er að láta skoða kem til baka fólk er fífl!!!! |
– tilvitnun Samkeppnisstofnunar í tölvupóst starfsmanns olíufélags |
Tilvitnunin hér að ofan er líklega frægasta tilvitnun Samkeppnisstofnunar í tölvupóst starfsmanna olíufélaganna í 996 síðna skýrslu stofnunarinnar um meint samráð félaganna. Tilvitnunin hefur orðið mörgum hneykslunarhella. Í ófáum tilvikum hefur hún verið lögð til grundvallar mati manna á hve forhert olíufélögin voru í samráði sínu gegn fólki. Tilvitnunin er hefur jafnvel verið notuð sem helsta röksemdin í dreifibréfi í tölvupósti þar sem menn eru hvattir til að skipta ekki við olíufélögin. Starfsmaðurinn sem reit þessi orð hefur svo beðist opinberlega afsökunar á þeim. En hvað er eiginlega þarna á ferðinni? Hvers vegna segir starfsmaður olíufélags þetta um viðskiptavini félagsins? Það hefur auðvitað enginn haft áhuga á að skoða það. Tilvitnunin hefur þótt nægja ein og sér í umræðunni. Það er gott að muna hana og gott að slá um sig með henni þegar menn koma saman til að fordæma olíufélögin.
Það er þó hægur vandi að lesa það úr skýrslu Samkeppnisstofnunar hvað þarna gerðist. Olíufélögin bjóða viðskiptavinum sínum að kaupa á bensínstöðvum þar til gerða plastbrúsa undir eldsneyti. Brúsa þessa geta menn fengið við vægu verði ef þeir verða bensínlausir eða þurfa af öðrum ástæðum að flytja lítinn leka af eldsneyti. Flestir sem lenda í því að verða bensínlausir hafa svo ekkert við þennan brúsa að gera eftir að bíllinn er kominn í gang. Olíufélögin hafa því boðið mönnum að skila brúsunum og fá endurgreiðslu. Haustið 2001 komst starfsmaður eins olíufélagsins að því að óprúttnir menn keyptu brúsa hjá öðru olíufélagi fyrir 150 krónur og skiluðu hjá sínu félagi sem greiddi 300 krónur fyrir brúsana. Brúsarnir voru svo líkir að starfsmenn bensínstöðvanna áttuðu sig ekki á þessum svikum.
Hann hefur því samband við starfsmann hjá því félagi sem seldi brúsana á 150 krónur og biður hann að athuga hvort þeir geti ekki boðið brúsana á sama verði og með sama skilagjaldi. Þannig megi koma í veg fyrir þessi svik. Þetta er auðvitað ekki mjög frumleg aðferð til að stöðva svik af þessu tagi en það er sjálfstætt efni. Það blasti bara við að óbreytt fyrirkomulag á þessari þjónustu gat ekki gengið.
Í svarbréfinu frá starfsmanni 150-króna félagsins kemur hin fræga tilvitnun fram. Honum hefur greinilega ofboðið að fólk leggist svo lágt að svíkja út fé með þessum hætti. Hann lætur það því flakka með í svari sínu að fólk sé fífl. Hann hefur fjögur upphrópunarmerki á eftir þessu skensi sínu sem segir nokkuð um hve mikil alvara bjó að baki. Hver hefur ekki látið eitthvað þessu líkt fljóta með í hálfkæringi í tölvupósti? Ætli mætti ekki finna eitthvað þessu líkt í „sent“-hólfinu á flestum tölvum? Ætli nokkrum þætti það sanngjarnt að slík tilvitnun væri birt sem sönnunargagn um geðslag sitt?
En eins og áður sagði hefur fólkið sem lagði sig niður við að svíkja út skilagjald á bensínbrúsum nú verið beðið opinberlega afsökunar á því að um það voru ekki notuð nægilega virðuleg orð í tölvupósti milli tveggja manna.