Þ að er kannski ekki undarlegt að stjórnarandstaðan grípi hvert færi sem henni gefst til að tala um herferðina gegn Saddam Hussein og stjórn hans í Írak. Þegar búið er að kynna mestu skattalækkanir í manna minnum – og það beint á eftir tilkynningu vinstrimeirihlutans í Reykjavík um mestu mögulega útsvarshækkun á borgarbúa – þá er kannski ekki nema von að stjórnarandstaðan á alþingi reyni að ræða eitthvað annað en innanríkismál. Í umræðum um Írak, innrásina þangað og eftirleik hennar, hafa líka ótal meinlokur skotið upp kollinum sem auðvelt er að nýta sér til að rugla umræðuna.
Eitt sem sumir virðast geta flækt sig í ótrúlega lengi, er umræða um framkvæmdaratriði við töku ákvörðunar um stuðning Íslands við aðgerðir bandamanna. Það er stundum eins og einhverjir trúi því að sú ákvörðun hafi verið tekin í blóra við vilja alþingis. Sumir hafa hreinlega getað ruglað um þetta mál af og til í hálft annað ár. Þetta er hins vegar hreinn misskilningur eða meinloka öllu heldur. Það er fyllilega óhætt að slá því föstu að alþingi hafi, með því álykta aldrei á aðra vegu, samþykkt fyrir sitt leyti afstöðu þáverandi utanríkisráðherra – sem fer með samskipti Íslands við erlend ríki – til árásarinnar á Saddam og ríkisstjórn hans. Þó almennt sé auðvitað eðlilegt að taka með varkárni þeirri skoðun að þögn sé hið sama og samþykki, þá þarf enginn að ímynda sér annað en að hverjum einasta alþingismanni hafi verið kunnugt um afstöðu íslenskra stjórnvalda og að hún var umdeild. Hver einasti þingmaður hefði getað lagt til að alþingi samþykkti einfalda ályktun um að þingið væri í raun ekki samþykkt afstöðu stjórnvalda. Þingið hefði auk þess vitaskuld getað sett utanríkisráðherrann af. Ef alþingi hefði talið nokkra ástæðu til að marka aðra stefnu en stjórnvöld höfðu gert, þá hefði þingið getað gert það hvenær sem var. Alþingi gerði það einfaldlega ekki, og það er ekki vegna þess að þingmenn hafi bara ekki tekið eftir deiluefninu eða tekið eftir því en gleymt því aftur. Nei, alþingi sá einfaldlega enga ástæðu til að gera athugasemd við málsmeðferð stjórnvalda – og þegar það liggur fyrir, hættir málsmeðferðin að skipta máli.
Það blasir við að Alþingi telur ekki að á sér hafi verið brotið í málinu, alþingi er sátt við þá stefnu sem fylgt hefur verið. Bæði það þing sem sat fyrir síðustu kosningar, þegar stjórnvöld tóku sínar ákvarðanir, sem og það þing sem kjörið var í fyrra. Menn geta alveg verið ósammála stjórnvöldum og alþingi um hvort rétt hafi verið að koma Saddam Hussein frá með valdi, en málsmeðferðin hér heima er ekkert innlegg í slíka deilu. Ekki frekar en einstök atvik í innrásinni. Innrásin verður ekki réttmæt þó einstakir hermenn kunni að reynast einhverjum andstæðingum sínum eða almennum borgurum miskunnsamir og líknandi. Innrásin verður að sama skapi ekki óréttmæt þó einstakir hermenn kunni að brjóta af sér gagnvart andstæðingunum. Og þeir sem stundum slá fram hugtökum eins og „ólögmætt árásarstríð“, hvernig segjast þeir rökstyðja þá upphrópun? Jú, margir þeirra segja að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hafi ekki samþykkt innrásina. Og af hverju ekki? Jú, þeir Pútin Rússlandsforseti og Chirac Frakklandsforseti fengust ekki til þess. En hvað ef þeir Pútín og Chirac hefðu nú skipt um skoðun? Hefði innrásin þá orðið lögmæt í augum þessa fólks? En ef ekki, þá er það eitthvað annað en skortur á samþykki öryggisráðsins sem í raun stjórnar afstöðunni.
Menn geta haft hvaða afstöðu sem er til þess álitamáls hvort innrásin í Írak hefði átt að fara fram, en sú afstaða hlýtur að ráðast af því sem gerst hafði fyrir innrás og því sem menn þá gátu vitað um ástand mála. Menn geta vel verið þeirrar skoðunar að það sem þá lá fyrir hafi ekki réttlætt innrás í Írak og aðrir geta verið þeirrar skoðunar að í ljósi forsögunnar og þess sem menn höfðu ástæðu til að ætla, hafi ekki verið réttlætanlegt að láta Saddam lengur óáreittan. Hvort tveggja er bara afstaða sem menn geta rætt fram og til baka. Þeir sem eru á fyrri skoðuninni, þeir geta þá vel verið ósáttir við það að íslensk yfirvöld tóku þá afstöðu sem þau tóku. En þeir verða að vera á móti þeirri ákvörðun vegna hennar sjálfrar, en ekki vegna þess hvernig hún var tekin. Stuðningur og andstaða við innrás ræðst af öðru en fundarsköpum.