Fimmtudagur 28. október 2004

302. tbl. 8. árg.
Önnur furðuleg og þrautseig hugmynd er að hagsmunir allra launamanna þjóðar séu hinir sömu, og að launahækkun hjá einu verkalýðsfélagi hjálpi öllum öðrum launamönnum með einhverjum óljósum hætti. Það er ekki aðeins svo að þetta standist ekki, heldur er sannleikurinn sá að takist nokkru verkalýðsfélagi með valdbeitingu að þvinga laun félagsmanna sinna umtalsvert upp fyrir raunverulegt markaðsvirði á þjónustu þeirra, skaðar það alla aðra launamenn eins og það skaðar aðra þjóðfélagsþegna.
 – Henry Hazlitt, Hagfræði í hnotskurn, bls. 136.

Starfsmannafélag ríkisstofnana gaf á dögunum 10 milljónir króna í verkfallssjóð kennara. Þetta höfðu að vísu ekki verið frjáls framlög félagsmanna, heldur höfðu peningarnir verið teknir af þeim með valdi. Það er gott til þess að vita að fólkið í þessu félagi – sem já kallar sig víst núna Starfsmannafélag í almannaþjónustu, eða eitthvað slíkt – sé svo vel statt, að helstu talsmenn þess, stjórnendur verkalýðsfélags þeirra, telji það aflögufært til þess að lengja verkfall grunnskólakennara. Raunar hlýtur það álit stjórnendanna að verða rifjað upp, næst þegar þeir taka til máls um bág kjör eigin fólks, en látum það liggja milli hluta. Annað skiptir meira máli.

Það er einfaldlega með algerum ólíkindum að forystumenn verkalýðsfélags, sem eins og önnur neyðir saklaust fólk til félagsaðildar, láti sig hafa það að leggja peninga félagsmanna í að lengja verkföll einhvers allt annars fólks. Nógu umhugsunarvert er nú þegar menn eru neyddir í verkfall, bara af því að starfsfélagarnir vilja fara í verkfall, nógu umhugsunarvert er það nú þegar menn eru neyddir til að leggja í sjóð til þess að borga herkostnaðinn af verkfallinu – en hvað er það hjá því að vera neyddir til þess að styrkja verkföll allt annarra stétta? Það er mikið talað um það að verkfall grunnskólakennara komi illa við fjölmörg heimili, einkum þau sem ekki geta leitað annað eftir barnageymslu. Ætli félagsmenn Starfsmannafélags ríkisstofnana finni ekki fyrir því eins og aðrir? Hvernig ætli almennum félagsmanni þar, segjum konu sem hefur þurft að minnka við sig vinnu til að gæta barns sem ekki kemst í skóla, þyki nú tilhugsunin um það að þeir peningar, sem svokallað verkalýðsfélag hennar tekur reglulega af henni, sé nú sérstaklega notað til að lengja verkfallið sem hefur vinnuna af henni? Ætli hún fyllist bara „stéttarvitund“? Eða ætli stéttarvitundin sé einkum hjá forstjórum verkalýðsfélaganna, manna sem aldrei fara í verkfall og aldrei detta af launaskrá?

Annað félag fylgdi í fótspor Starfsmannafélags ríkisstofnana. Félag fréttamanna ákvað að leggja fé til verkfallsbaráttu grunnskólakennara. Stjórn félagsins varð síðan hin reiðasta þegar yfirmaður fréttasviðs Ríkisútvarpsins tók fyrir að þeir stjórnarmenn, sem þetta ákváðu, héldu áfram að segja fréttir af verkfallinu. Þeir sögðust hafa ákveðið þetta „sem verkalýðsmenn“ en svo væri allt annað „sem fréttamenn“. Auðvitað var það skiljanleg afstaða hjá Boga Ágústssyni að þeir sem ákveðið hefðu að leggja fé til þess að lengja verkfall væru ekki heppilegustu mennirnir til að segja fréttir af því sama verkfalli. En þetta minnir á annað. Fréttamenn eru ekki hlutlausir um menn eða málefni. Fréttamennirnir sem ákváðu að leggja fé í verkfallssjóð kennara voru ekki hlutlausir fram að þeirri ákvörðun. Þeir urðu ekki áhugasamir um verkfallið við það að borga til þess. Þeir borguðu af því að þeir voru áhugasamir um verkfallið. Ímyndum okkur nú að Félag fréttamanna hefði ekki átt grænan eyri og því ekkert verið borgað í verkfallssjóð kennara. Þá hefðu stjórnarmennirnir látið sér nægja að vinna og segja fréttir af verkfallinu á klukkustundarfresti. Bogi Ágústsson hefði brugðist ævareiður við ef einhver hefði svo mikið sem gefið í skyn að þeir væru hlutdrægir í málinu.

Fyrst  talað er um fréttamenn, þá má nefna smáatriði úr fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi. Þar var fjallað um Ítala sem tilnefndur hefur verið til setu í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Fréttamaður þrástagaðist á því að menn væru á móti þessum manni „vegna fordóma hans“ í garð hinna og þessara. Nú er varla þorandi að gera athugasemdir við svona orðalag, því þá mun einhver um leið halda að menn deili skoðunum hins umdeilda Ítala, en Vefþjóðviljinn tekur áhættuna. Af hverju má ekki segja að maðurinn sé umdeildur vegna „skoðana“ sinna? Af hverju vegna „fordóma“ sinna? Bara af því að fréttamaðurinn, eins og vafalaust margir aðrir, er ósammála manninum? Allt í lagi að vera ósammála þessum fugli, en er ekki eitthvað vafasamt við það að fréttamenn ákveði bara að tilteknar leyfðar skoðanir séu „skoðanir“, en aðrar séu „fordómar“? Koma næst fréttir af „fordómum“ frjálslyndra manna í garð opinberra stofnana? Og þar næst fréttir af „fordómum“ vinstri manna gegn einkavæðingu og skattalækkunum?

En hvað um fordóma fréttamanna gagnvart fordómum?