Ítalskt fyrirtæki hefur áhuga á að ráða um 150 Kínverja til starfa. Starfsemin fer fram á Íslandi og felst í því að byggja virkjun til raforkuframleiðslu. Starfsemin er ekki ólögleg, en þó mætti ætla að svo væri miðað við þau viðbrögð sem fyrirætlun hins ítalska fyrirtækis valda. Innlendur félagsskapur að nafni Alþýðusamband Íslands hefur lýst sig andsnúið því að ítalska fyrirtækið fái að njóta starfskrafta Kínverjanna en það verður í besta falli að teljast óljóst með hvaða rökum þessi félagsskapur telur sig hafa nokkuð um þessar fyrirhuguð ráðningar að segja. Félagsmenn í Alþýðusambandi Íslands hafa enga réttmæta hagsmuni að verja gagnvart ítalska fyrirtækinu eða kínversku verkamönnunum, en verkalýðsrekendurnir telja sig ef til vill missa spón úr aski sínum ef hér á landi fá að starfa menn sem ekki þurfa að lúta forystu þeirra.
Alþýðusambandið, eins og önnur ámóta félög, er reyndar undarlegt fyrirbæri. Flest félög þrífast vegna þess að menn kjósa sjálfviljugir að ganga í þau og styðja þau með vinnu- eða fjárframlagi, nema hvort tveggja sé. Þannig styðja ýmsir góðir menn, svo dæmi sé tekið af handahófi, við útgáfu Vefþjóðviljans og verður það seint fullþakkað. Verkalýðsfélag þrífst hins vegar oftast á allt öðrum og vægast sagt annarlegum forsendum. Það hefur leyfi til að hafa fé af launamönnum án þess að þeir hafi nokkuð um það að segja eða kæri sig nokkuð um að styðja við félagið. Verkalýðsfélag hefur lögvarða einokunarstöðu á tilteknum vinnumarkaði og skattheimtuvald gagnvart þeim sem kjósa að starfa á þeim markaði. Þeir sem stjórna félaginu, verkalýðsrekendurnir, geta svo hagað sér með þeim hætti sem þeim hentar og barist fyrir málum sem oft kunna að vera þvert á hagsmuni þeirra sem neyddir eru til að greiða til félagsins.
Það þarf þess vegna líklega ekki að koma á óvart þó að verkalýðsfélag skuli telja sig hafa heimild til að skipta sér af ráðningum erlendra manna til erlendra fyrirtækja. Verkalýðsrekendurnir eru vanir því að skoðanir eða hagsmunir þeirra sem þeir fjalla um eða hafa afskipti af varði þá engu. Þeir fara sínu fram algerlega án aðhalds frá félagsmönnunum og gæta oft og tíðum frekar pólitískra hagsmuna sinna en almennra hagsmuna þeirra sem neyddir eru til að borga brúsann. Engan þarf því að undra að félög sem rekin eru á svo vafasömum forsendum láti sig ekki muna um að reyna að hafa vinnuna af 150 Kínverjum.