Laugardagur 1. janúar 2005

1. tbl. 9. árg.

S vo sem hefðin býður ritaði formaður Sjálfstæðisflokksins áramótagrein í miðopnu Morgunblaðsins í gær. Í greininni fór formaðurinn yfir ýmsa af helstu atburðum ársins og verður það ekki allt rakið hér, aðeins vakin sérstök athygli á orðum hans um skattamál. Davíð Oddsson rakti þær skattalækkanir sem samþykktar hefðu verið á haustþingi; lækkun tekjuskatts um 4% og niðurfellingu eignaskatts. Lækkun þessara skatta kæmi í kjölfar lækkunar ýmissa skatta síðustu ára, svo sem erfðafjárskatts, eignaskatts, tekjuskatts á fyrirtæki og hátekjuskatts, sem ákveðið hefur verið að falli alveg á brott. Þetta eru miklar breytingar sem vert er að minnast um þessi áramót og ástæða þeirra er ekki síst sú sannfæring sem Davíð hefur haft fyrir þeim. Þessi sannfæring kemur fram í grein hans í gær, en þar segir:
„Lágir skattar á fólk og fyrirtæki eru forsenda öflugs atvinnulífs og fjölbreytts mannlífs. Því minna sem hið opinbera tekur í sinn skerf af launatekjum okkar því meira er frelsi okkar til að ráðstafa þeim eins og okkur sjálfum best hentar. Samfélag sem byggir á lágum sköttum, en traustu velferðarkerfi er öflugra, fjölbreyttara og lífvænlegra en þau sem hvíla á hárri skattheimtu. Starfsmenn stjórnarráðsins eru upp til hópa vandað og samviskusamt fólk en eru ekki endilega best til þess fallnir að ákveða í hvað laununum okkar er varið, umfram það sem nauðsynlegt er.“

Vefþjóðviljinn deilir þeirri skoðun með formanni Sjálfstæðisflokksins að lágir skattar séu betri en háir og að opinberir starfsmenn séu ekki endilega best til þess fallnir að ráðstafa launum hins almenna manns. Eins og vikið verður að hér á eftir er langt því frá að allir formenn stjórnmálaflokka hafi þessa sömu skoðun á skattlagningu og þeim mun mikilvægara er að formaður stærsta stjórnmálaflokks landsins skuli tala með svo afdráttarlausum hætti – og vitaskuld ekki síður mikilvægt að hann skuli starfa í samræmi við þessi sjónarmið. En þrátt fyrir að skattar hafa verið lækkaðir hafa tekjur ríkisins vaxið meira en Vefþjóðviljinn hefur talið ásættanlegt og hefur hann oft gagnrýnt ríkisvaldið fyrir að taka til sín of stóran hluta af þjóðarkökunni svo kölluðu. Þess vegna var líka ánægjulegt að lesa í áramótagrein Davíðs Oddssonar að ríkisstjórnin hafi sett sér það langtímamarkmið að raunaukning ríkisútgjalda verði innan við 2% á ári næstu árin. Eins og Davíð bendir á mun þetta hafa í för með sér – ef áformin ganga eftir – að umsvif ríkisins munu dragast saman á næstu árum, enda er talið að hagvöxtur verði langtum meiri en þessi áætlaði vöxtur ríkisútgjalda.

Halldór Ásgrímsson formaður Framsóknarflokksins og forsætisráðherra ritaði einnig grein í Morgunblaðið í gær. Þar reifaði hann ýmis mál eins og gengur við slík tækifæri, en sagði þó heldur fátt sem sérstaka athygli vekur. Þó má nefna að Halldór nefndi væntanlega sölu Landssímans og sagði að miðað við núverandi aðstæður gæti sala á hlutum í fyrirtækinu hafist fyrri hluta þessa árs. Vonandi gengur það eftir.

Guðjón Arnar Kristjánsson formaður Frjálslynda flokksins ritaði um „hlýsjó“ og margt annað á fremur sérstæðan hátt, meðal annars það sem hann sagði „frekar á léttum nótum“, þó að grínið hafi sjálfsagt farið fyrir ofan garð og neðan hjá einstaka lesanda. Líklega hefur það líka verið á léttu nótunum, þó að hann tæki það ekki fram sérstaklega, þegar formaðurinn sagðist vilja „segja okkur af lista þeirra viljugu og staðföstu“. Sá listi snerist um stuðning við innrás til að velta harðstjóranum Saddam Hussein frá völdum, en eins og öllum má ljóst vera er innrásinni lokið og harðstjórinn kominn þangað sem hann á heima, á bak við lás og slá. Krafa Guðjóns er því annaðhvort grín og glens, sem skal alls ekki útilokað, eða krafa um að herir bandamanna hverfi þegar í stað frá Írak og hætti við að reyna að koma á lýðræði í landinu. Sú skoðun er sérkennileg og jafnvel harðir andstæðingar innrásarinnar á borð við stjórnvöld í Frakklandi og Þýskalandi telja nú að æskilegt sé að styðja við lýðræði í Írak. Til viðbótar við þetta má nefna að Guðjón finnur að skattalækkunum ríkisstjórnarinnar og segir þær „mjög í andstöðu“ við áherslur Frjálslynda flokksins og staðfestir þar með enn einu sinni að frjálslyndi Frjálslynda flokksins er að minnsta kosti ekki á sviði efnahagsmála, ef það er þá nokkurs staðar að finna annars staðar en í nafni flokksins.

Steingrímur J. Sigfússon formaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs bregst ekki þeim sem enn sjá roðann í austri í hillingum og sakna þess að ríkið skuli hafa misst völd á undanförnum árum með ýmiss konar umbótum á borð við aukið frjálsræði í efnahags- og atvinnulífi, einkavæðingu og skattalækkunum. Steingrímur gengur enn harðar fram í gagnrýni á skattalækkanir ríkisstjórnarinnar en Guðjón Arnar og telur þær vera „efnahagslegt glapræði“. „Skattastefnan sem slík er ómenguð hægristefna og til vitnis um það eru sérstök gleðilæti ultra-hægrimanna við afgreiðslu málsins á Alþingi,“ segir Steingrímur. Hann vill að „ríki og sveitarfélög hafi úr traustum tekjustofnum að spila“ og verður honum því ekki borið á brýn að fara leynt með þá afstöðu sína að skattar þurfi að hækka og að fyrst eigi að huga að því að hið opinbera hafi nægar tekjur, en afganginum – ef einhver verði – megi almenningur náðarsamlegast halda eftir.

Þriðji formaður stjórnarandstöðuflokkanna sem ritaði grein í Morgunblaðið í gær er Össur Skarphéðinsson núverandi formaður Samfylkingarinnar. Össur segir Samfylkinguna líta á sig „sem sérstakan málsvara smáfyrirtækja og einyrkja“ og kemur þessi fullyrðing vafalítið bæði smáfyrirtækjum og einyrkjum á óvart. Þessir aðilar hafa á síðustu árum notið góðs af skattalækkunum ríkisstjórnarinnar, sem jafnan hafa farið í gegn þrátt fyrir andstöðu Samfylkingarinnar en ekki með stuðningi hennar. Samfylkingin hefur raunar alltaf þegar til kastanna kemur verið alfarið á móti skattalækkunum, jafnvel þó að flokkurinn hafi í orði kveðnu fyrir síðustu kosningar sagst styðja umfangsmiklar skattalækkanir.

Össur skrifar grein sína á þeim nótum sem við er að búast af formanni hefðbundins vinstri flokks og þeir sem lesa greinina þurfa ekkert að efast um hvaða stefna yrði tekin réði Samfylkingin ferðinni. Þannig syngur Össur til að mynda þann söng – órökstutt að sjálfsögðu enda rökin ekki fyrir hendi – að stéttamunur fari vaxandi hér á landi. Já, jafnvel stéttabaráttan rataði inn í grein hins nútímalega jafnaðarmanns. „Frjálshyggjan, sem víðast hvar er búið að kasta á öskuhauga sögunnar, veður uppi hér á landi og hanneskan var leidd til valda með hjálp Framsóknarflokksins,“ segir Össur, sem virðist lifa í allt öðrum heimi en aðrir menn, sem fylgst hafa með félagshyggjunni lenda á þessum öskuhaug sem hann nefnir. Og hann segir einnig um stefnu ríkisstjórnarinnar, svona eins og til að taka af allan vafa um viðhorf Samfylkingarinnar til skattalækkana: „Það á að stefna skattheimtu niðurfyrir þau mörk sem duga til að halda uppi mennta- og heilbrigðiskerfi án aðgangshindrana og kreddan er sú, að í staðinn eigi fólk að hafa meira handanna á milli svo það geti sjálft greitt skólagjöld barnanna og heilbrigðisþjónustu fjölskyldunnar.“ Ekki verður um villst að Össur hefur horfið frá þeirri skoðun sem hann kynnti fyrir kosningar. Þá héldu hann og aðrir frambjóðendur Samfylkingarinnar því fram að þeir myndu lækka skatta umtalsvert kæmust þeir til valda. Einhverjir trúa því ef til vill að aðstæður hafi breyst, eða að flokkurinn hafi einfaldlega breytt um stefnu. Miklu nær er þó að draga þá ályktun að flokkurinn  hafi aldrei ætlað sér að standa við loforð sín um skattalækkun, enda hefur hann ítrekað svikið slík loforð þar sem hann hefur haft aðstöðu til, það er að segja í Reykjavík. Þar hefur hann safnað skuldum og hækkað skatta og ef marka má þau viðhorf sem formaðurinn setti fram í grein sinni í gær er engin ástæða til að efast um að sama yrði uppi á teningnum ef hann fengi færi á að spreyta sig á landsstjórninni.