Nú á dögum erum við mitt í stórfenglegri tilraun sem á sér enga hliðstæðu í sögu mannkyns. Það er heimur þar sem skuldbindingar hjúskapar og foreldrahlutverksins virðast álitnar valkvæðar, og þar sem æ fleiri ábyrgðarsvið foreldra gagnvart börnum sínum eru fengin öðrum – „átsorsað“ – eins og það heitir á viðskiptamálinu! Uppeldi og agi, menntun og fræðsla og umhyggja er falin dagmæðrum, leikskólum og skólum og sérfræðingum. |
– Karl Sigurbjörnsson, í nýárspredikun í dómkirkjunni í Reykjavík, 1. janúar 2005. |
Er ástæða til að sjá fjölskyldugerð fyrri tíma í hillingum? Hefur stórfjölskyldan gefið um of eftir? Látum við aðra um uppeldi barna okkar – dýrmætustu eignina í lífinu? Það er bjargföst trú mín að samheldin og ástrík fjölskylda sé kjarninn í hverju þjóðfélagi. |
– Halldór Ásgrímsson í ávarpi 31. desember 2004. |
Þ
Þó fagmaður sjái um uppeldi, þá er það engin trygging fyrir því að aldrei slái í brýnu. |
að er rétt hjá þeim Karli og Halldóri, að hinir og þessir „sérfræðingar“ eru farnir að taka meiri og meiri þátt í uppeldi annarra manna barna. Sú þróun hefur verið ógnarhröð undanfarin ár. Og það er ekki einungis að börn séu minna og minna á ábyrgð foreldra sinna, heldur eru þau lengur og lengur í beinni umsjá einhverra slíkra „sérfræðinga“. Eitt skýrasta dæmið um þessa þróum eru hugtökin „einsetinn skóli“ og „samfelldur skóladagur“ sem notuð hafa verið til að innleiða allsherjar opinbera barnageymslu. Svo er nú búið að lögvernda fóstrustarfið og þeir segja víst að fósturskólinn sé kominn á eitthvað sem þeir nefna háskólastig. Það eru með öðrum orðum aðeins „háskólamenntaðir sérfræðingar“ sem mega kalla sig fóstrur og vinna á leikskóla. Æ, sagði Vefþjóðviljinn fóstrur. Það má ekki, þær heita leikskólakennarar. Leikskólinn er víst líka orðinn hluti af skólakerfinu! Sennilega aðeins spurning hvenær hann verður gerður hluti af „skyldunámi“.
Hvers vegna var nú verið að lögvernda fóstrustarfið? Þarf virkilega háskólapróf til þess að gæta barna nokkrar klukkustundir á dag? Hvað þá með þær kynslóðir foreldra sem hafa sinnt sínu barnauppeldi sjálfar? Hvenær gerðist það að ekki var verjandi að aðrir en háskólamenntaðir leikskólakennarar gættu ungra barna? Og ef það er virkilega svo, að fyrir því séu marktæk rök, verður þá ekki bráðum talið ábyrgðarhluti af hinu opinbera að láta það viðgangast að sum börn séu ekki í faglegri gæslu svo hámenntaðs fólks? Af hverju fær eitt barn að vera hjá útlærðum leikskólakennara, meðan annað verður kannski að gera sér ömmu sína að góðu? Og samfelldi skóladagurinn, sem sífellt virðist lengjast, samhliða því sem samið er við kennara um minni og minni kennsluskyldu hvers og eins; hvað á hann að ganga langt? Hvernig væri nú að fara að snúa við blaðinu og segja að hlutverk skóla sé að mennta og fræða, en ekki að geyma? Sennilega sást geymsluhlutverk skóla og kennara best í síðasta verkfalli grunnskólakennara. Þá töldu kennarar það vera „verkfallsbrot“ ef einhver tók að sér að geyma börn. Ekki kenna börnum, heldur geyma börnin á meðan verkfallið var. Eiginlega ættu þessir menn að hætta að kalla sig kennara en taka bara upp starfsheitið geymir. Sem þeir geta vafalaust fengið lögverndað. Og svo fengið geymaranámið viðurkennt sem háskólanám.
Nú þarf ekkert að vera við það að athuga að foreldrar feli einhverjum öðrum að sinna barni sínu að einhverju leyti. Jafnvel allan daginn, ef í það fer. En sérfræðidýrkunin og „fagmennskan“ í barnauppeldi eru að verða yfirþyrmandi. Svo eru komin fræðiheiti yfir allt. Varla hægt að finna barn sem enginn háskólamenntaður greinir er búinn að sanna einhverja „-röskun“ á. Og þá þarf auðvitað sérkennslu eða lyf eða eitthvað. Og foreldrarnir standa ráðþrota hjá og láta allt í hendur sérfræðingsins sem vísar barninu til annarra sérfræðinga sem ekki eru síður hæfir en sá fyrsti. Allir svo óendanlega miklu hæfari en foreldrarnir sem ekki sáu „atferlisröskunina“ sjálfir.
Og hér er rétt að halda til haga frétt frá því um jólin. Börn, allt niður á fyrsta ár, eru komin á þunglyndislyf. Það eru til börn sem ekki eru orðin eins árs en eru komin á þunglyndislyf. Einn sérfræðingurinn tók að vísu fram í sjónvarpsviðtali að notkun geðlyfja hjá börnum væri ekki orðin almenn, og sennilega er skynsamlegt að þakka fyrir það og segja er á meðan er. Ekki veit Vefþjóðviljinn hvernig þunglyndið greinist hjá börnum á fyrsta ári, en ætlar auðvitað ekki, frekar en aðrir, að deila við sérfræðingana. Blaðið vill þó láta í ljós þá skoðun, að flest börn séu haldin þeim kvilla að telja sig sjálf miðpunkt heimsins. Sá kvilli eldist hins vegar af flestum, mishratt þó. Að öðru leyti vill blaðið ekki að sinni tjá sig um geðveilu smábarna og þá ekki heldur taka afstöðu til spurningarinnar um það, hverra bilunar það bendi til að nokkurra mánaða gömul börn séu komin á þunglyndislyf.