Mánudagur 27. desember 2004

362. tbl. 8. árg.

Dagana fyrir jól fjallaði Vefþjóðviljinn meðal annars um tvær ævisögur og eitt endurminningakver sem þá voru nýkomin út. En það komu auðvitað annars konar jólabækur. Þar á meðal má nefna skáldsöguna Svartur á leik eftir ungan höfund, Stefán Mána. Í sögunni er fylgst með ferð nokkurra ungra manna um undirheima Reykjavíkur og kemst lesandi ekki hjá því að taka eftir því að margt af því sem söguhetjurnar hafast að, á sér raunverulega fyrirmynd. Rán og tryggingasvik, sem kunn eru úr fréttum, eru daglegt brauð í bókinni. Það er ráðist inn í Búnaðarbankann á Vesturgötu, sölunni úr Skeljungsstöðvunum er stolið frá sendlum á leið í banka, bíll fer út af í Hvalfirðinum á kostnað trygginganna, svo dæmi séu tekin. Sagan er lipurlega skrifuð og lesandinn verður fljótt forvitinn um framvinduna og fær auk þess mannlega innsýn í undirheimana, hversu rétt sem lýsingin annars er. Höfundurinn mun hafa kynnt sér söguefnið vel og naut meðal annars aðstoðar manna sem talsvert hafa alið manninn handan laga og réttar. Það hjálpar vitaskuld við að gefa lesandanum mynd sem honum finnst trúverðug af lífinu í undirheimunum, þó hitt sé svo annað mál að það kann að vera tvíbent gagn sem lesandinn hefur af auðsæjum fyrirmyndum og aðstoð kunnáttumanna. Hættan verður vitaskuld sú, að lesandinn greini ekki á milli þess sem á sér raunverulega fyrirmynd og svo þess sem er uppspuni skáldsögunnar.

Þó í bókinni sé rakin saga og ferill nokkurra manna, þá er í henni þó nokkuð af hugleiðingum, frásögnum og sjónarmiðum, hvort sem er beint frá sögupersónunum eða þá frá beinum frásögnum höfundar. Í staðinn fyrir að ræða frekar um framvindu sögunnar, þá leyfir Vefþjóðviljinn sér að birta tvö dæmi um slíkt, svona sem sýnishorn úr Svartur á leik.

„Átján til tuttugu kúlur?“ spurði ég og reiknaði þetta dæmi gróflega í huganum. „Er kúla sem sagt milljón … erum við að tala um tugi milljóna hérna?“ „Já, ekki spurning,“ sagði Tóti og virti pakkana þrjá fyrir sér, eins og stoltur faðir, „og hver veit nema verðið eigi eftir að hækka. Markaðurinn er í uppnámi vegna nýlegra bösta … og núna vantar þrjú kíló upp á framboðið, en eftirspurnin hefur nánast aldrei verið meiri.“ „Er þetta ekki, frekar svona … vafasamur bransi?“ spurði ég og nagaði nögl á litla fingri. „Markaðurinn er staðreynd … ef við sköffum ekki efnið og fleytum rjómann ofan af, þá gerir það bara einhver annar,“ svaraði Tóti og yppti öxlum. „Það var ekki okkar hugmynd að banna þessi efni. Ríkið græðir mökk og milljarð á áfengis- og tóbakssölu, enda er álagningin hjá því hundrað eða tvö hundruð sinnum meiri en hjá okkur. Sömu yfirvöld láta gera húsleitir og handtaka saklausa hipparæfla fyrir það eitt að rækta plöntu sem vex frjáls á jörðinni, sendir síðan sama fólk í fangelsi fyrir það eitt að bjarga sér sjálft um gras, refsar því fyrir sjálfsbjargarviðleitnina og brýtur það niður. Þannig býr ríkisvaldið til lögbrjóta úr venjulegu fólki sem vinnur sína vinnu og borgar sína skatta. Er eitthvert réttlæti í þessu?“

Svona spyr Tóti, öðru nafni og sjaldnar notuðu Þórarinn Guðsteinsson, og er talsvert niðri fyrir. Hann er einn þeirra manna sem sögumaður bókarinnar, Stefán Kormákur Jónsson, kynnist á ferð sinni um undirheimana. Tóti er ekkert lamb að leika sér við, frekar en ýmsir aðrir sem þar eru með starfsemi. Þá kynnist sögumaður einnig Dagnýju, hinni snotrustu stúlku sem ung fór aðra leið en til stóð:

Þegar Dagný þurfti á hvíld að halda reykti hún sig niður á jörðina og lék sitt vanalega hlutverk fyrir starfsfólk Rauða krosshússins. Sagðist vera kúguð heima fyrir og lýsti með tárin í augunum því andlega ofbeldi sem móðir hennar beitti hana, og hvernig það, í bland við afskiptaleysi og tilfinningadoða hins framagjarna og fjarlæga föður hennar, braut smám saman niður sjálfsmynd hennar, fyllti hana vonleysi og fyrirlitningu á sjálfri sér og gerði henni ómögulegt að einbeita sér að skólanum eða nokkru öðru. Að leikþættinum loknum, sem varð sífellt dramatískari, fínpússaðri og trúverðugri, bauð skilningsríkt starfsfólkið henni gistingu og hringdi síðan upp í Breiðholt og tjáði foreldrum hennar að það væri þeirra faglega mat, að það væri dóttur þeirra og þeim sjálfum fyrir bestu að hún yrði í umsjá Rauða krossins í nokkra daga, helst í tvær til þrjár vikur. Henni liði mjög illa, og svo framvegis, sem væri í sjálfu sér ekkert óeðlilegt þar sem hún væri bráðþroska og skarpgreind stúlka sem væri að brjótast undan foreldravaldi. Þannig náði Dagný hvað eftir annað að spila á kerfið og nota það til að stilla gamla settinu upp við vegg. Foreldrar hennar stóðu allt í einu berskjaldaðir frammi fyrir ósigrandi her pólitískt skipaðra barnaverndarnefnda, lögverndaðra sálfræðinga og alls konar sérfræðinga og vissu ekki hvað þau áttu að halda, gera eða hugsa. Þau fengu ekkert að vita nánar um þessa meintu vanlíðan dóttur sinnar og ímynduðu sér að eitthvað hefði gerst í skólanum. Að þau hefðu gert eitthvað rangt. Væru hræðilegir foreldrar, sek um vanrækslu eða eitthvað þaðan af verra. Eða þá að eitthvert hryllilegt leyndarmál úr fortíðinni væri að angra dóttur þeirra. Eitthvað sem þau vissu ekki um – áreiti, einelti, ofbeldi, nauðgun. Og grunurinn um að ólæknandi geðsjúkdómur hefði tekið sér bólfestu í blessuðu barninu festi smám saman rætur í huga þeirra, þó að þau forðuðust bæði að færa þann óþægilega grun í orð. Þau voru sjálf orðin hálfgeðveik eftir margra mánaða stapp við hin og þessi félagsmálayfirvöld og máluðu sig fyrir rest út í horn í kerfinu, á meðan ólögráða dóttir þeirra lék lausum hala í undirheimum borgarinnar og flæktist sífellt betur í þéttriðið net eiturlyfja, siðleysis, ofbeldis og skipulegrar glæpastarfsemi.