Helgarsprokið 26. desember 2004

361. tbl. 8. árg.

Þeir sem vilja viðhalda banni við auglýsingum á áfengistegundum og vilja heldur ekki aflétta ríkiseinokun af smásölu áfengis bera því helst við að það muni verða mönnum hvatning til drykkju. Auglýsingar muni hvetja menn til aukinnar drykkju. Bætt aðgengi, sem fylgi því að einkaaðilar selji vínin, muni einnig auðvelda mönnum að fara sér að voða í veigunum. Þeir bera því jafnframt við að þjónusta áfengiseinokunar íslenska ríkisins sé svo góð að einkaaðilar gætu vart gert betur.

„Ætli menn hafi gert sér grein fyrir því árið 1922 að um aldamót yrði einokunin, sem átti að hindra menn í að kaupa sér flösku, komin með heimasíðu og hægt væri að liggja fullur heima í koju, panta bokku með músarsmelli og fá hana senda upp í rúm?

Meðal ötulustu auglýsenda fyrir jólin var þó einmitt áfengiseinokun ríkisins sem auglýsir undir nafninu „Vínbúð“. Þannig blikkuðu auglýsingaborðar frá Vínbúðinni á helstu fréttavefjum landsins með slagorðunum „Vín með jólamatnum“. Í auglýsingum í dagblöðum og bæklingum sem áfengiseinokunin sendi frá sér var auglýst undir kjörorðunum „Vínbúðin – lifum, lærum og njótum“. Vínbúðir áfengiseinokunarinnar þurfa eðli málsins samkvæmt ekki að hafa miklar áhyggjur af keppninautum í vínsölubransanum, þeir eru einfaldlega ekki til staðar. Hvers vegna eru vínbúðirnar þá að auglýsa?

Það eina sem Vefþjóðviljanum kemur í hug er að vínbúðir ríkisins vilji frekar að menn drekki áfengi en malt og appelsín með jólamatnum. Einu hugsanlegu áhrifin sem þessar auglýsingar hafa er að menn hafa frekar bjór og kampavín en appelsínusafa með engiferöli sem fordrykk, frekar hvítvín en kók með matnum og frekar koníak en heitt súkkulaði á eftir. Vínbúðirnar vilja að menn læri að „læra, lifa og njóta“ áfengis í stað þess að þamba vatn, óáfenga ávaxtasafa og gosdrykki. Það fer svo eftir því hvaða víninnflytjendur hafa „hillupláss“ hjá áfengiseinokuninni hvaða þrúgur seljast best. Þeir innflytjendur sem komast ekki í hillur einokunarinnar að sitja uppi með þrúgur reiðinnar.

Einkaleyfi til smásölu áfengis var veitt ÁTVR árið 1922 í þeim tilgangi að hefta aðgengi almennings að áfengi, til að hafa vit fyrir hinum almenna manni. Það hefur svo verið megin sjónarmiðið allt fram á síðustu ár. Nú bregður hins vegar svo við að markmiðið með rekstri hins opinbera á áfengisverslunum virðist vera það að veita kúnnunum sem mesta þjónustu, verslunum er fjölgað og auglýst á fullu. Komið og lærið, lifið og njótið hjá áfengiseinokun ríkisins. Ætli menn hafi gert sér grein fyrir því árið 1922 að um aldamót yrði einokunin, sem átti að hindra menn í að kaupa sér flösku, komin með heimasíðu og hægt væri að liggja fullur heima í koju, panta bokku með músarsmelli og fá hana senda upp í rúm? Ætli menn hafi gert sér grein fyrir að verslunin sem átti að bregða fæti fyrir þyrstan landann myndi senda mönnum hvatningarorð um að fá sér í staupinu með jólamatnum, lifa, læra og njóta. Í raun er þjónusta ÁTVR gagnvart almenningi orðin eins og hún gerist hjá verslunum almennt, jafnvel afgreiðslutíminn er kominn í svipað horf og hjá mörgum öðrum verslunum.

Hið eina sem eftir er af upphaflegum tilgangi með einokuninni er að innflytjendur og framleiðendur þurfa að bera sig upp við embættismenn ef þeir vilja koma vörum sínum í smásölu í stað þess að þessi viðskipti lúti eðlilegum háttum.

Eini tilgangurinn með núverandi rekstri ÁTVR er að hindra eðlilega verslunarhætti. Með rekstri vínbúða ÁTVR er haldið í höftin haftanna vegna.