D anskir fjölmiðlar hafa að undanförnu bent á að afleiðingar umfangsmikils velferðarkerfis eru oft aðrar en ætlunin er. Nýjasta dæmið um slíkt snýr að innflytjendum og aðlögun þeirra að dönsku þjóðfélagi. Eins og kunnugt er hafa mál innflytjenda orðið tilefni mikilla pólitískra deilna í Danmörku eins og víðar. Hefur það verið töluvert gagnrýnt, bæði innanlands og erlendis frá, hversu illa innflytjendum gengur að aðlaga sig dönsku samfélagi og sér í lagi hversu mikill hluti þeirra er ekki á vinnumarkaðinum. Danskir fjölmiðlar hafa gert nýrri skýrslu rannsóknarhóps Rockwool-sjóðsins (Rockwool Fondens Forskningsenhed) nokkur skil og telja sig hafa fundið hluta skýringarinnar þar. Meðal niðurstaðna skýrslunnar er, að meðal skýringa þess að mikill hluti innflytjenda er ekki á vinnumarkaði, séu háar atvinnuleysisbætur í Danmörku. Það borgar sig einfaldlega ekki fyrir marga að vinna. Á þetta einkum við um þá tekjulægstu en innflytjendur eru einmitt fjölmennir í þeim hópi.
„Önnur ástæða þess, að illa gengur varðandi aðlögun innflytjenda að dönsku samfélagi, er að lágmarkslaun eru svo há í landinu, að það borgar sig ekki alltaf fyrir atvinnurekendur að ráða vinnuafl…“ |
Þóttust nú fleiri vita en þögðu þó. Það liggur nefnilega fyrir að atvinnuleysisbætur í Danmörku eru jafnháar eða jafnvel hærri en lægstu laun. Margir atvinnulausir, sem býðst starf sem er lítið betur launað en bæturnar, freistast til að hafna vinnunni. Það finnst nefnilega ekki öllum borga sig að vera í erfiðisvinnu frá því snemma á morgnana og þéna ekki nema 10 – 20 þúsund krónum meira en bæturnar gefa af sér. Tölfræði Rockwool-rannsóknarinnar rennir stoðum undir þessa skoðun, enda fá 35% innflytjenda í Danmörku innan við 9000 íslenskum krónum meira í laun á mánuði en þeir myndu fá í atvinnuleysisbætur. Auk þess vinna sumir, sem er á atvinnuleysisbótum, svarta vinnu með og auka þannig tekjur sínar. Í ofanálag er það svo að ef vinnan, sem stendur til boða, gefur nokkuð betur af sér en bæturnar, þá er stutt í að alls kyns aðrar bætur skerðist, svo sem húsaleigubætur, ókeypis leikskólar og svo framvegis. Jaðarhópurinn er fyrir vikið enn stærri.
Danskir fjölmiðlar hafa nefnt annað atriði varðandi skýrslu rannsóknarhóps Rockwool-sjóðsins sem Vefþjóðviljinn vill staldra aðeins við. Önnur ástæða þess, að illa gengur varðandi aðlögun innflytjenda að dönsku samfélagi, er að lágmarkslaun eru svo há í landinu, að það borgar sig ekki alltaf fyrir atvinnurekendur að ráða vinnuafl, jafnvel í þeim tilfellum þar sem fyrirtæki vantar í raun starfsfólk. Ástæðan er sú að vinnuveitendur eru ólíklegir til að ráða margt fólk, telji þeir óvíst að fyrirtækið hagnist af því. Reikni þeir út að nýr starfskraftur geti skilað fyrirtækinu X króna tekjum í versta falli, en lágmarkslaun í landinu eru Y krónum hærri, er ekki ólíklegt að vinnuveitandinn taki ekki áhættuna. Jafnvel þó að ráðning starfskraftsins skilaði hugsanlega meiri tekjum þá er áhættan of mikil. Þegar svona lög eru sett lítur löggjafinn alveg fram hjá því að nokkur hópur manna og kvenna myndi hugsanlega gjarnan vilja vinna fyrir lægri launum en lágmarkslaunin kveða á um. En eins og alþekkt er hafa allt of margir stjórnmálamenn ríka tilhneigingu til að hafa vit fyrir samborgurum sínum um öll smáatriði lífsins. Viðhorfið er að fólki sé ekki treystandi til að semja um mál sín sjálft, það viti ekki hvað því sé fyrir bestu.
Önnur afleiðing laga um lágmarkslaun, sem margir telja óæskilega, er að mörg störf flytjast úr landi. Ekki endilega af því að óhagkvæmt sé að vinna þau í landinu, heldur vegna þess að óhagkvæmt er að sinna þeim fyrir þau laun, sem búið er að ákveða að séu lágmarkslaun. Störf sem ella veittu fólki atvinnu, fyrirtækjum tekjur og hinu opinbera skatttekjur, eru unnin erlendis. Þessar hugleiðingar er góð áminning um að ríkið hefur engar töfralausnir á öllum flóknum vandamálum sem upp koma í samfélagi manna.
Nokkrum dögum eftir að fjölmiðlar í Danmörku höfðu fjallað um skýrslu Rockwool-sjóðsins flutti Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Dana, ræðu við setningu þingsins. Þegar vegfarendur voru spurðir um álit sitt á ræðunni var ekki annað að heyra en hún hefði mælst tiltölulega vel fyrir. Flestir nefndu þó einhverja þá hluti sem þeir söknuðu úr ræðu forsætisráðherrans. Flestir nefndu nefnilega mál, sem stendur hjarta þeirra nærri og vildu að ríkið sinnti betur, ergó, vildu að ríkið eyddi meira fé í eða kæmi að með öðrum hætti. Hér er hugsunarvillan að ríkið hafi lausnir á öllum vanda á reiðum höndum. En svo einfalt er málið vitanlega ekki og þrátt fyrir að mönnum gangi hugsanlega gott eitt til þá eru ófyrirséðar afleiðingar inngripa ríkisvaldsins oft verri en ef heima hefði verið setið eins og dæmin hér að ofan sýna. Það getur vel verið að oft telji stjórnmálamenn sig vera að vinna þjóðþrifaverk þegar þeir setja reglur um hitt og þetta í samskiptum fólks, en oftar en ekki ná þau ekki tilgangi sínum. Þar sem staldrað hefur verið við Danmörku að þessu sinni, verður ekki hjá því komist að fjalla um enn eitt málið sem hefur verið þar til umfjöllunar undanfarið. Í Danmörku er nefnilega svo komið að það borgar sig varla að byggja leiguhúsnæði lengur.
Þegar stjórnmálamenn setja lög og reglur sem hefta frelsi manna verulega til að semja um leiguverð sín á milli, það er að segja setja reglur um hámarksleigu, gengur sumum þeirra vafalaust gott eitt til. Þeir vilja vernda lítilmagnann fyrir vonda húseigandanum, leigusalanum, sem ella krefðist svo hárrar leigu að siðlaust væri að þeirra mati. En afleiðingarnar eru hins vegar þær, að eftir því sem hámarksleigan er lægri, fækkar þeim sem stunda leigusölu, og að lokum hættir það alveg að svara kostnaði að standa í útleigu. Menn hætta að byggja leiguíbúðir því að það svarar ekki kostnaði. Það borgar sig heldur ekki lengur að stofna fyrirtæki til að kaupa húsnæði til að leigja út. Það verður arðvænna fyrir þá sem peninga eiga að fjárfesta í ríkisskuldabréfum. Og hverjar verða afleiðingarnar. Jú, að sumir lítilmagnanna, sem lögin eru sett til að vernda, enda á götunni. Og svo opnast vitanlega markaðurinn fyrir þá sem eru þannig innrættir að þeir heimta mútugreiðslur, svartar greiðslur og jafnvel kynferðislegra greiða fyrir að leigja fólki.
Með öðrum orðum, það verður skortur á leiguhúsnæði, því að það borgar sig ekki lengur að vera heiðvirður leigusali. Þar sem þeim sleppir taka hins vegar aðrir síður heiðarlegir við, sem eru til í að brjóta lög og viðtekið siðgæði. Þetta eru ófyrirséðar og óæskilegar afleiðingar lagasetningar sem hugsanlega er sett í góðum ásetningi um að vernda lítilmagnann. Vandamálin sem skapast eru stærri og verri en þau sem fyrir voru, og auk þess flytjast vandamálin oft frá einum hóp yfir á annan. Lausnir á alls kyns vandamálum, sem upp koma í samfélagi manna, felast ekki alltaf í frekari afskiptum hins opinbera af samfélaginu þó að það sé vissulega oft afsökun hins opinbera til frekari umsvifa. Þvert á móti getur aðkoma hins opinbera magnað vandamálin eða létt þeim af herðum eins hóps í samfélaginu en flutt þau um leið yfir á annan hóp.
Sem betur fer situr í Danmörku ríkisstjórn sem hefur betri skilning á því en sú sem á undan sat, að lausnirnar felast ekki alltaf í frekari útþenslu ríkisins og því að ríkið skipti sér að öllum smáatriðum mannlegs samfélags. Hið sama hefur átt við á Íslandi í forsætisráðherratíð Davíðs Oddssonar. Nú er að vona að nýr forsætisráðherra landsins, Halldór Ásgrímsson, og ríkisstjórn hans hafi á þessu sama skilning.