Mánudagur 11. október 2004

285. tbl. 8. árg.

Undanfarið hefur talsvert verið rætt um dómstóla og dómara, hverjir megi verða dómarar og ekki síður hverjir eða hver megi ekki verða dómari. Það er ánægjulegt að menn ræði um dómstólana, svo mikilvægir sem þeir eru. Gallinn við umræðuna hefur hins vegar verið sá sami og oftast þegar fjallað er um dómstóla af öðru tilefni en sýknu í kynferðisbrotamáli: nær algert gagnrýnisleysi á það sem kemur frá dómurunum sjálfum.

Í síðustu kosningabaráttu til alþingis gerðist það að allt fylltist af mönnum sem töldu stórhættulegt fyrir lýðræðið að sömu menn sætu lengi við völd. Sömu sjónarmið höfðu verið sett fram árið 1994 þegar R-listinn kom fyrst fram á sjónarsviðið og vafalaust verða allir þessir sérfræðingar enn sömu skoðunar vorið 2006, þegar R-listinn mun bjóða fram eftir 12 ára samfellda setu við stjórn Reykjavíkurborgar. En já, það þótti stórhættulegt fyrir lýðræðið að sömu menn sætu lengi við völd, því að þeir yrðu svo spilltir og allt það. Vefþjóðviljinn andmælti þessum skoðunum og sagði að það væri hugsanavilla að segja að einhverjir hefðu setið við völd í átta, tíu eða tólf ár; enginn væri við völd lengur en fjögur ár í einu, því þá kæmu kosningar og menn yrðu að leita á ný til kjósenda. Þetta sagði blaðið ekki út í loftið, svona sem einhverja hártogun, heldur í fullri alvöru. Það er mikill munur á því að sitja óratíma við völd án kosninga, að hafa ekki þurft að leita til kjósenda í kannski áratug eða svo – og svo því að sitja mörg kjörtímabil, hafa reglulega leitað endurkjörs og átt allt sitt undir fylgi hins almenna kjósanda. Í fyrra tilfellinu kann að verða hætta á því að menn gleymi tilvist kjósenda og verði einir í heiminum. Í því síðara er engin sérstök hætta fólgin í því að menn sitji lengi. Vefþjóðviljinn er ekki hrifinn af R-listanum en blaðið hefur önnur rök en ártöl fyrir þeirri skoðun að skipta beri um stjórn í höfuðborginni.

En hvernig eru reglurnar með dómara? Þær eru nú einfaldlega þannig að þegar þeir einu sinni hafa verið skipaðir þá verður þeim ekki haggað. Þeir geta setið ævilangt, eins og það er stundum orðað og er að vísu ekki meint bókstaflega heldur vísað til aldursmarka sem gilda um stéttina. Hvernig sem dómari stendur sig, þá situr hann bara í embætti, að minnsta kosti ef hann stuðar engan með því að kaupa sér allt of mikið af víni. Dómar – aðrir en þeir sem þykja „vægir“ yfir kynferðisbrotamönnum – eru almennt ekki gagnrýndir, að minnsta kosti ekki þannig að nokkru skipti. Ef stjórnvöld voga sér að hafa aðra skoðun en undirgefni þegar kemur að dómum, þá ærist stjórnarandstaðan og álitsgjafar hennar. Aðeins einstaka lögmaður leggur í að gagnrýna dóma og þá er hann sagður tapsár, því fæstir lögmenn hafa tök á að leggjast yfir önnur mál en þeir sjálfir hafa flutt. Og ekki kvartar sigurvegarinn.

En lögmaður sem hefur kjark til að gagnrýna dóma með einörðum hætti, hann ætti þá kannski bara að sækja um dómarastarf og sýna að hann geti gert betur sjálfur, eða hvað? En hvað ætli gerist þá? Ætli þá sé ekki leitað til dómaranna sem hann hefur gagnrýnt og þeir beðnir um álit á því hvort maðurinn sé heppilegur í réttinn? Ætli keppinautar mannsins um starfið mæti svo ekki í fjölmiðla og segi að réttarríkið líði undir lok ef ekki verði farið eftir áliti dómaranna á umsækjendum? Hvort ætli svona kerfi sé nú líklegra til að skapa gagnrýna umræðu eða gagnrýnilausar frásagnir af dómum?

Og þegar ekki er unnt að víkja dómara úr embætti – nema þá með sérstökum dómi -, hvert er þá aðhaldið sem dómarar geta fengið? Það er ekkert eftir nema heilbrigð gagnrýni á verk þeirra. Og hver sinnir henni? Fjölmiðlar kannski?