Þriðjudagur 9. nóvember 2004

314. tbl. 8. árg.
Stjórn flutningsjöfnunarsjóðs olíuvara skal skipuð þremur mönnum sem viðskiptaráðherra skipar til tveggja ára í senn. Einnig skal skipa varamenn. Forstjóri Samkeppnisstofnunar eða staðgengill hans er formaður stjórnarinnar, ráðherra skipar einn stjórnarmann án tilnefningar en jafnframt situr í henni einn stjórnarmaður, tilnefndur sameiginlega af þeim olíufélögum, sem annast olíudreifingu í öllum landshlutum, eða meiri hluta félaganna. Þó má viðskiptaráðherra ákveða að í stað eins sameiginlegs fulltrúa sitji í stjórninni einn fulltrúi frá hverju slíku olíufélagi. Olíufélögin sameiginlega eða meiri hluti þeirra fer saman með eitt atkvæði við ákvarðanatöku í stjórn sjóðsins.
 – Lög um jöfnun á flutningskostnaði olíuvara, 6.gr.

Meðal þeirra fjarstæðna sem haldið hefur verið fram undanfarna daga – þegar mikið hefur þótt liggja við að rugla umræðuna frá vandræðagangi R-listans – er að vondir menn hafi haldið Samkeppnisstofnun í „fjársvelti“ árum saman, og hafi það komið í veg fyrir að stofnunin hefði getað rannsakað olíufélögin fyrr en raun varð á. Þessi kenning er með öllu fráleit, þó fréttamenn hafi sent hana út dag eftir dag án þess að grafast fyrir um svo mikið sem eina tölu. Reyndar ætti ekki að þurfa að leita neinna talna til að sjá hversu kenningin er fráleit. Undanfarin ár hafa starfsmenn Samkeppnisstofnunar eytt miklum tíma og peningum í alls kyns furðuverkefni og þarf enginn að ímynda sér að þeir hefðu gert það ef þeir hefðu jafnframt talið smávægilegan fjárskort halda hlífiskildi yfir „mesta þjófnaði sögunnar“. Samkeppnisstofnun hefur eytt tíma og peningum í verðkönnun á rakarastofum, merkingar í gluggum og eiginlega hvaða rugli sem er.  Ef einhver heldur í raun og veru að Samkeppnisstofnun hafi skort mannafla og fé til að „taka á mesta þjófnaði sögunnar“, þá kannski útskýrir sá hinn sami af hverju stofnunin eyddi dýrmætum tíma og peningum í að ryðjast inn í Heilsuhúsið, telja verðmiða á krukkum og sekta búðina svo um 400 þúsund krónur fyrir að vera ekki með nógu marga miða.

Samkeppnisstofnun hefur ekki verið haldið í nokkru fjársvelti. Og af því að fréttamenn ætla að láta sér nægja að enduróma talið um fjárskort en birta engar tölur, þá getur Vefþjóðviljinn bætt um betur. Fjárveitingar til Samkeppnisstofnunar – í fjársveltinu – hafa aukist langt umfram hækkun á vísitölu neysluverðs frá árinu 1998. Vísitalan hefur hækkað um 29% á þessum tíma en framlög til Samkeppnisstofnunar úr ríkissjóði um 87%.

Eitt af þeim sérkennilegum verkefnum sem Samkeppnisstofnun sinnir í „fjársveltinu“ er rekstur „flutningsjöfnunarsjóðs olíuvara“ fyrir hönd íslenska ríkisins. Forstjóri Samkeppnisstofnunar hefur séð af  tíma sínum til að sitja í stjórn flutningsjöfnunarsjóðsins. Sjóðurinn hefur það að markmiði að jafna olíuverðið í landinu. Á sama tíma stýrir forstjórinn rannsókn á því hvers vegna ekki er meiri munur á verðinu milli olíufélaganna. Lögum samkvæmt fara olíufélögin saman með eitt atkvæði í flutningsjöfnunarsjóðnum sem Samkeppnisstofnun sér um reksturinn á. Olíufélögin eru með öðrum orðum skylduð til þess lögum samkvæmt að stunda samráð um flutningsjöfnunarsjóðinn sem Samkeppnisstofnun rekur!

Starfsmenn Samkeppnisstofnunar hafa stundum vitnað í Auðlegð þjóðanna eftir Adam Smith. Þau fleygu orð hans að forsvarsmenn fyrirtækja í sömu grein hittist sjaldan án þess að leggja á ráðin um samsæri gegn almenningi hafa verið starfsmönnum stofnunarinnar innblástur til verka sinna. Ef starfsmenn Samkeppnisstofnunar hefðu lesið aðeins meira af Smith, jafnvel bara í næstu málsgrein í Auðlegð þjóðanna þá hefðu þeir kannski áttað sig á því að það var ekki ætlun Smith að hvetja starfsmenn ríkisins til dáða í þessum efnum. Þvert á móti taldi hann vonlaust að eltast við slík samsæri og lög gegn þeim gengju gegn frelsi og réttlæti. Hann varaði jafnframt við því að lögin gæfu keppinautum sérstök tækifæri til að koma saman og ráða ráðum sínum.

People of the same trade seldom meet together, even for the merriment and diversion, but the conversation ends in a conspiracy against the public, or in some contrivance to raise prices. It is impossible indeed to prevent such meetings, by any law which either could be executed, or would be consistent with liberty and justice. But though the law cannot hinder the people of the same trade from sometimes assembling together, it ought to do nothing to facilitate such assemblies; much less render them necessary.

Rekstur Samkeppnisstofnunar á flutningsjöfnunarsjóði olíuvara stangast á við þessi heilræði sem starfsmenn stofnunarinnar hafa gert að sínum.