Miðvikudagur 29. desember 2004

364. tbl. 8. árg.

S á merki félagsskapur Femínistafélag Íslands á greiðan aðgang að fjölmiðlum landsins með hvers kyns umkvörtunarefni. Í gær var það bjórauglýsing sem angraði félagsmenn, eða að minnsta kosti konu sem kynnt var sem talskona félagsins. Konan taldi klámvæðingu á hraðferð inn í daglegt líf landans og að bjórauglýsingin væri dæmi um að konur væru frekar settar fram sem „kynlífsviðföng“, svo notað sé hugtak sem virðist hafa hlotið blessun Femínistafélagsins. Já, það hallar á konur að mati Femínistafélagsins, sú skoðun hefur ekki dulist hinum almenna manni. Konur verða til dæmis fyrir því að útlit þeirra er óspart notað. Þær eru hlutgerðar, eða hvað það nú heitir. Hæfileikar þeirra fá ekki að njóta sín en þess í stað er útlitið jafnan í forgrunni. Þessu verða karlar ekki fyrir. En ef þeir lentu í slíkum hremmingum yrði Femínistafélagið vafalítið fyrst til að mótmæla. Eða skyldi það ef til vill fagna því þegar fjallað er um útlit karla því að þá jafnist hlutur kvenna óbeint?

Nú er ekki gott að segja hvað Femínistafélagið telur leyfilegt þegar karlar eru annars vegar, en það verður fróðlegt að sjá hvort að félagið mun harma eða fagna leikdómi nokkrum sem birtur var í Morgunblaðinu í gær. Dómurinn hefst á þessum orðum: „Þeir eru fallegir menn á sviði, þeir Arnar Jónsson, Hilmir Snær Guðnason og Ingvar E. Sigurðsson, það er alltaf gaman að horfa á þá og við vitum að góðir leikarar eru þeir líka.“ Hvað ætli Femínistafélagið segi við því að leikdómari Morgunblaðsins, María Kristjánsdóttir, skuli leyfa sér að leggja aðaláherslu á að þrír karlleikarar séu fallegir en telja það síður mikilvægt að þeir séu góðir leikarar? Ætli Femínistafélagið muni víta Maríu? Eða ef til vill hampa henni sem kvenfrelsishetju?

Hvað hefði gerst ef leikdómarinn hefði heitað Maríus Kristjánsson og dómurinn hefði byrjað á orðunum „Þær eru fallegar konur á sviði, þær Anna Kristín Arngrímsdóttir, Þórunn Lárusdóttir og Elva Ósk Ólafsdóttir, það er alltaf gaman að horfa á þær og við vitum að góðir leikarar eru þær líka“? Hvernig hefði Femínistafélagið brugðist við þessu? Hefði félagið sent talskonu sína í sjónvarpsviðtal til að lýsa því yfir að þetta væri dæmigert fyrir þá vanvirðu sem kvenfólki í leikarastétt sé sýnd? Hefði talskonan álitið þetta niðurlægjandi fyrir konurnar? Það er ekki gott að segja, en þau viðbrögð hefðu að minnsta kosti verið í samræmi við annað sem frá félaginu hefur komið. Og það sem meira er, talskonan hefði vafalaust fengið drjúgan tíma í sjónvarpsfréttum til að viðra þessa skoðun sína.