U m áramótin mun sumt hækka og annað lækka. Þetta þykja víst ekki merkileg tíðindi og afleiðingarnar heldur fyrirsjáanlegar í flestum tilfellum. Gjaldskrárhækkanir R-listans í Reykjavík, þvert á tal borgarstjóra um að gjaldskrár yrðu ekki hækkaðar, verða til að mynda til þess að hinn almenni Reykvíkingur hefur minna á milli handanna en R-listinn meira. Skattalækkun ríkisins mun verða til þess að skattgreiðendur hafa meira á milli handanna, en útsvarshækkun í Reykjavík og Kópavogi mun til dæmis minnka ráðstöfunarfé þeirra sem búa í þessum sveitarfélögum. Svona gengur þetta fyrir sig og er í raun afskaplega einfalt. Stundum eru afleiðingar hækkana þó ekki alveg svona einfaldar, en þær eru engu síður raunverulegar.
Félagsmálaráðherra ákvað fyrir viku að hækka atvinnuleysisbætur um áramótin og sömuleiðis að hækka hámarksábyrgð úr Ábyrgðarsjóði launa. Afleiðingarnar af þessu eru þær að atvinnulausir fá meira fé í hverjum mánuði og að þeir sem starfa hjá fyrirtækjum sem verða gjaldþrota fá hærri laun fyrir vinnu síðustu mánaða fyrir þrot eigi búið ekki fyrir launum. En það gerist fleira. Annars vegar blasir við að einhverjir verða að greiða þessar bætur og þessir einhverjir eru eins og venjulega skattgreiðendur. Hins vegar – og það skiptir meira máli – hefur þessi ákvörðun áhrif á atvinnuleysi og gjaldþrot.
Með því að hækka atvinnuleysisbætur var félagsmálaráðherra að taka ákvörðun um að auka atvinnuleysi í landinu. Ástæðan er sú að því hærri sem atvinnuleysisbæturnar eru, þeim mun minni hvati er fyrir atvinnulausa að finna sér atvinnu. Þeir geta jafnvel staðið frammi fyrir því að það borgi sig varla eða alls ekki að vinna. Atvinnuleysisbætur valda þannig atvinnuleysi og því hærri sem þær eru þeim mun meira verður atvinnuleysið. Svipaða sögu er að segja um hækkun hámarksábyrgðar úr Ábyrgðasjóði launa. Því meira fé sem hið opinbera setur inn í þennan sjóð, þeim mun lengur munu launþegar leyfa fyrirtækjum að komast upp með að starfa án þess að greiða laun. Ef ríkið tæki ekki á sig ábyrgð vegna vangoldinna launa gjaldþrota fyrirtækja væru starfsmenn fljótir að leggja niður störf þegar þeir sæju að gjaldþrot væri framundan. Nú er staðan hins vegar þannig að starfsmenn telja sig trygga með laun síðustu þriggja mánaða og þar með minnkar þrýstingurinn á að fyrirtæki sem í raun eru orðin gjaldþrota hætti störfum og eigi þar með ef til vill einhverjar eignir eftir upp í kröfur.