Mánudagur 18. október 2004

292. tbl. 8. árg.

Æ

Þú velur mig svo aftur sem forsætisráðherraefni?“
– „Já, þegar ég er búinn að flytja ræðuna um beint lýðræði.“ „Fæ ég ekki að vera borgarstjóraefni aftur? Og án prófkjörs aftur?“
– „Jú, en ekki trufla mig, ég er undirbúa ræðuna mína um beint lýðræði.“
„Og ég vil fá að tilnefna nokkra vini mína á listann með mér. Og þeir mega ekki þurfa að fara í prófkjör.“
– „Nei, nei, róleg. Leyfðu mér að klára ræðuna mína, svo göngum við frá þessu.“
„Já og þinglistarnir, þú ætlar að passa uppstillinguna þar? Hún má ekki klúðrast í prófkjöri.“
– „Jájá, hvað er þetta, fær maður engan frið til að undirbúa ræðurnar sínar. Við göngum frá þessu á eftir sagði ég.“

tli þeir plati marga í þessari lotu? Samfylkingin hélt flokksstjórnarfund um helgina og gerðist þar tvennt. Fyrri fjölmiðlaveifan var að nú þóttist flokkurinn vera sérstakur baráttumaður fyrir beinu lýðræði, og sagðist meira að segja vilja að kjósendur fengju að ráða röð frambjóðenda á framboðslistum. Nú yrði Vefþjóðviljanum engin skemmtun af því að spilla barnslegri gleði einlægra áhugamanna um beint lýðræði, en það þarf að gera fleira en að skemmta sér: Samfylkingin hefur ekki minnsta áhuga á beinu lýðræði. Hún er hins vegar til í að tala svolítið um það, ef það hjálpar forystumönnunum að komast í fjölmiðla.

Hvernig leyfir Vefþjóðviljinn sér að fullyrða annað eins og þvílíkt? Jú, verkin sýna merkin. Það er enginn stjórnmálaflokkur á Íslandi sem er fjær því að styðja valrétt kjósenda í raun. Ef horft er til verka Samfylkingarforystunnar, en ekki bara orða hennar, þá blasir það við. Eigum við að taka nokkur dæmi? Í Samfylkingunni, eins og öðrum flokkum, gildir sú regla að flokksmenn fá að velja sér leiðtoga, formann flokksins. Allt í lagi með það. Í Samfylkingunni, einum flokka, er það hins vegar þannig að þegar flokksmenn eru búnir að velja leiðtogann, þá er tilkynnt að „Samfylkingin [hafi] ákveðið“ að allt önnur persóna skuli í raun vera leiðtogi flokksins og „forsætisráðherraefni“. Það var ekki haldinn landsfundur, ekki flokksstjórnarfundur ekki einu sinni þingflokksfundur til að taka þessa ótrúlegu ákvörðun. Nei, það var bara haldinn blaðamannafundur. Flokksstjórnin, sem flokksmönnum er sagt að sé æðsta vald flokksins milli landsfunda, var ekki kölluð saman til að ræða það að einhver annar en formaðurinn skyldi leiða flokkinn í kosningum og ríkisstjórn ef til kæmi. Þegar flokksstjórnin er loks kölluð saman, þá er það til að hlusta á einræður um „beint lýðræði“.

Eitt aðalnúmerið á flokksstjórnarfundi hins beina lýðræðis var Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Hún hefur aldrei farið í prófkjör. Þegar valið er á R-listann þá er sett sérstök regla þess efnis að kjósendur í prófkjörinu fái ekki að velja þann sem svo er borgarstjóraefni listans. Þar er einfaldlega sett án kosninga Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, áhugamaður um beint lýðræði. Og síðast nægði það ekki einu sinni. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fékk að tilnefna sérstaklega annan mann á listann og stuðningsmennirnir höfðu ekkert um það að segja. Þar var svo settur Dagur B. Eggertsson, annar sérfræðingur í lýðræði.

Og þegar stuðningsmenn Samfylkingarinnar eða R-listans fá með herkjum að velja lista í prófkjöri, þá komast þeir fljótlega að raun um að úrslitunum er kannski bara breytt. Þannig féll Árni Þór Sigurðsson á sínum tíma úr borgarstjórn þrátt fyrir að hafa fengið fleiri atkvæði í prófkjöri en Alfreð Þorsteinsson og Helgi Pétursson, sem báðir fengu örugg sæti. Ágúst Einarsson datt af þingi á Reykjanesi en inn fór Þórunn Sveinbjarnardóttir, sem þó fékk færri atkvæði en hann í prófkjörinu. Það var einfaldlega þannig að fleiri kjósendur í prófkjöri Samfylkingarinnar vildu Ágúst á þing en Þórunni, en engu að síður féll hann út en hún fór á þing og talaði sig þar hása um „lýðræði 21. aldarinnar“. Og sama mátti segja um Árna Þór og þá Alfreð og Helga. Kjósendur vildu eitt en forystan annað. Og í flokkum og kosningabandalögum nútímalegra vinstri manna þá þarf ekki að spyrja hvorir ráða.

Og hvernig var ekki fyrir norðan? Sigbjörn Gunnarsson fyrrverandi alþingismaður Alþýðuflokksins fór í prófkjör Samfylkingarinnar þar. Hann varð efstur. Fyrir neðan hann lenti Svanfríður Jónasdóttir fyrrverandi varaformaður Alþýðubandalagsins. Og listinn, hvernig var hann hafður? Svanfríður efst, Sigbjörn heima í Mývatnssveit.

Og jafnvel þó prófkjör séu afstaðin, búið að telja og endurtelja og búið að bjóða mönnum sæti á lista, jafnvel þá er kálið ekki sopið. Spyrjiði bara Eirík Bergmann Einarsson sem þegið hafði sjötta sæti Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi norður í síðustu kosningum. Skyndilega var kominn í sæti hans Ellert B. Schram. Og vildi ekki einu sinni segja sig úr Sjálfstæðisflokknum, því þar gæti losnað sæti síðar. Svona heldur Samfylkingin áfram og áfram. Milli kosninga heldur hún fund og talar um lýðræði 21. aldarinnar. Mætti Vefþjóðviljinn þá frekar biðja um lýðræði 20. aldarinnar.

Hin fjölmiðlaveifa Samfylkingarinnar á flokkstjórnarfundinum voru yfirlýsingar Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur um öryggis- og varnarmál. Af þeim sást tvennt. Herstöðvaandstæðingarnir hafa náð undirtökunum í Samfylkingunni. Og þeir munu gera allt sem þeir geta til að spilla viðræðum um framtíð varnarstöðvarinnar í Keflavík. Eru einhverjir aðrir en fréttamenn sem ekki sjá þetta tvennt?

Annars er skemmtilegt að það sé Össur Skarphéðinsson sem nú sé látinn tala fyrir auknu vali kjósenda milli frambjóðenda. Hver var strikaður mest út í síðustu kosningum?