Föstudagur 22. október 2004

296. tbl. 8. árg.
Reikningsárið er almanaksárið. Gjaldkeri semur reikning yfir tekjur og gjöld flokkssjóðs fyrir hvert reikningsár og skal leggja hann fyrir flokksstjórnina í febrúar ár hvert. Reikningurinn skal síðan lagður fyrir næsta landsfund til fullnaðargreiðslu. Það ár sem landsfundur er ekki haldinn skal gjaldkeri semja milliuppgjör og leggja fyrir flokksstjórn.
 – Lög Samfylkingarinnar, 13. kafli. Fjármál Samfylkingarinnar

Jæja það var flokksstjórnarfundur um síðustu helgi hjá Samfylkingunni. Milliuppgjörið var vonandi gott og vonandi lagt fyrir flokksstjórnina eins og lög flokksins mæla fyrir um. Nú bíða menn eðlilega spenntir eftir fréttum af reikningunum. Hverjir voru helstu stuðningsmenn Samfylkingarinnar á síðasta almanaksári? Hverjir lögðu mest í kosningasjóðinn fyrir þingkosningarnar í fyrravor? Hverjir studdu Samfylkinguna ekki neitt? Þetta eru spennandi upplýsingar sem geta auðvitað eytt alls kyns kjaftagangi um hverjir séu helstu bakhjarlar flokksins. Auðvitað birtir nútímalegur jafnaðarmannaflokkur, sem hefur umræðustjórnmál, þátttökustjórnmál og beint lýðræði að aðalsmerki, allar upplýsingar um þá sem leggja í púkkið. Skárra væri það nú. Það er að vísu liðin heil vinnuvika án þess að fjölmiðlar hafi spurt eftir þessum upplýsingum. Hvað liggur svo sem á? Er ekki bókhald Samfylkingarinnar hvort eð er opið allt árið? Geta menn ekki bara skoðað það sjálfir á vef Samfylkingarinnar? 

Það bara hlýtur að vera. Þingmenn flokksins hafa svo oft sagt bókhald Samfylkingarinnar vera galopið og flokkurinn hefur ályktað um það á landsfundum sínum að annað sé ótækt. „Opið bókhald minnkar ægivald peninganna í pólitíkinni“, sagði Björgvin G. Sigurðsson framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar til dæmis í pistli á Skjá einum. fyrir rúmum tveimur árum. Björgvin var þá varaþingmaður Samfylkingarinnar en er nú þingmaður sama flokks. Stefán Jón Hafstein, núverandi formaður framkvæmastjórnar Samfylkingarinnar, ritaði ófáa leiðarana í blaðið sem hann ritstýrði, Dag, um nauðsyn þess að opna bókhald flokkanna og sagði lokuð fjármál flokkanna vera hluta af „neðanjarðarhagkerfi“ sem þyrfti að uppræta. Jóhanna Sigurðardóttir oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík hefur flutt nokkur lagafrumvörpin um að opna bókhald flokkanna. Frumvörpin eru víst jafnmörg og flokkarnir sem hún hefur verið í framboði fyrir. Alþýðuflokkurinn, Þjóðvaki og Samfylkingin. Svo upptekin var Jóhanna við að flytja lagafrumvörp um nauðsyn opins bókhalds að það fórst fyrir að opna bókhald Þjóðvaka en sá flokkur var þó stofnaður af Jóhönnu, um Jóhönnu, út á hugmyndir Jóhönnu en var auðvitað kynntur sem „framboð fólksins“. 

Á landsfundi Samfylkingarinnar 18. nóvember 2001 samþykkti fundurinn eftirfarandi: „Í því skyni vill Samfylkingin … setja lög um opinberar fjárreiður stjórnmálaflokka.“ Og formaður flokksins Össur Skarphéðinsson hnykkti á þessu í ræðu sinni á fundinum:. „Við segjum: Burt með pukrið,“ og bætti svo við að hann hafi „lagt til að í framtíðinni muni Samfylkingin sjálf opna sitt bókhald.“

Nú. Það hlaut að vera. Það er „í framtíðinni“ sem á að losa um ægivald peninganna í pólitíkinni, reka burt pukrið, uppræta neðanjarðarhagkerfið og opinbera fjárreiðurnar. Ekki núna. Bara seinna. Enda er framtíðarhópur Samfylkingarinnar enn að störfum. Á meðan bíður framtíðin auðvitað.