki athugað þessa hækkun sem er að verða á matinu núna.“
„…auk útsvarshækkunarinnar munu allir eigendur íbúðarhúsnæðis í borginn verða fyrir hækkun fasteignaskatts, þar sem meirihlutinn í borgarstjórn taldi nauðsynlegt að hækka þann skatt úr 0,320% af fasteignamatsverði í 0,345%, eða um 7,8%. Raunar verður skattahækkunin mun meiri í raun, því um áramótin kemur líka til framkvæmda hækkun á fasteignamati í Reykjavík um 13-15%…“ |
Í ljósi þessara ummæla borgarfulltrúans er rétt að minna á, að R-listinn í borgarstjórn hefur samþykkt að hækka útsvar Reykvíkinga úr 12,7% í 13,03% frá og með áramótum. Munu Reykvíkingar því í fyrsta sinn í sögunni greiða það hámarksútsvar sem landslög leyfa, en fram að þessu hafa borgaryfirvöld jafnan litið svo á að stærð borgarinnar og fjárhagslegur styrkleiki gerði borginni kleift að leggja lægra útsvar á íbúa sína heldur en tíðkast í litlum og fjárhagslega veikburða sveitarfélögum vítt og breitt um landið. Er þetta að sjálfsögðu athyglisverður dómur R-listans um eigin fjármálastjórn síðustu árin, ekki síst ef horft er til þess að gott árferði í þjóðfélaginu hefur leitt til þess að tekjur landsmanna, borgarbúa sem annarra, hafa á síðustu árum aukist langt umfram verðlagshækkanir og tekjur borgarinnar af útsvari aukist í hlutfalli við það án nokkurs atbeina borgaryfirvalda.
En auk útsvarshækkunarinnar munu allir eigendur íbúðarhúsnæðis í borginn verða fyrir hækkun fasteignaskatts, þar sem meirihlutinn í borgarstjórn taldi nauðsynlegt að hækka þann skatt úr 0,320% af fasteignamatsverði í 0,345%, eða um 7,8%. Raunar verður skattahækkunin mun meiri í raun, því um áramótin kemur líka til framkvæmda hækkun á fasteignamati í Reykjavík um 13-15%, samkvæmt ákvörðun yfirfasteignamatsnefndar. Þannig munu fylgjast að hækkanir á fasteignamatinu, sem liggur til grundvallar álagningu skattsins og skattprósentan sjálf. Mun því niðurstaðan verða skattahækkun á íbúðarhúsnæði sem nemur vel yfir 20%.
Til að gæta sanngirni er rétt að taka fram, að hækkanir á fasteignamatinu sjálfu ráðast ekki af pólitískum ákvörðunum frá einum tíma til annars, heldur gera lög ráð fyrir að fasteignamat sé endurmetið árlega í ljósi raunverulegra breytinga á íbúðarverði á hverjum stað. Fasteignamatið á með öðrum orðum að vera hlutlaus mælikvarði á verðmæti húsnæðis, sem síðan er notaður til að ákveða opinber gjöld. Hækkun á fasteignaverði í einstökum sveitarfélögum getur því skilað þeim auknum skatttekjum á meðan lækkun fasteignaverðs leiðir til minni tekna. Vart þarf að taka fram, að þessar breytingar verða oft og iðulega án þess að sveitarfélögin aðhafist nokkuð. Þar eru oft allt önnur öfl að verki.
Öðru máli gegnir hins vegar um skatthlutfallið. Þar er um að ræða pólitíska ákvörðun hverrar sveitarstjórnar fyrir sig, sem hún ber fullkomna ábyrgð á. Það er því með ólíkindum að meirihluti borgarstjórnar Reykjavíkur skuli ákveða að hækka skatthlutfallið á sama tíma og lögbundin hækkun fasteignamats færir borgarsjóði stórauknar tekjur á grundvelli þess að skattstofninn hefur stækkað verulega. Við þessar aðstæður hefði verið mun eðlilegra að gera þá kröfu til borgarstjórnar, að hún lækkaði skatthlutfallið til þess að vega upp á móti áhrifum hækkunar fasteignamatsins. Það var raunar gert í árslok 2001, eins og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir vísar til í því viðtali, sem áður var fjallað um, en er því miður einsdæmi á síðustu árum.
Rökin fyrir því að lækka skatthlutfallið nú eru enn augljósari þegar litið er til þess að fasteignamat húsnæðis í Reykjavík hefur hækkað langt umfram verðbólgu á undanförnum árum. Á tímabilinu 1999 til 2004 hækkaði fasteignamat í borginni um 65% en á sama tíma hækkaði neysluverðsvísitala um 18,6% og byggingavísitala um 21,4%. Þessi munur mun svo að sjálfsögðu aukast á þessu ári ef fram fer sem horfir, að fasteignamatið hækki um 13-15% en vísitölurnar um 3 til 3,5%. Það er því ljóst að óbreytt skatthlutfall myndi sjálfkrafa skila Reykjavíkurborg stórauknum tekjum og ákvörðun R-listans um hækkun skatthlutfallsins stafar því, eins og útsvarshækkunin, af langvarandi óráðsíu og uppgjöf við að ná stjórn á fjármálum borgarinnar.