Fimmtudagur 21. október 2004

295. tbl. 8. árg.
Með því að lækka virðisaukaskatt á nauðþurftum eins og mjólk, kjöti, fiski og brauði úr 14% í 7% þá er hægt að lækka matarverð um 30%.
– Jóhanna Sigurðardóttir, á Alþingi 12. þ.m.

A lþingismenn ræddu á dögunum hugmyndir Samfylkingarinnar um lækkun matarskattsins svokallaða. Þessi skattur er nú 14% en almenna þrepið er 24,5%. Jóhanna Sigurðardóttir, sem um árabil hefur verið einn helsti talsmaður flokksins í skattamálum, lagði lóð sitt á vogarskálarnar í þessari umræðu og lét meðal annars þau orð falla sem vísað er til hér að ofan, að með því að lækka matarskattinn úr 14% í 7% megi ná matarverði niður um 30%. Ýmsir sperrtu eyrun við þessi tíðindi og þótti sem nú væri stutt í að Jóhanna, og líklega Samfylkingin öll, kæmist á hið alþjóðlega kort fyrir að kollvarpa úreltum hugmyndum um stærðfræðina. Gamall máladeildarmaður, Halldór Blöndal forseti Alþingis, var einn þeirra sem sá að hann hafði þarna mætt ofjarli sínum í prósentureikningi og reyndi ítrekað að fá fram hvernig í ósköpunum þetta væri reiknað út, enda hefur hann vafalaust séð í hendi sér að víða mætti leysa fjárhagsvanda með Samfylkingarstærðfræðinni. Fátt varð um svör, svo gátan um stærðfræði Samfylkingarinnar er enn óleyst, en umræðurnar urðu Halldóri þó tilefni til ágætrar upprifjunar á fyrri sjónarmiðum svo kallaðra jafnaðarmanna.

Halldór rifjaði það til dæmis upp að Alþýðuflokkurinn, einn af forverum Samfylkingarinnar og sá flokkur sem Jóhanna var í lengst af, hafi verið alfarið á móti lægra þrepi á matvæli. Einn helsti talsmaður þessarar skoðunar hafi verið Jón Baldvin Hannibalsson, sem var formaður Alþýðuflokksins og fjármálaráðherra þegar Alþýðuflokkurinn tók þátt í að sprengja ríkisstjórn á þeim forsendum að tillögur Sjálfstæðisflokksins um lækkun virðisaukaskatts á matvæli væru „rýtingsstunga í bakið“. Og Jóhanna Sigurðardóttir var, eins og Halldór minnti á, einmitt einn af ráðherrum þessarar ríkisstjórnar og þar með einn af þeim forystumönnum Alþýðuflokksins sem sleit ríkisstjórnarsamstarfinu til að koma í veg fyrir lækkun matarskattsins. Á þeim tíma mátti ekki minnast á lækkun matarskattsins, nú er lækkun hans eina skattalækkunin sem kemur almenningi til góða. Hvernig getur nokkur maður tekið fólk, sem viðhefur slíkan málflutning, alvarlega?

G eir H. Haarde fjármálaráðherra setti fyrr í vikunni ofaní við Samfylkinguna og benti á að málflutningur flokksins einkenndist af málefnafátækt. Tilefnið var upphlaup Samfylkingarinnar í utandagskrárumræðu á Alþingi vegna þess að fjórir karlar voru skipaðir í tiltekna nefnd á vegum ríkisins. Geir var harðorður og lét þess réttilega getið í lok umræðunnar að Samfylkingin hefði „ekkert fram að færa nema frammíköll, öskur, skvaldur og fliss“. Gagnrýni Geirs fór mjög fyrir brjóstið á samfylkingarmönnum og þess var ekki langt að bíða að einn af stuðningsfjölmiðlum Samfylkingarinnar, DV, léti í sér heyra vegna málsins. Í gær hóf blaðið skrif, sem vafalítið munu halda áfram þar sem Geir hélt gagnrýni sinni á Samfylkinguna áfram í gær, um að hann „hafi verið óvenjugeðvondur að undanförnu“. Minnir þetta á sífelldan og ógeðfelldan málflutning Samfylkingarinnar og stuðningsfjölmiðla flokksins um fleiri stjórnmálamenn sem ekki sitja og standa eins og Samfylkingunni og tengdum aðilum hentar. Þegar Samfylkingin eða tengdir aðilar verða fyrir harðri gagnrýni af hálfu tiltekinna stjórnmálamanna þá hefur eitt helsta vopnið einmitt verið að hefja rógburð um það að nú sé viðkomandi „geðvondur“, „skapstirður“, „önugur“ eða annað ámóta málefnalegt.