Föstudagur 31. desember 2004

366. tbl. 8. árg.

ÁRAMÓTAÚTGÁFA

Eins og áður hefur Vefþjóðviljinn nýtt þennan árstíma til að vekja athygli á þeim atriðum sem síst skyldu hverfa með líðandi ári inn í skaut aldanna.

Talentar ársins: Nylon. Tónlistin er þeim allt.

Mismunun ársins: Það geta ekki allir svínahryggir orðið Nóatúns-hamborgarahryggir. En þetta gæti breyst. Ragnar Aðalsteinsson hefur þegar höfðað mál fyrir hönd óánægðs svínahamborgarahryggs.

Gagnrýni ársins: Ákveðið var að gefa út bók um íslenska forsætisráðherra í tilefni aldarafmælis heimastjórnar. Á alþingi fór Mörður Árnason hörðum orðum um „bókaútgáfu ríkisins“ og ritstjóra bókarinnar.

Umburðarlyndi ársins: Mörður Árnason hefur vegna anna ekki komið því við að gagnrýna að opinber stofnun, Þjóðminjasafnið, gaf út glæsilega bók, Hlutaveltu tímans. Bókin er á fimmta hundrað síður, litprentuð og öll hin glæsilegasta, enda undir öruggri ritstjórn Árna Björnssonar þjóðháttafræðings.

Tæpitunga ársins: Robert James Fischer, diplómat. Því miður hefur koma hans hingað dregist, sem er bagalegt því hann á að hefja störf á Útvarpi Sögu eftir áramótin.

Söfnun ársins: Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna efndi til tónleika til styrktar Kristjáni Jóhannssyni, tenór.

Símsvari ársins: Jóhann Ársælsson, strákur.

Stuðningur ársins: Sameiningartákn þjóðarinnar gekk til kosningar og fékk stuðning 42 % landsmanna. Það er svona eins og að sýna Völu Matt íbúðina sína og fá þann dóm að hún sé nú svona „frekar leim“.

Hústaka ársins: Gunnar Birgisson hét því að yfirgefa ekki alþingishúsið fyrr en skattar hefðu verið lækkaðir. Í desembermánuði var það loks gert og ekki vonum fyrr. Gunnar rétt náði heim í Kópavog að hækka útsvarið.

Þjóð ársins: Hans Kristján Árnason og Ólafur Hannibalsson.

Maraþon ársins: Fréttablaðið skrifaði milljón leiðara um fjölmiðlafrumvarpið á jafn mörgum dögum.

Gjá ársins: Eftir sex vikna deilur sögðust 30 % aðspurðra í skoðanakönnun hafa kynnt sér fjölmiðlafrumvarpið.

Kálfur ársins: Guðni Ágústsson fékk nóg af þessari eilífu kúamjólk. Sagðist eftirleiðis vilja mjólk úr íslenskum fjölskyldum.

Halldór Ásgrímsson ársins: Helgi Ágústsson. Stjórnarandstaðan og fjölmiðlar margtuggðu að Halldór Ásgrímsson hefði lagt til að Mannréttindaskrifstofa Íslands fengi miklar fjárveitingar. Í ljós kom að séníin höfðu misskilið skammstöfunina „H.Á.“. Ríkisútvarpið hefur enn ekki séð ástæðu til að leiðrétta langlokufréttir sínar af málinu.

Klukka ársins: Einar Bárðarson.

Trúður ársins: Arnþrúður Karlsdóttir.

Rökstuðningur ársins: Fyrir aðalfund Heimdallar hamraði Bolli Thoroddsen á því að síðasti aðalfundur hefði „verið kærður til miðstjórnar Sjálfstæðisflokksins“. Þetta þótti mörgum segja allt sem segja þurfti. Að minnsta kosti fréttamönnum sem aldrei spurðu hver hefði verið niðurstaða miðstjórnarinnar.

Svör ársins: Andstæðingum Bolla tókst aldrei að stynja því upp úr sér að miðstjórnin fór yfir ásakanirnar og hafnaði þeim alfarið. Síðasti aðalfundur hefði verið fyllilega lögmætur.

Gagnrýni ársins: Forsvarsmenn Norðurljósa gagnrýndu kaup Símans á hlutabréfum í Skjá einum á þeirri forsendu að þau væru „í andstöðu við fjölmiðlafrumvarpið“. Sem þeir höfðu að vísu fengið stöðvað.

Skip ársins: Fjölveiðiskipið Baldvin Þorsteinsson tók sér frí frá fjölveiðum á árinu. Fyrst við Vík, svo við Neskaupsstað. Næst mun það sitja fast í Daníelsslipp.

Áfall ársins: Krosstré brugðust sem önnur þegar meira að segja Sveinn Rúnar Hauksson sneri baki við Bandaríkjastjórn. Næst missir Ragnar skjálfti trúna.

Auglýsing ársins: Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands stóð fyrir námskeiði með einhverjum Marty Linsky, en hann kenndi leiðtogafræði eða eitthvað slíkt. Með kynningu endurmenntunarinnar fylgdi yfirlýsing Magnúsar Péturssonar, forstjóra Ríkisspítalanna, byggð á reynslu hans, þess efnis að enginn færi „ósvikinn af námskeiði hjá Marty Linsky“.

Viðskiptasjónarmið ársins: Annar hver maður taldi að ekki gætu viðskiptaleg sjónarmið verið á bak við þá hugmynd að símafyrirtæki og fjölmiðlafyrirtæki rynnu í eina sæng. Viku síðar runnu Og Vodafone og Norðurljós saman.

Björn ársins: Björn Bjarnason, Bjössi.

Grís ársins: Það er nú augljóst.

Heilsubiti ársins: Sláturfélag Suðurlands auglýsti pylsuát Clintons með stolti. Þar til Clinton kom heim til Bandaríkjanna og var lagður inn, nær dauða en lífi.

Þakklæti ársins: Sigurði G. Guðjónssyni var sagt upp störfum hjá Norðurljósum.

Leiðsögn ársins: William Clinton fór til Þingvalla og fékk þar skemmtilegan fyrirlestur um sögu staðarins. Forsetinn og fyrirlesarinn skemmtu sér vel, þó hvorugur tali mál hins svo nokkru nemi.

Heimsatburður ársins: Halldór Ásgrímsson fann sinnepsgas í Írak.

Friðardúfa ársins: Yasser Arafat, hryðjuverkamaður. Við andlát hans var komið fyrir helgiskríni honum til vegsemdar í ráðhúsi Reykjavíkurborgar.

Leyniúrsögn ársins: Formaður borgarmálaráðs vinstrigrænna sagði sig úr flokknum vegna megnrar óánægju með hann. Engum fjölmiðli fannst það fréttnæmt.

Mælistikur ársins: Fyrir forsetakosningar skrifaði Gunnar Smári Egilsson í leiðara að Ólafur Ragnar Grímsson gæti vel við unað ef hann fengi 80 % greiddra atkvæða. Andstæðingar Ólafs myndu hins vegar hafa sigur ef „mun fleiri en 5 %“ skiluðu auðu, helst „hátt í 20%“. Á kjördag lækkaði Gunnar Smári markmið Ólafs svo niður í 55-58 % atkvæðisbærra manna og sagði að markmið andstæðinga hans væri að ná hlutfallinu niður fyrir 50 %. Ólafur Ragnar var langt frá 80 % markinu. Meira en 20 % kjörseðla voru auð. Ólafur Ragnar hlaut atkvæði um 42 % atkvæðisbærra manna. Forsetinn náði engu markmiðanna sem Gunnar Smári tilgreindi. Andstæðingar Ólafs náðu hverju einasta.

Sigurvegari ársins: Daginn eftir kosningar tilkynnti Gunnar Smári í leiðara að sigurvegari kosninganna væri einn. Ólafur Ragnar Grímsson.

Sherlock ársins: Jónas Ingi Ragnarsson fór í bíltúr með félögunum og tók bara alls ekki eftir því að þeir væru að transporta dauðum manni til Neskaupstaðar.

Þrekraun ársins: Eftir að hafa gengið á báða póla, klifið hæstu fjöll heims og dottið tvisvar í Peningagjá, hefur Haraldur Örn Ólafsson ákveðið að reyna við eina áskorunina enn, og hefur ráðist til starfa í viðskiptaráðuneyti Valgerðar Sverrisdóttur.

Kenning ársins. Stjórnmálaskýrendur töldu einsýnt að Bush hefði meiri fylgi en Kerry í könnunum, einfaldlega vegna þess að það hefði ekki náðst ekki í unga fólkið með farsímana og fátæka fólkið sem á ekki síma. Það myndi hins vegar allt kjósa Kerry, svo þetta myndi allt bjargast.

Teljarar ársins: Hver einasti maður vestan Volgu, vissi strax hver hefði í raun sigrað í forsetakosningunum í Úkraínu. Það var einmitt sá sem var talinn hliðhollari Vesturlöndum.

Tugþrautarmaður ársins: Fyrir ári stakk Vefþjóðviljinn upp á því að Jón Arnar Magnússon myndi í ljósi reynslunnar fremur reyna fyrir sér í sjöþraut. Sennilega var það ekki skynsamleg ráðlegging. Þríþrautin gæti samt alveg verið dæmið.

Þrautsegja ársins: Enn, enn og aftur. Endasprettur Fylkis á Íslandsmótinu í knattspyrnu er óþrjótandi ánægjuefni öllum góðum mönnum.

Sagnfræðingur ársins: Guðmundur Árni Stefánsson stökk til varnar Þórólfi Árnasyni, og sagði í Morgunblaðsgrein að hvergi nokkurs staðar skráði „sagan þann raunveruleika að fulltrúi Sjálfstæðisflokksins [hefði] sagt af sér pólitískum ábyrgðarstörfum“. Nefndi hann „Árna Johnsen-málið“ því til staðfestingar. – Kenningin er ekki réttari en svo, að í sjálfu sannindamerkinu, „Árna Johnsen-málinu“, þar sagði Árni Johnsen af sér.

Heilsufar ársins: Vegna óánægju með lög frá alþingi tilkynntu grunnskólakennarar sig „veika“ og mættu ekki til vinnu. Sama gerðu ísfirskar fóstrur til að mótmæla því að bærinn væri ekki búinn að einhverju starfsmati. – Sem betur fer reyndi enginn að skerða veikindaréttindi þessara stétta. Þá hefði nú eitthvað heyrst um „aðför“ að „helgasta rétti launafólks“.

Þrýstihópur ársins: Námsmannahreyfingarnar birtu heilsíðuauglýsingar í dagblöðunum þar sem þrýst var á Dagnýju Jónsdóttur að þvælast fyrir frumvarpi um hækkun skráningargjalda í háskóla, þar sem hún hefði verið í stúdentaráði á sínum tíma. Sömu hreyfingar eru vafalaust alveg á móti kjördæmapoturum.

Lögfræðingur ársins: Herdís Þorgeirsdóttir stjórnmálafræðingur.

Lítillæti ársins: Forseti Íslands ákvað að vera bara á skíðum úti í löndum þegar minnst var aldarafmælis heimastjórnar á Íslandi. Honum mun ekki hafa þótt hann sjálfur vera í forgrunni í hátíðarhöldunum.

Skyldurækni ársins: Forseti Íslands sneri í skyndi heim frá útlöndum og sat heima þegar ríkisarfi Danmerkur gekk í hjónaband. Hann hafði hlutverki að gegna hér heima. Tilviljun réði því að sömu daga var ákaft reynt var að setja pressu á þá stjórnarþingmenn sem von var talin til að létu undan þrýstingi við meðferð fjölmiðlamálsins.

Viðvörun ársins: Landlæknir lét prenta á vindlingapakka þá skoðun sína að reykingar hefðu mjög skaðleg áharif á heilsu og yllu jafnvel hjartsjúkdómum.

Útrás ársins: Bjarni Ármannsson bankastjóri tilkynnti um óvænta útrás Jóns Þórissonar aðstoðarbankastjóra.

Innlegg ársins: Albert Jensen ákvað að láta rödd sína heyrast aftur, og skrifaði nýtt lesendabréf á árinu.

Rof ársins: Þögn Herdísar Þorgeirsdóttur, Ólafs Hannibalssonar, Birgis Hermannssonar, Þórhildar Þorleifsdóttur og Karls Th. Birgissonar var loks rofin þegar þau náðu loks að komast í vinsælan umræðuþátt í sjónvarpi. Skoðanir þeirra komu mjög á óvart og vörpuðu nýju ljósi á málin. Áður hafði Pétur Blöndal gjarnan setið einn í þáttunum með hámark aðeins fjóra vinstri menn gegn sér hverju sinni.

Króna ársins: Pétur Kr. Hafstein, stud. mag.

Erfiðleikar ársins: Borgarstjórnarflokkur R-listans sendi frá sér yfirlýsingu þar sem sagði að „umræða síðustu daga um skýrslu Samkeppnisstofnunar [hefði] gert stöðu Þórólfs Árnasonar borgarstjóra erfiða.“ Það var sem sagt ekki hlutur Þórólfs í málum olíufélaganna sem var erfiður, heldur bara umræðan um hann.

Staðfesta ársins: Minnihlutinn í borgarstjórn gerir það sem hann getur til að halda stöðu sinni. Sem minnihluti.

Áskorun ársins: Stjórn Íslandsdeildar Amnesty international skoraði á alþingi „að tryggja rekstrargrundvöll Mannréttindaskrifstofu Íslands og sjálfstæði skrifstofunnar gagnvart framkvæmdavaldinu, þannig að hún geti áfram verið sú sjálfstæða og óháða stofnun sem sinni þessum málaflokki á breiðum grundvelli.“

Grundvallaratriði ársins: Á heimasíðu sinni lagði Íslandsdeild Amnesty international áherslu á það grundvallaratriði í stefnu samtakanna að „Samtökin Amnesty International byggja afkomu sína á frjálsum framlögum, og til þess að tryggja sjálfstæði sitt og óhlutdrægni þiggja þau aldrei ríkisstyrki.“

Stílbrot ársins: Kristinn H. Gunnarsson stökk á vagninn með þeim sem eru óánægðir með að Saddam Hussein var komið frá völdum með hörðu. Hvernig er það annars, man einhver eftir máli þar sem Kristinn H. – þessi sem fylgir sannfæringu sinni og engu öðru – hefur lýst skoðun sem er í andstöðu við línuna í nýjustu skoðanakönnuninni?

Nafn ársins: Forstjóri verslunarkeðjunnar Iceland heitir Bill Grimsey. Eitt er nú að keðjan heiti Ísland. En hvernig fundu menn Grímsey til að vera forstjóri?

Bið ársins: Einu og hálfu öðru ári eftir að innrás bandamanna í Írak hófst og sextán mánuðum eftir að henni lauk, lagði íslenska stjórnarandstaðan fram þingsályktunartillögu um að Ísland styddi innrásina ekki

Fyrirætlun ársins: Íslenska stjórnarandstaðan hefur í hyggju að leggja fram á næsta ári þingsályktunartillögu þess efnis að allar gerðir Hannesar Hafsteins í símamálinu séu afturkallaðar og Einari Benediktssyni sendiherra sé jafnframt falið að kanna hvort tilboð sé væntanlegt frá Marconifélaginu.

Ógnun ársins: Yfir Sæmundi Pálssyni vofir sú staða að vera eini vinur Bobbys Fischers á Íslandi

Efra ársins: Íslenska krónan hélt sig í efra gagnvart helstu gjaldmiðlum heimsins.

Liðsmenn ársins: Allir þingmenn stjórnarandstöðunnar, líka þeir sem sjálfir höfðu lagt fram tillögur í sömu veru, greiddu atkvæði gegn fjölmiðlafrumvarpinu. Innan stjórnarliðsins komu allar útgáfur, stuðningur, andstaða og hjáseta. Samkvæmt fjölmiðlum og pistlahöfundum þeirra þá voru stjórnarþingmennirnir í hlekkjum og gátu ekki látið samviskuna ráða.

Bobby Fischer ársins: Magnús Þór Hafsteinsson, alþingismaður og varaformaður Frjálslynda flokksins, skrifaði að hann vildi fá sér flugvél „svína á Hellisheiðina, fara gegnum Þrengslin, lenda svo Spittfærnum á Kaldraðarnesmelum, fljúga svo norður í Eyjafjörð yfir Kjöl, sprengja Stebbafr og Halldór Blöndal til helvítis, snúa svo til baka yfir heiðina og bomba Björn Bjarna og borgarstjórnarminnihlutann hálfa leið til andskotans og lenda svo við gamla flugturninn á Reykjavíkurflugvelli og hrynja í það á kránum í Miðbænum“. – Þeir Magnús og Fischer virðast í fljótu bragði nauðalíkir. Magnús kann bara ekki að tefla. Spurning hversu markverður Fischer væri ef hann kynni það ekki heldur.

Virðing ársins: Fram kom á árinu að framboð Ólafs Ragnars Grímssonar til embættis forseta Íslands hafði einfaldlega verið hugsað sem tæki til að styrkja stöðu Ólafs í stjórnmálum og innan Alþýðubandalagsins. Forsetaembættið sem slíkt skipti ekki máli. Þeir sem annars eru fyrstir til að brýna viðstadda um að hugsa um „virðingu forsetaembættisins“, tóku því miður ekki eftir þessum fréttum, enda var lítið gert með þær í flestum fjölmiðlum.

Upplýsingagjöf ársins: R-listinn og Alfreð Þorsteinsson neita alfarið að veita fulltrúum minnihlutans í stjórn Orkuveitunnar upplýsingar um mikilvægustu atriði í rekstri Orkuveitunnar. Engum fjölmiðli finnst það tortryggilegt. Þeir eru nú ekki vanir að æsa sig yfir slíku, blessaðir.

Atburðarás ársins: Í ljós kom að framhaldsskólana vantaði hundruð milljóna til að ráða við fjölgun framhaldsskólanema. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir lýsti því yfir að þeir fengju þetta fé úr ríkissjóði. Fjárlaganefnd kom af fjöllum og sagði þá ekki fá krónu. Menntamálaráðherra leit einkennilega út. Skyndilega lýsti fjármálaráðherra því yfir að peningarnir yrðu víst útvegaðir. Menntamálaráðherra fór í viðtal við DV og lýsti yfir stuðningi við Geir H. Haarde sem næsta formann Sjálfstæðisflokksins.

Spámenn ársins: Fréttablaðið sá fyrir að Dagur B. Eggertsson yrði borgarstjóri og Svanfríður Jónasdóttir bæjarstjóri á Dalvík.

Rauðbrystingur ársins: Eyrún Magnúsdóttir.

Hvatning ársins: „Sé fólk fylgjandi frumvarpinu, fáið það samt til að skrifa undir… “ skrifaði formaður Blaðamannafélags Íslands, Róbert Marshall, í leiðbeiningum með kennitölusöfnun til forseta Íslands vegna staðfestingar fjölmiðlalaganna. „Mætið í vinnuna á morgun og á sunnudag eða sitjið við tölvuna heima við, hringið, djöflist, látum öllum illum látum, söfnum þessum undirskriftum.“

Herfræðingur ársins: Ingibjörg Sólrún Gísladóttir ákvað að hjálpa til við varnarviðræður Íslands og Bandaríkjanna með því að lýsa því yfir að viðbúnaður væri óþarfur í Keflavík og Rússar sæjust aldrei framar. Daginn eftir bárust fréttir af stærstu flotaæfingu Rússa í manna minnum, svo nálægt landinu að ef Steingrímur J. Sigfússon hefði verið staddur heima í Þistilfirði þá hefði hann getað morsað nallann til þeirra með zippokveikjara.

Áróðursmeistari ársins: Michael Moore sannfærði 57,9% franskra framhaldsskólakennara, 71% kaffihúsaspekinga í Barcelona, 81 % tvítugra Evrópubúa, og 131% íslenskra fjölmiðlamanna um að George W. Bush væri brjálæðingur. Þetta var mikill sigur og talið geta skipt sköpum í forsetakosningum vestra að mati fréttaskýrenda.

Athugun ársins: Menntamálaráðherra lýsti því yfir á alþingi að menntamálaráðuneytið myndi athuga Hávallaskóla. Skólinn var það að Haraldur Ólafsson veðurfræðingur, sem var í fæðingarorlofi, tók heima hjá sér á móti börnum í verkfalli og sýndi þeim stærðfræðidæmi.

Frjálslyndi ársins: Samfylkingin, sem fyrir síðustu kosningar lét eins og hún lofaði skattalækkunum, studdi ekki skattalækkanir ríkisstjórnarinnar.

Tjáningarfrelsisáhugamenn ársins: Nú vilja Samfylkingarmenn banna sælgætisauglýsingar. Eftir klukkan níu á kvöldin.

Fita ársins: Kolvetni.

Öfugmæli ársins: Víðsjá. Póstmódernismi og aftur póstmódernismi.

Fjölmiðill ársins óskar lesendum sínum velgengni og góðvildar á komandi ári.