Hitinn í heiðhvolfinu. Myndin sýnir mánaðarfrávik frá meðaltali að teknu tilliti til árstíðasveiflu. |
Ígær hófst í Reykjavík aðþjóðleg vísindaráðstefna um loftslagsbreytingar á Norðurskautssvæðinu. Í setningarávarpi sínu sagði Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra meðal annars að loftslagsbreytingar hafi verið tilefni til mikillar vísindalegrar og pólitískrar umræðu, ekki síst síðustu tvo áratugi. Fáir dragi í efa að maðurinn hafi áhrif á loftslagið með ýmsum hætti; útblæstri gróðurhúsalofttegunda, landnotkun og fleiri athöfnum. „Hversu mikil þessi þessi áhrif eru og hve miklar lofslagsbreytingarnar verða er enn háð mikilli óvissu. Loftslag Jarðar er flókið kerfi sem háð er mörgum þáttum“, sagði umhverfisráðherrann meðal annars í þýðingu Vefþjóðviljans.
Í fyrradag hélt Nils-Axel Mörner prófessor við Stokkhólmsháskóla erindi á fræðslufundi Félags íslenskra veðurfræðinga. Í máli hans kom fram að hækkun yfirborðs sjávar væri helsta áhyggjuefni þeirra sem gera ráð fyrir hlýnandi veðurfari. Það séu flestir sammála um að hækkun sjávarmáls hafi nær eingöngu slæmar afleiðingar. Það sé þó engin ástæða til að örvænta því hækkunin verði lítil sem engin. Mörner spáir að hækkunin geti verið á bilinu 5 til 10 cm en aðrar spár hafa gert ráð fyrir allt að 100 cm hækkun á næstu áratugum. Hann byggir þetta álit sitt á mælingum en ekki tölvulíkönum og gagnrýndi að menn reyndu að laga veruleikann að líkönunum í stað þess að byggja líkönin á veruleikanum.
Mörner gerði jafnframt grein fyrir þeirri skoðun sinni að lítil ísöld sé á næsta leyti en um miðja öldina verði geislun sólar í lágmarki og þá muni hafa kólnað á Jörðinni um 0,5°C. Geislun sólar nái hámarki á tveggja alda fresti. Ágúst H. Bjarnason rafmagnsverkfræðingur hefur um árabil gert svipuðum sjónarmiðum um samspil hitastigs á Jörðinni og geislunar sólar skil á vef sínum.
Daglega hellast yfir menn fréttir af því að hiti andrúmsloftsins hækki og loftslagbreytingar sem því fylgi séu óhjákvæmilegar. Undanfarinn aldarfjórðung hafa þó verið gerðar mælingar á hitastigi andrúmsloftsins með gervitunglum. Þessar mælingar eru ekki skekktar af „íbúðarhúsaáhrifum“ eins og mælingar á jörðu niðri. Með „íbúðarhúsaáhrifum“ er átt við áhrif aukinnar byggðar á hitamælingar. Hitamælar sem eitt sinn voru utan við borgir eru nú í miðri stórborg með tilheyrandi skjóli, varmagjöfum og ekki síst varmagleypum eins og svörtu malbiki. Gervitunglamælingarnar segja ekki sömu sögu og mælingar á jörðu niðri. Eins og sést á grafinu hér að ofan hefur hitinn í lægra heiðhvolfinu (14 til 22 km frá yfirborði jarðar) heldur lækkað. Hér má fylgjast með þessum mælingum og þar má einnig sjá graf fyrir gervitunglamælingar fyrir veðrahvolfið (upp í 8 km frá yfirborði jarðar) sem sýna hækkun upp á 0,04°C á áratug sem er víðs fjarri þeim spám sem gera ráð fyrir hvað mestri hækkun.