Fyrr í vikunni fjallaði Vefþjóðviljinn um endurútgáfu þeirrar ævisögu íslenskrar sem einna harðastar deilur vakti á síðustu öld, ævisögu Hannesar Hafsteins eftir Kristján Albertsson. Á dögunum kom út önnur bók, annað bindi þeirrar ævisögu sem mun hafa vakið hörðust viðbrögð á þessari öld, ævisögu Halldórs Kiljans Laxness eftir Hannes Hólmstein Gissurarson prófessor. Vefþjóðviljinn hefur raunar látið í ljós þá skoðun að deilurnar um fyrsta bindi sögunnar, skýrist að nokkru leyti fremur af því hver skrifaði söguna heldur en sögunni sjálfri, enda hefur enginn haldið því fram að Hannes hafi í bók sinni farið rangt með staðreyndir eða gefið ósanngjarna mynd af Halldóri Laxness eða öðrum mönnum. Árásirnar á Hannes hafa, eins og kunnugt er, snúist um notkun hans á nokkrum bókum í heimildaskyni og þá því hvernig hann vísar til þeirra. Um það geta menn haft ýmsar skoðanir og auðvitað ótengdar almennu áliti þeirra á bókarhöfundi, en hver og einn getur velt fyrir sér hvort efnt hefði verið til slíkrar herferðar af þessu tilefni ef höfundurinn hefði verið einhver annar.
En nóg um það að sinni. Nú er komið út annað bindi ævisögunnar, Kiljan nefnist það og er þar rakin saga Halldórs árin 1932-1948. Þessi ár urðu Halldóri verkamikil. Hann gaf út þrjár stórar skáldsögur auk annarra bóka með ýmsu efni. Þá tók hann virkan þátt í stjórnmálum og þjóðfélagsátökum, og verður ekki annað sagt en að hann eigi meiri heiður skilinn fyrir skáldsögurnar en önnur umsvif sín. Allt er þetta rakið í bók Hannesar, skýrt, læsilega og að því er best verður séð, af sanngirni í garð Halldórs og hans málstaðar. Hannes reynir þannig að færa rök að því, að Halldór hafi ekki sagt vísvitandi ósatt í Gerska ævintýrinu, áróðursriti sínu fyrir Jósef Stalín og málstað hans, og svo mætti áfram telja. Hannes reynir auðvitað ekki heldur að fegra hlut Halldórs umfram það sem staðreyndir leyfa. Hann virðist einfaldlega leggja sig fram um að gefa eins skýra og sanna mynd af Halldóri og honum er unnt.
Sennilega mun ævisagan, þegar hún verður lesin í heild, koma ýmsum á óvart. Hún verður væntanlega, það er að segja ef marka má fyrstu bindin tvö, skrifuð af mikilli sanngirni í garð Halldórs Kiljans Laxness. Tilgangur Hannesar er ekki að koma höggi á Halldór eða sýna góð verk hans og slæm í ósanngjörnum hlutföllum. Þetta mun vafalaust koma þeim á óvart sem fyrirfram voru sannfærðir um að Hannesi hlyti að ganga illt eitt til með ævisögugerð sinni. Þegar það fréttist á síðasta ári að Hannes Hólmsteinn Gissurarson væri, án boðskorts, að skrifa ævisögu Halldórs Kiljans Laxness, svona rétt eins og Halldór væri þjóðskáld sem fleiri en viðurkenndir básúnuleikarar arftaka þeirra þjóðfélagsafla sem hann barðist fyrir á sínum tíma mættu taka til athugunar, þá varð uppi fótur og fit. Skyndilega var meira að segja lokað aðgangi að þeim gögnum sem áður höfðu kvaðalaust verið gefin til opinbers safns, og segir sú aðgerð meira en mörg orð um það andrúmsloft sem þegar skapaðist. Strax varð augljóst að lagst yrði í lúsaleit í bók Hannesar og allar hugsanlegar misfellur þegar birtar á skjávörpum um allan hinn póstmóderníska heim. Og af því má líka ráða hvort líklegt sé að Hannes hafi talið sig gera á hlut Halldórs eða fræðimanna með vinnubrögðum sínum við ritun fyrsta bindisins. Þær tilvísanir sem hann hafði ekki í fyrsta bindi sínu, en hefði getað haft, þær hefðu annað hvort orðið í alþekkt verk Halldórs eða þá þau verk sem væntanlegir gagnrýnendur hans þekkja eins og lófann á sér. Það má alveg deila um hvort Hannes hefði átt að vísa oftar til heimilda sinna, því hefur Vefþjóðviljinn aldrei mótmælt, en það er óþarfi að ímynda sér að hann hafi ætlað að brjóta réttindi annarra.
Vitaskuld er fjallað um fleira en Halldór Laxness í ævisögu Halldórs Laxness. Saga hans fléttaðist inn í Íslandssögu tuttugustu aldar og saga hans varpar ljósi á sögu landsins. Sá sem kynnir sér ævi Halldórs Laxness verður margs fróðari um sögu Íslands, og í því liggur einn kostur Kiljans. Hún er afar læsilega og vel skrifuð saga sem skilur lesandann eftir að mun fróðari um sögu lands síns síðustu öld. Raunar má segja að þær tvær ævisögur sem hér hafa verið nefndar, Kiljan og Hannes Hafstein séu kjörnar þeim sem fræðast vill um íslensk þjóðmál og íslenskt mannlíf síðustu hundrað árin. Tvær ákaflega vel gerðar bækur, hvor á sinn hátt, sem óhætt er að mæla með að fólk kynni sér fordómalaust. Fordómalaust gagnvart höfundum bókanna og söguhetjunum.