Laugardagur 30. október 2004

304. tbl. 8. árg.

S taðbundnir fjölmiðlar hafa átt undir högg að sækja hér á landi og nauðsynlegt er að gera úttekt á stöðu þessara miðla svo ræða megi hvort sérstakra aðgerða er þörf til að ræða stöðu þeirra. Framangreind fullyrðing er ekki frá Vefþjóðviljanum komin heldur eiga Dagný Jónsdóttir alþingismaður og nokkrir kollegar hennar heiðurinn af henni. Dagný og félagar hafa lagt fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um staðbundna fjölmiðla sem gerir ráð fyrir að menntamálaráðherra skipi nefnd um stöðu slíkra fjölmiðla og rekstrarumhverfi þeirra og skili skýrslu. „Í skýrslunni verði gerð grein fyrir þróun markaðarins undanfarin ár og, ef þurfa þykir, komið með tillögur um beinar eða óbeinar aðgerðir sem ríkisstjórn og Alþingi gætu gripið til í því skyni að efla rekstrargrundvöll staðbundinna fjölmiðla,“ segir í tillögu þingmannanna.

Þó að tillöguflytjendur gefi sér það að ekki sé unnt að ræða „hvort sérstakra aðgerða er þörf til að efla stöðu [staðbundinna fjölmiðla]“ án aðstoðar sérstakrar nefndar, ætlar Vefþjóðviljinn nú þegar að leyfa sér að ræða og hafa skoðun á þessu atriði. Staðreyndin er nefnilega sú að það þarf engar opinberar nefndir til að taka afstöðu til grundvallarspurninga eins og þarna er í raun verið að spyrja. Þótt málið sé sett í þann búning að gera eigi úttekt á og kanna stöðu miðlana, þá er ljóst að tilgangur tillöguflutningsins er að ríkið muni í framtíðinni með einhverjum hætti hlutast til um að gefnir verði út þessir svo kölluðu staðbundnu fjölmiðlar. Og hvernig ætli ríkið muni nú hlutast til um að hinir staðbundnu fjölmiðlar geti dafnað ef tillöguflytjendur fá sitt fram? Ætli það verði með því að umhverfi viðskiptalífsins sé almennt hagstætt og þróist í rétta átt, eins og í stórum dráttum hefur gerst hér á landi á síðustu árum? Eða ætli hugsunin á bak við tillöguna sé ef til vill gamalkunn og miði að því að veita skattfé til útgáfu þessara fjölmiðla? Það skyldi þó ekki vera.

Staðbundnir fjölmiðlar geta verið bæði skemmtilegir og gagnlegir, rétt eins og þeir geta verið leiðinlegir og til óþurftar. Þetta breytir hins vegar engu um það að ríkið ætti ekki að taka fé af þeim sem engan áhuga hafa á útgáfunni og neyða þá til að styrkja hana. Þeir sem telja staðbundna fjölmiðla mikilvæga geta styrkt þá og þeir sem telja sig hafa beint gagn af þeim geta keypt þá. Margir hverjir gera það nú þegar. Þeir sem vilja fá að vera í friði fyrir útgáfu staðbundinna fjölmiðla ættu hins vegar að fá að vera það. En það er sem sagt enginn að halda því fram að Dagný Jónsdóttir, Birkir J. Jónsson, Björgvin G. Sigurðsson, Drífa Hjartardóttir, Gunnar Birgisson, Hjálmar Árnason, Magnús Stefánsson, Sigurjón Þórðarson og Þuríður Backman megi ekki nota hluta þingfararkaups síns til að styrkja útgáfu einhverra þeirra fjölmiðla sem þau telja mikilvæga. Vefþjóðviljinn þekkir af eigin reynslu að sumir eru reiðubúnir til að styrkja útgáfu án þess að nokkur neyði þá til þess og án þess að þeir geti búist við að njóta þess með nokkrum beinum hætti. En ákveði menn að gera þetta ekki, er fráleitt að ríkið taki um það ákvörðun fyrir þá.