Undanfarna daga hafa fjölmiðlar, sumir hverjir að minnsta kosti, efnt til réttarhalda yfir forsvarsmönnum fyrirtækisins Hringrásar í Reykjavík. Eftir bruna í fyrirtækinu á dögunum bar svo vel í veiði til var bréf frá opinberu eftirliti með aðfinnslum sem ekki hafði verið nægilega sinnt. Slíkt þykir fjölmiðlamönnum jafnan gríðarlegt mál. Og vel má það vera að athugasemdir eftirlitsins hafi verið fullkomlega skynsamlegar og allt upp í óforsvaranlegt að þeim hafi ekki verið sinnt; ekki veit Vefþjóðviljinn það. En hitt veit blaðið að opinbert eftirlit, kröfur og aðfinnslur eru alltaf að færast í aukana. Fyrirtæki þurfa að leggja geysilega vinnu og fjármuni í að sinna opinberum úlfaköllurum. Þegar eftirlitið kemst á það stig að menn fara að líta svo á að það sem ekki er gerð athugasemd við, að það sé þá bara þar með í lagi, þá eykst ótti eftirlitsmannanna um eigin ábyrgð og þeir fara að gera fleiri og fleiri athugasemdir, til að vera nú með allt sitt á þurru ef eitthvað gerist. Það má vel vera að athugasemdir eldvarnareftirlitsins hafi verið skynsamlegar, rétt eins ýmsar aðrar athugasemdir geta verið það. En í eftirlitsflóði nútímans, þar sem allt á að vera svo ofboðslega faglegt, þá drukkna skynsamlegar ábendingar í öllum hinum. Og það sem meira er, fyrirtæki hefðu kannski tíma og fjármuni til að sinna því sem mestu skiptir ef þau þyrftu ekki í sífellu að vera að svara naggi, setja upp sturtur fyrir starfsfólk og gera jafnréttisáætlanir.
Lítið dæmi af nútímanum sem tengist eftirlitsiðnaðinum þó ekki nema óbeint. Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra var viðstaddur þegar sýnd var og borðuð lengsta pylsa sem vitað hefur verið um. Hann hélt stutt ávarp á léttu nótunum og hvatti viðstödd börn meðal annars til að vera dugleg að borða pylsur svo þau yrðu stór og sterk. Daginn eftir var mætt í sjónvarpið kona frá manneldisráði og taldi þetta mjög varhugaverð orð. Nú hefur sennilega fréttamaðurinn dregið hana á staðinn, séð færi á að æsa upp þrugl, en það er aukaatriði; eftirlits- og ábendingariðnaður hins opinbera er löngu kominn yfir skynsamleg mörk.
Svona er alltaf skemmtilegt. Morgunblaðið birti á dögunum svohljóðandi leiðréttingu: „Röng mynd birtist með grein Bjarna Jónssonar, sem bar fyrirsögnina „Kirkjan og samkynhneigðir“ í Morgunblaðinu síðastliðinn miðvikudag og var sú myndbirting leiðrétt í blaðinu daginn eftir. Með greininni birtist af Bjarna Jónssyni, sveitarstjórnarmanni VG í Skagafirði, sem ritaði grein í Morgunblaðið 12. nóvember sl. Sú grein bar fyrirsögnina „Náttúra og menning í heimabyggð á erindi inn í skólastarfið“. Hlutaðeigendur eru beðnir afsökunar á mistökunum.“
Með leiðréttingunni birtist svo litmynd af manni, sem væntanlega er Bjarni Jónsson. En hvor?