Helgarsprokið 17. október 2004

291. tbl. 8. árg.
Þetta er nú einu sinni fólkið sem við treystum fyrir börnunum okkar.
 – Dæmigert jákvætt svar við því hvort ganga eigi að kröfum Kennarasambands Íslands.

Ífyrsta lagi er skólaskylda hér á landi þannig að erfitt er að víkja sér undan því að treysta kennara fyrir barni. Í öðru lagi eru flestir skólarnir reknir af hinu opinbera svo að það er afar takmarkað val sem menn hafa um hvaða kennara þeir treysta fyrir barni. Foreldrar hafa lítið um það að segja hvaða kennara er treyst fyrir barninu. Allt tal um traust í þessu miðstýrða opinbera kerfi er því marklaust.

Nú eru liðnar fjórar vikur af verkfalli kennara í grunnskólum sveitarfélaganna og ekkert bendir til að lausn sé í sjónmáli. Það er auðvitað eitthvað mikið að þeim þjónustufyrirtækjum sem skella á nef viðskiptavina sinna vikum saman með þeim afleiðingum af viðskiptavinirnir fá enga þjónustu og starfsmenn fyrirtækjanna engin laun.

„…kennarasambandið ráðskast ekki aðeins með allt er varðar vinnu og kjör kennarans heldur er það líka á kafi í því að skipuleggja frítíma hans, reisir sumarbúastaði og greiðir niður flugmiða og hótelgistingu í hans nafni og fyrir hans peninga.“

Verst er að viðskiptavinirnir geta ekki leitað annað þegar þeir verða fyrir svo snautlegri framkomu. Skólakerfinu er meira og minna miðstýrt af hinu opinbera með þeim afleiðingum af lítil keppni er milli skóla og ekki hægt að leita annað þegar einn skóli lokar vegna verkfall eða býður með öðrum hætti upp á slaka þjónustu.

En það er ekki nóg með að skólarnir séu í fjötrum miðstýringar heldur er kennurum miðstýrt af Kennarasambandi Íslands. Sambandið semur um kaup og önnur kjör fyrir alla kennara. Ekki einn í einu eða jafnvel hvern skóla fyrir sig. Nei, nei, sambandið semur fyrir alla kennara í einu. Góðir og slakir kennarar fá sama samninginn ef þeir eru jafngamlir með sömu menntun. Frábær kennari með litla starfsreynslu og fáar prófgráður fær lægri laun en vonlaus kennari með margar gráður sem hangið hefur á starfinu með tilvísun til „lögverndunar“ kennarastarfsins árum saman.

Það var verulega fróðlegt að skoða launaseðil eins kennarans sem kennarasambandið birti í blaðaauglýsingu á dögunum. Þar mátti sjá að dregnar voru tæpar þrjúþúsund krónur af kennaranum beint til kennarasambandsins, sama kennarasambands og kennarar virðast almennt sammála um að hafi ekki náð viðunandi árangri í samningum fyrir þeirra hönd. Að auki rennur hluti launanna í orlofsheimilasjóð, eftirmenntunarsjóð, námsleyfasjóð, fjölskyldusjóð og styrktarsjóð. Þegar allt þetta er talið kemur í ljós að þessi kennari er að greiða því sem næst ein útborguð mánaðarlaun í þessa þætti sem hann ætti auðvitað að taka sjálfur ákvörðun um hvort og hversu mikið hann greiðir í. Kannski vill hann greiða meira í styrktarsjóðinn og minna í orlofsheimilasjóðinn en Eiríkur Jónsson og Birgir Björn Sigurjónsson hafa ákveðið fyrir hann.

Menn hljóta að sjá að miðstýringin í þessu kerfi er orðin skelfileg þótt ekki væri nema af því að kennarasambandið ráðskast ekki aðeins með allt er varðar vinnu og kjör kennarans heldur er það líka á kafi í því að skipuleggja frítíma hans, reisir sumarbúastaði og greiðir niður flugmiða og hótelgistingu í hans nafni og fyrir hans peninga.

Kennarasambandið hefur þar á auki á samviskunni að hafa um árabil lagt gegn hvers kyns nýjungum í skólastarfi á vegum einstaklinga og fyrirtækja. Miðstýringin er mikilvægasti þátturinn í tilveru kennarasambandsins. Svo eru menn bara voða hissa á því að skólakerfið lamist reglulega og viðskiptavinir þess standi ráðalausir úti á götu eins og í hverju öðru sovéti.