Föstudagur 29. október 2004

303. tbl. 8. árg.
Um er að ræða sömu peningana. Þetta kemur úr sama pottinum. Landspítalann vantar um það bil 500 milljónir. Talað er um að Háskóla Íslands vanti um það bil 300 milljónir. Öryrkjar voru sviknir af Framsóknarflokknum um 500 milljónir. Setjið þetta í samhengi við það sem þetta frumvarp lýtur að, 4 milljarða á ári. Þetta kemur allt úr sama pottinum. Ríkissjóður hefur 275 milljarða króna til að útdeila á hverju einasta ári og þessi ríkisstjórn hefur ákveðið að meira skuli fara í landbúnaðarkerfið beint og óbeint heldur en það sem fer í alla framhaldsskóla landsins.
Við þurfum að innleiða markaðslögmálin í íslenskan landbúnað. Það væri bændum til hagsbóta. Það væri neytendum svo sannarlega til hagsbóta. Við eigum að leyfa sömu lögmálum að leika um þennan markað eins og alla aðra markaði. Markaðshagkerfið hefur margsannað sig, aftur og aftur, í raunar öllum hagkerfum. Þau eru algild. Það kann að koma sumum á óvart en markaðslögmálin gilda hér á landi. En í ljósi þess að við þurfum að trappa okkur frá þessu kerfi er einfaldlega rangt að binda það og festa í sessi í átta ár. Við þurfum að hugsa upp nýjar leiðir til að hægt sé að búa við sterkt landbúnaðarkerfi, frjálsræði og frelsi og öfluga nýliðun meðal íslenskra bænda
 – Ágúst Ólafur Ágústsson þingmaður Samfylkingar í umræðum um búvörur á Alþingi 17. maí 2004.
Nýr þingmaður vill hygla blóðmörnum og öðrum íslenskum landbúnaðarafurðum með skattaafslætti.

Eins og Vefþjóðviljinn fjallaði um síðastliðinn þriðjudag hafa þingmenn Samfylkingarinnar lagt fram frumvarp um sérstök og aukin skattfríðindi fyrir ákveðnar matvörur. Þeir vilja lækka virðisaukaskatt á valda matarbita. Eins og lesa má í fylgiskjali frumvarpsins er meðal annars um að ræða íslenskar landbúnaðarafurðir. Það ber hæst dýrablóð, þarma, maga og blöðrur. Virðisaukaskattur á ýmsar samkeppnisvörur íslenskra landbúnaðarafurða verður hins vegar áfram hærri. Fumvarp þetta er því enn ein stuðningsaðgerðin við íslenskan landbúnað. Það miðar að því að stýra neytendum með því að gera þeim erfiðara að kaupa annan mat en íslenskar landbúnaðarafurðir.

Meðal flutningsmanna að þessu frumvarpi er Ágúst Ólafur Ágústsson þingmaður Samfylkingarinnar. Það eru ekki nema fimm mánuðir síðan Ágúst flutti hjartnæma þingræðu um mikilvægi þess að minnka fyrirgreiðsluna við landbúnaðinn, innleiða markaðslögmálin og auka frjálsræði. Hann brýndi unga þingmenn Sjálfstæðisflokksins til dáða í þeim efnum og sakaði þá um að hafa „kokgleypt allar sínar hugsjónir og gleymt þeim um leið og þeir urðu þingmenn“.

Þetta var ágæt ræða hjá Ágústi. Það er alveg rétt hjá honum að það er óþolandi hversu miklum fjármunum er sóað í landbúnaðarkerfinu og ríkisafskiptin og annað ófrelsi bitnar bæði á bændum og neytendum. Vefþjóðviljinn þarf ekki að leggjast í lýðskrum um fjársvelti skóla, öryrkja og sjúkrahúsa til að taka undir það.

Fyrsta frumvarpið sem Ágúst Ólafur  leggur svo fram sem snýr að íslenskum landbúnaði er svo frumvarp um ríkið hygli íslenskum landbúnaðarafurðum enn frekar.

Nú spyr Vefþjóðviljinn bara: Gerir frumvarpið ekki örugglega ráð fyrir að virðisaukaskattur verði lækkaður á blöðrum úr vindhönum?