Eftir að jarðnæði tók að hækka í verði í Reykjavík um aldamótin, og menn fóru að hagnast á því að selja lóðir sem þeir höfðu fengið fyrir lítið eða jafnvel gefins áður og fluttu hagnaðinn hvert sem verða vildi, hafa Samfylkingin og Frjálslyndi flokkurinn kynnt svonefnda fyrningaleið í lóðamálum. Fái flokkarnir umboð til þess í næstu kosningum munu lóðir á bestu stöðunum í Reykjavík verða teknar af mönnum í áföngum á næstu fimm árum. Kornið sem fyllti mælinn var lóðabrask Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins, sem nýverið seldi lóð sína í Kringlunni með miklum hagnaði og ætlar að flytja með hagnaðinn út í móa. Hefur mikil reiðialda risið í þjóðfélaginu vegna frjálsa framsalsins á lóðunum, skoðanakannanir sína mikla andstöðu almennings við braskið og við því ætla Samfylkingin og Frjálslyndi flokkurinn eðlilega að bregðast. Morgunblaðið hefur ekki enn ritað leiðara gegn frjálsa framsalinu, lóðabraskinu, gjafalóðunum eða lóðagreifunum en það er aðeins tímaspursmál. Blaðið ætlar að vanda sig betur en það gerði í umræðum um frjáls viðskipti með aflaheimildir. Þegar Samfylkingin og Frjálslyndi flokkurinn hafa gert lóðirnar upptækar verða þær boðnar upp í hagnaðarskyni. Reykjavíkurborg mun þó halda eftir nokkrum lóðum handa þeim sem geta ekki boðið nógu hátt. Lysthafendur munu geta sótt um á þar til gerðum eyðublöðum hjá skrifstofu borgarstjóra. Stefnt er að því að hafa eyðublöðin einnig á lýðnetinu þegar skoðun Dags B. Eggertssonar læknis og borgarfulltrúa á stjórnkerfi borgarinnar lýkur.
Í nýjasta tölublaði Útvegsins, fréttablaðs Landssambands íslenska útvegsmanna, er rætt við útgerðarmenn á Höfn í Hornafirði. Meðal þeirra sem tekinn er tali er Páll Guðmundsson útgerðarmaður í Miðósi og skipstjóri á Munda Sæm. Miðós er bæði með útgerð og nokkra verkun. Þegar Páll er spurður hvað sé það helsta sem brenni á mönnum svarar hann:
Það er óvissan sem er verst. Mér finnst mjög slæmt að vita aldrei hvar maður stendur eftir næstu kosningar. Það heldur manni algerlega í heljargreipum. Ég myndi gjarnan vilja kaupa til mín aflaheimildir, en geri það ekki þar sem maður getur alveg átt von á því að heimildirnar verði teknar af manni eftir fáein ár. Það er mjög slæmt að vita ekki hvað bíður manns og þess vegna er maður alltaf með því huga að selja og hætta, á meðan maður getur fengið eitthvað fyrir þetta. |
Þetta er umhugsunarvert sjónarmið. Þeir sem vilja ekki að menn hætti í útgerð og selji útgerðarfyrirtækin með aflaheimildum eru aðallega andstæðingar núverandi aflamarkskerfis. En þeir hafa ef til vill ýtt undir það að menn forði sér úr greininni fyrr en ella með því að stunda áróður gegn kerfinu. Sífelldar hótanir stjórnarandstöðuflokkanna um að kollvarpa kerfinu og gera aflheimildir upptækar hafa ef til vill flýtt því útgerðarmenn selji stærri útgerðum og kvótinn „safnist á sífellt færri hendur“. Menn vilja ekki eiga það á hættu að standa uppi slyppir og snauðir ef stjórnarandstaðan kemst til valda og ræðst í mestu eignaupptöku Íslandssögunnar.
Menn geta sömuleiðis rétt ímyndað sér hvaða áhrif það hefði á lóðaeigendur í Reykjavík ef stjórnmálaflokkar færu að hóta því að gera lóðirnar upptækar (samningum um þær sagt fyrirvaralaust upp) kæmust þeir til valda. Ætli það myndu ekki einhverjir hugsa sér til hreyfings og selja lóðirnar áður en það gerðist?