Á
Fréttablaðið notaði forsíðu sína og Vísis óspart til að koma Degi B. Eggertssyni í borgarstjórastólinn. |
fimmtudag í síðustu viku birti Fréttablaðið forsíðufrétt þess efnis að Dagur B. Eggertsson yrði næsti borgarstjóri í Reykjavík. Fréttin bar öll merki þess að henni var fremur ætlað að hafa áhrif á atburðarásina en skýra frá henni. Ekkert kom fram í meginmáli fréttarinnar sem studdi fyrirsögn forsíðufréttarinnar um að Dagur yrði næsti borgarstjóri. Á þessum tímapunkti stóð umræðan um framtíð Þórólfs Árnasonar hvað hæst og ljóst að borgarfulltrúar Framsóknarflokksins og Samfylkingarinnar, bæði háðir og óháðir, höfðu áhyggjur af „umræðunni“ eins og kom fram í ályktun borgarstjórnarflokks R-listans. Vinstrigrænir virtust hins vegar hafa gert það upp við sig á efnislegum forsendum strax í upphafi að Þórólfi bæri að víkja. Fulltrúar Samfylkingar, háðir og óháðir, ætluðu augljóslega að bíða eftir því hvernig „umræðan“ þróaðist og hvað kæmi út úr skoðanakönnunum. Á meðan töldu hins vegar einhverjir rétt að hafa vaðið fyrir neðan sig og stimpla það inn með forsíðufrétt að Dagur yrði næsti borgarstjóri.
Eftir hádegið í fyrradag birtist svo á forsíðu Vísis „frétt“ sem merkt var Fréttablaðinu undir fyrirsögninni „Dagur verður borgarstjóri“. Þá var orðið ljóst að Þórólfur myndi segja af sér og ekki eftir neinu að bíða með að Fréttablaðið veldi næsta borgarstjóra. Í fréttinni sagði: „Samkvæmt heimildum hefur verið ákveðið að Dagur B. Eggertsson borgarfulltrúi taki við stöðu borgarstjóra. Þórólfur Árnason víkur úr starfi. Dagur B. Eggertsson er 32 ára læknir. Hann tók 7. sæti á lista Reykjavíkurlistans í síðustu kosningum og var skipaður sem frambjóðandi óháður flokkunum sem að R-listanum standa. Hann var formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands veturinn 1994 – 1995. Hann ritaði ævisögu Steingríms Hermannssonar.“ Fréttin var fjarlægð af vef Vísis en birtist svo aftur nokkru síðar!
Það er auðvitað almennt umhugsunarefni hvernig Fréttablaðið lét með Dag B. Eggertsson í þessari baráttu um arftaka Þórólfs. Blaðið lét sig hafa það að svo gott sem gera Dag að borgarstjóra í fréttaskrifum. Hvað telur Fréttablaðið Dag hafa svo mjög umfram aðra borgarfulltrúa R-listans? Að hvaða leyti stendur hann framar Steinunni Valdísi Óskarsdóttur? Hún var líka formaður Stúdentaráðs. Er það ævisaga Steingríms Hermannssonar sem skilur á milli? Áhugi Fréttablaðsins á því að máta Dag í borgarstjórastólinn verður svo sérstakt umhugsunarefni þegar enn á ný er farin af stað umræða um fjármál stjórnmálaflokkanna og áhrif fyrirtækja á flokkana.
Hafa þeir sem vilja setja lög um opin fjármál stjórnmálaflokkanna gert ráð fyrir því að til séu frambjóðendur „óháðir flokkunum“? Hvernig á að opna bókhald slíkra frambjóðenda? Dagur hefur undanfarin misseri ritað greinar í Fréttablaðið. Nú gerir Vefþjóðviljinn auðvitað ráð fyrir að Dagur, upprennandi pólitíkus sem þarf á allri mögulegri kynningu að halda, þurfi enga sérstaka hvatningu til að skrifa í blöðin. Það er augljóst að Fréttablaðið þarf ekki að greiða honum fé fyrir að kynna sig á síðum blaðsins. Dagur er líka hugsjónamaður og hugsjónamenn skrifa um hugðarefni sín án þess að ætlast til að nokkuð komi á móti. En segjum sem svo að óháði frambjóðandinn væri annarrar gerðar en Dagur B. Eggertsson og dagblaðið sem hann skrifaði fyrir greiddi honum mjög ríflega fyrir skrifin. Hvernig á að koma í veg fyrir slík hagsmunatengsl „óháðra frambjóðenda“ og fyrirtækja?
Þetta litla dæmi sýnir hvað lög um opin fjármál stjórnmálaflokka verða alltaf hrein blekking. Það eru til svo ótal margar leiðir framhjá þeim. Það mátti til dæmis sjá í nýafstöðnum kosningum í Bandaríkjunum en þar eru jafnframt í gildi ný lög um fjárframlög til stjórnmálaflokka, kennd við McCain og Feingold. Auðmaðurinn George Soros dældi engu að síður fé í yfir 500 samtök sem með einum eða öðrum hætti börðust með framboði John Kerry og gegn endurkjöri George W. Bush. Nýju lögunum var ætlað að girða fyrir þetta. Meðal samtaka sem nutu góðs af gjafmildi Sorosar voru hin hatursfullu MoveOn.org og Center for American Progress (CAP) sem stýrt er af John Podesta starfsmannastjóra Hvíta hússins úr forsetatíð Bill Clinton.